Fleiri nörda-stelpur takk!

Hvers vegna eru konur ekki að skila sér inn í upplýsingatæknitengd fög á borð við tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði?


Hvers vegna eru konur ekki að skila sér inn í upplýsingatæknitengd fög á borð við tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði?

Sjálf lærði ég hugbúnaðarverkfræði og spurði mig oft að því hvort ég ætti í raun heima í þessu “karla” fagi enda var ég oftar en ekki eina stelpan í kúrsum.
Mikið hefur verið rætt um fjölgun stúlkna innan verkfræðideildar undanfarin ár sem er rétt út af fyrir sig. Sannleikurinn er hins vegar sá að hlutfall stúlkna innan einstakra skora verkfræðideildar hefur minnkað og er tölvunarfræðiskor dæmi þess. Þetta er að mínu mati mikið áhyggjuefni. Eftir því sem kynjahlutföllin skekkjast verður æ erfiðara að laga þau.

Það er undarlegt í nútímaþjóðfélagi að kynjahlutföllin séu svona brengluð í deildum Háskóla Íslands sérstaklega í ljósi þess að meira en helmingur nemenda skólans eru konur. Á meðan hlutföll innan skólans eru svona skekkt er ekki hægt að ætlast til þess að þau lagist úti í þjóðfélaginu.

Ég tel eina af ástæðum þess að konur eru ekki að skila sér inn í upplýsingatæknitengd fög megi rekja til þjófélagsumræðu sem hefur átt sér stað í tugi ára varðandi ólíka getu kynjanna í ákveðnum greinum. Hver kannast ekki við þá staðhæfingu að strákar séu betri í raungreinum og stelpur í mannlegum samskiptum og tungumálum. Þessi umræða byggir upp sjálfstraust barna á sumum sviðum meira en öðrum. Árið 2004 var gerð alþjóðleg rannsókn á stærðfræðiárangri barna. Þar kom í ljós að íslenskar stúlkur voru betri en drengir í stærðfræði en drengirnir hefðu meira sjálfstraust í þeirri grein. Það má því álykta að stelpur séu ekki slakari í raungreinum eða hafa minni áhuga á þeim heldur hefur því verið komið inn hjá þeim að þær séu betri í mannlegum samskiptum og tungumálum og þar af leiðandi leiðast þær frekar út á þá braut þegar kemur að því að velja háskólanám.

Það er að sjálfsögðu rangt að halda því fram að eina ástæða þess að kynjahlutföll innan ákveðinna faga Háskóla Íslands séu ójöfn vegna þess að þjóðfélagið gerði ráð fyrir því að strákar séu betri í þeim en stelpur. Að mínu mati er þetta þó eitthvað sem er vert að skoða. Þessa umræðu þarf að byrja einhvers staðar.

Ég tel það vera mjög brýnt að jafna kynjahlutföllin í minni starfstétt og vona að konur fari að sjá að þær eigi alveg jafn mikið erindi í hana eins og karlar.

Latest posts by Hrefna Lind Ásgeirsdóttir (see all)

Hrefna Lind Ásgeirsdóttir skrifar

Hrefna Lind hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.