Barnabækur fyrir börn

Endurútgáfa barnabókarinnar Tíu litlir negrastrákar á Íslandi hefur farið fyrir brjóstið á mörgum og það að hún fari fyrir brjóstið á mörgum hefur farið fyrir brjóstið á öðrum.

Endurútgáfa barnabókarinnar Tíu litlir negrastrákar á Íslandi hefur farið fyrir brjóstið á mörgum og það að hún fari fyrir brjóstið á mörgum hefur farið fyrir brjóstið á öðrum.

Þeir sem leggjast gegn endurútgáfu bókarinnar segja hana ýta undir kynþáttafordóma og óttast foreldrar barna sem eru dökk á hörund jafnvel að þau verði fyrir einelti vegna hennar. Þeir sem hneykslast á andstöðu við endurútgáfu bókarinnar segja fráleitt að ætla að ritskoða gamla og góða barnabók sem margir ólust upp við að lesa. Einnig hefur komið fram að myndskreytingarnar í bókinni séu eftir hinn ástsæla listamann Mugg og því sé þessi bók mikilvægur menningararfur.

Þótt þetta tvennt kunni að virðast sem fullkomnar andstæður í umræðunni þarf ekki svo að vera. Eitt er að taka ákvörðun um hvaða bækur ung börn lesi. Annað er svo umræðan um það hve æskilegt sé að framkvæma „lagfæringar“ á gömlum barnabókum, t.d. með því að endurskíra söguna sem „10 ungir Afríku-Ameríkumenn“ og breyta söguþræðinum þannig að þeir sinni uppbyggilegum samfélagsverkefnum í stað þess að heltast einn af öðrum úr lestinni fyrir klaufaskap sinn.

En markhópur bókarinnar er ung börn. Þeim er nákvæmlega sama þó að hinn merki listamaður Muggur hafi myndskreytt bókina og jafnvel þó að sjálft nóbelskáldið Halldór Laxness hefði samið vísurnar. Litlir og óþroskaðir heilar þeirra eru ekki færir um að meta slík atriði sem virðast skipta fullorðna fólkið máli heldur vilja þau skemmtilegar myndir, ekki verra ef þær eru litríkar, og skemmtilegan texta.

Samfélagsleg gildi eru í stöðugri þróun og endurspeglast gjarnan í bókum hvers tíma. Barnabókin Tíu litlir negrastrákar kom fyrst út árið 1922 eða fyrir 85 árum síðan. Rétt rúm 60 ár voru þá liðin frá því að fellt var úr bandarískum lögum að svartir voru skilgreindir sem þrælar. Á þessum tíma var orðið negri almennt notað yfir svarta en þegar að réttindabarátta svartra fór á flug á sjöunda áratugnum var orðið fellt úr bandarískum orðasöfnum þar sem það þótti niðrandi.

Það hafa margar bækur verið gefnar út í heiminum sem þykja óæskileg lesning og hafa jafnvel verið bannaðar. Til að mynda yrði bók Adolfs Hitler, Mein Kampf, seint sett fyrir sem lesefni fyrir börn í 9. bekk í grunnskólum. Ekki er þó verið að leggja barnabókina Tíu litlir negrastrákar til jafns á við Mein Kampf. Ekki er heldur mælt fyrir því hér að barnabókin Tíu litlir negrastrákar verði bönnuð né að hún verði ritskoðuð og endurútgefin með „politically correct“ tungutaki. En lykilatriðið er það að bókin er skrifuð fyrir börn og þau eru ekki fær um að lesa bókina með gagnrýnu hugarfari. Þau lesa bækur eða hlusta á þær lesnar upp með algjörlega opnum huga sem er í stöðugri mótun fyrstu æviárin.

Fólk getur barið sér á brjóst og sagt að það hafi lesið þessar bók sem börn og að það séu sko engir kynþáttahatarar fyrir vikið. Þar af leiðandi sé hið besta mál að lesa bókina fyrir börn í dag á heimilum og í leikskólum. En eins og fyrr segir þá eru bækur skrifaðar út frá ríkjandi gildum sem eru breytileg og þó svo að einhver bók hafi verið lesin áður fyrr þá þýðir það ekki að hún eigi alltaf jafn mikið erindi við börn hvers tíma. Ung börn eru ekki sagnfræðingar og það eru ekki miklar líkur á að þau greini á milli mikilvægi menningararfsins annars vegar og skemmtisagna af óförum negrastrákanna hins vegar.

Latest posts by Sigríður Dögg Guðmundsdóttir (see all)

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir skrifar

Sigga Dögg hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2005.