Gjöld út í veður og vind

Fréttir um afnám stimpil- og vörugjalda eru fagnaðarefni. Þótt ólíklegt sé að afnámið verði skyndilausn fyrir neytendur eru þetta í flestum tilfellum óskynsamlegir skattar. Afnám uppgreiðslugjalda er annað mál og er alltaf varhugavert þegar ríkið setur reglur um verðlagningu einkaaðila.

 
1. Stimpil- og vörugjöld
Deiglan hefur lengi lagt til afnám bæði stimpilgjalda og vörugjalda. Í fyrri pistlum hefur birst nokkuð nákvæm útlistun á göllum þessara skatta, og eru gallarnir helst fólgnir í því hversu sértækir þessir skattar eru.

Fréttir um afnám þessara skatta eru því fagnaðarefni. Sértækir skattar valda því oft neytendur grípa til ýmissa ráða til að komast undan því að greiða þá — afleiðingar gjalda á iPod og iPhone mp3 spilara eru dæmigerðar fyrir slíka skatta. Í stað sértækra skatta er yfirleitt heppilegra fyrir ríkið að afla sér tekna með breiðum skattstofnum, svo sem launatekju-, fjármagnstekju-, virðisauka-, eignar-, og erfðasköttum. Ástæðan er sú að mun erfiðara er að komast undan víðtækum sköttum, og þar sem skattstofn víðtækra skatta er yfirleitt stór má ná sömu tekjum með lægra skatthlutfalli. Afleiðingin er sú að fólk breytir síður hegðun sinni til að forðast skatta, og ríkið lágmarkar þar með neikvæð áhrif af skattlagningunni.

Það væru þó mistök að líta á slíkt afnám sem skyndilausn fyrir neytendur. Það er alls ekki gefið að afnám skatta skili sér að fullu í lægra vöruverði þegar til lengri tíma er litið. Afleiðingar slíkra skatta á verð fara eftir því hversu mikla möguleika neytendur hafa haft á því að forðast gjaldskyldar vörur og hversu virk samkeppni er á milli söluaðila á tilteknum vörum — og raunar er sérstaklega lítil ástæða til að ætla að afnám mjög sértækra skatta skili sér að miklu leyti í lægra vöruverði. Það er skynsamlegt fyrir stjórnmálamenn að benda á kosti þessara aðgerða fyrir neytendur. En afnám þessara gjalda ætti þó mun fremur að hugsa sem skref í átt að skilvirkara og hagkvæmara skattkerfi, sem hefur minni skekkjandi áhrif á neytendur og er ódýrara í framkvæmd fyrir skattayfirvöld.

Á ókostum sértækra skatta er ein stór undantekning. Ef skekkjandi áhrif þeirra eru jákvæð frekar en neikvæð eru þeir enn heppilegri en víðtækir skattar til tekjuöflunar. Þegar um slíkt er að ræða er það yfirleitt vegna þess að sú hegðun sem er skattlögð veldur neikvæðum ytri áhrifum eða gengur á sameiginlega auðlind. Þegar ríkið leggur á veiðileyfagjöld, virkjunargjöld, bensíngjöld og hljóðmengunargjöld, aflar það tekna á sama tíma og það stýrir hegðun einstaklinga og fyrirtækja í skilvirkari farveg. Því er ekki sérstök ástæða til að leggja niður slíka skatta.

2. Uppgreiðslugjöld
Hugmyndir um að „afnema“ uppgreiðslugjöld eru allt annars eðlis. Stimpil- og vörugjöld eru skattar sem ríkið innheimtir. Uppgreiðslugjöld eru gjöld sem einkaaðilar (t.d. bankar) innheimta af öðrum aðilum (t.d. neytendum) sem vilja greiða lán sín upp fyrr en um var samið, yfirleitt vegna þess að þeim bjóðast betri kjör annars staðar. Bankarnir bera sjálfir ákveðinn kostnað af því að leyfa uppgreiðslur lána. Þeir þurfa yfirleitt að greiða uppgreiðslugjöld sjálfir af sinni fjármögnun, ef þeim er þá yfir höfuð heimilt að greiða upp sín lán. Húsnæðislán án uppgreiðslugjalda verða því alltaf dýrari en lán með slíkum gjöldum.

Ríkið er ekki í aðstöðu til að „afnema“ þessi gjöld með öðrum hætti en að setja lög sem banna bönkum að veita lán á slíkum kjörum. Slík lög minna á forneskjulegar reglur um hámarksvexti bankalána. Einnig koma upp í hugann hugmynir Frjálslynda flokksins um „afnám“ verðtryggingar, sem eru næstum því jafnóskynsamlegar og stefna flokksins í innflytjendamálum.

Það er engin ástæða til að slaka á kröfum um virka samkeppni á milli bankastofnana, og nokkuð til í því að uppgreiðslugjöld geti dregið úr samkeppni. Bönn við því að einkaaðilar bjóði upp á tilteknar vörur hafa þó í gegnum tíðina yfirleitt reynst afskaplega illa, og fjölmargar leiðir eru heppilegri til að styrkja samkeppni á milli banka á neytendamarkaði en að banna þeim að bjóða upp á lán með uppgreiðslugjöldum.

Þeir sem veita lán á neytendamarkaði hafa ríkar skyldur um upplýsingagjöf til lántakenda, enda er um stóra samninga að ræða og til langs tíma, og á það ekki síður við um gjaldeyrisáhættu en um uppgreiðslugjöld. Það kann að vera nauðsynlegt að styrkja og skýra reglur um slíka upplýsingagjöf, og ef vísbendingar væru um að bankar væru að veita lán á röngum forsendum væri full ástæða til að grípa inn í. En á meðan slíku er ekki til að dreifa er slæmur kostur að auka ríkisafskipti með banni við uppgreiðslugjöldum, og skref aftur í tímann.
 

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)