Er ekki komið að þeim?

Þegar umræðan kemur að því að leiðrétta rausnarlega kjör þessara stétta er ábyrgðinni varpað yfir á þær sjálfar. Rök fjármálaráðherra eru þau að það sé ekki hægt þar sem það hefur þensluhvetjandi áhrif og myndi raska jafnvæginu í hagkerfinu. Ljóst er að slík rök ganga ekki lengur.

Það hefur lengi verið í umræðunni á Íslandi að setja menntamálin í forgang. Stjórnmálamenn virðast flestir sammála um að gera það enda veltur framtíðarsamkeppnishæfni þjóðarinnar á því. Hins vegar eins og oft vill verða fylgja athafnir ekki fögrum orðum.

Síðustu ár hafa verið ein mestu uppgangsár í sögu þjóðarinnar. Launaskrið hefur verið mikið og kaupmáttur flestra hefur aukist stórkostlega. Hins vegar hafa stórar opinberar stéttir ekki fylgt þessari þróun enda bundnar af kjarasamningum til lengri tíma. Staðan í dag er þannig að flótti er úr kennarastéttinni þar sem laun á almennum markaði eru langt umfram það sem kennurum býðst hjá skólunum. Þessi flótti er enn sem komið er meira áberandi hjá leikskólakennurum og hefur stuðlað að mikilli manneklu með tilheyrandi vandamálum, s.s. töpuðum vinnustundum foreldra.

Þegar umræðan kemur að því að leiðrétta rausnarlega kjör þessara stétta er ábyrgðinni varpað yfir á þær sjálfar. Rök fjármálaráðherra eru þau að það sé ekki hægt þar sem það hefur þensluhvetjandi áhrif og myndi raska jafnvæginu í hagkerfinu. Ljóst er að slík rök ganga ekki lengur. Það er einfaldlega ekki hægt að segja þessum hópi það stöðugt að allir aðrir megi taka þátt í launaskriðinu og neyslufylleríinu en ábyrgðin á þenslunni sé hjá þeim. Þó svo að vissulega sé þörf á grundvallarbreytingum hjá kennarastéttinni þegar kemur að úreltu launakerfi og árangursmati þá ætti forgangurinn núna að vera að hækka launin. Verði hægt að tvinna það saman við breytingar þá væri það bara bónus.

Málið er sáraeinfalt. Þetta snýst um forgangsröðun og áherslur. Ef ríkið og sveitafélög sjá sér ekki hag í því leiðrétta laun þessara stétta áður en verr fer þá er það morgunljóst að menntamálin eru ekki í forgangi. Þá skiptir einfaldlega meira máli að gefa álverum skattaafslátt og byggja jarðgöng milli fámennra byggðarlaga. Opinberir aðilar verða þá líka að vera tilbúnir að taka afleiðingum slíkrar forgangsröðunar. Flótti úr hópi leikskólakennara mun halda áfram og hann mun færast í æ ríkari mæli yfir í stétt grunnskólakennara. Afleiðingarnar verða m.a. fleiri tapaðar vinnustundir svo ekki sé talað um lakari menntun fyrir ungviði landsins sem skilar sér í verri samkeppnishæfni þjóðarinnar til lengri tíma litið.

Staðan í dag er einfaldlega þannig að þetta þolir enga bið. Það þarf að ná sátt um það að leiðrétta kjör kennarahreyfingarinnar jafnvel þó það þýði fórnir á öðrum sviðum. Þar sem pistlahöfundur er ekki mikill talsvari hækkandi ríkisútgjalda, á einfaldlega að finna fjármuni annars staðar.Við þurfum og eigum að setja menntamálin í forgang. Fyrsta og mikilvægasta skrefið í þá átt er að meta störf þessara u.þ.b. 9.000 leik-, grunn- og framhaldsskólakennara að verðleikum og tryggja að að þeir tolli í starfi. Jafnvel þó að það kosti nokkra milljarða á ári. Peningana er vel hægt að taka annars staðar frá enda morgunljóst að hafi þeir einhvern tímann verið til staðar er það núna. Hvernig væri t.a.m. að draga úr óskynsamlegri jarðagangagerð, selja ríkisfyrirtæki og draga úr styrkjum í landbúnaði? Er það ekki allavega betra að þurfa að sækja mjólkina út fyrir landssteinana en menntunina?

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)