Munkarnir í Búrma

Hverjir eru þessir skrýtnu litlu kallar í kuflum sem virðast vera að gera allt vitlaust í Búrma? Hvernig stendur á því að þeim tekst að standa uppí hárinu á herforingjastjórninni, betur en nokkrum öðrum? Hér er dregin upp örmynd af stórmerkilegum þjóðfélagshópi.

Þegar fréttir af stjórnmálaástandi fjarlægra ríkja dynja á okkur marga daga í röð er stundum eins og við séum fórnarlömb latra fréttamanna eða -stjóra, sem finnst ekkert betra en að fá auðveldar fréttir í boði Reuters og AP. Fréttaflutningurinn einkennist oftar en ekki af tvívíðum og litlausum innslögum með endurunnum texta sem lesinn er yfir naumt skammtað og vel ritskoðað myndefni.

Með öðrum orðum eru fréttir af „ástandinu í Búrma“ sem segja ekkert meira en fyrirsagnir á erlendum netmiðlum óásættanlegar, en hins vegar eru atburðirnir stórmerkilegir og því þess virði að fjalla hér um það sem virkilega vakti áhuga minn.

Þó verð ég að taka eftirfarandi fram: Fyrir lesendur sem eru áhugasmir um þróun mála í Búrma bendi ég meðal annars á Deiglupistilinn Ástandið í Búrma eftir Erlu Ósk Ásgeirsdóttur, auk umfjöllunar allra helstu fréttamiðla heimsins síðasta mánuðinn eða svo (t.d. ágætis Q&A hér), því þessi pistill mun ekki fjalla á nokkurn hátt um stjórnmálaástandið í þessu litla ríki í austri. Ég hef bara áhuga á munkunum sjálfum.

Það þarf engan sérfræðing til að sjá hversu mikil áhrif munkarnir í Búrma hafa meðal íbúa landsins, en fyrir léttlútherstrúaðan og neysluvæddan Norðurlandabúa er erfiðara að skilja ástæðurnar fyrir þessum áhrifum. Þær koma þó fljótlega í ljós þegar betur er að gáð.

Byrjum á trúmálum í Búrma. Rúmlega 47 milljónir búa í landinu og af þeim eru 89% búddistar, þar af 4-500.000 munkar. Munkaklaustur eru í hverju þorpi og munkarnir eru andlegir leiðtogar fólksins. Þeir veita trúarlega leiðsögn og sinna mikilvægum skyldum við hjónabönd og jarðarfarir. Fyrir þetta fá þeir gjafir og framlög frá leikmönnum en mega ekki höndla með fjármuni.

Eitt atriði varðandi þessi samskipti milli munka og almennings er sérstaklega merkilegt í ljósi þeirra atburða sem nú eiga sér stað í landinu; ef munkarnir neita að taka við framlögunum koma þeir í veg fyrir að gjafinn vinni sér inn trúarlega inneign, og það telst þyngsta mögulega refsing fyrir hvern þann sem er Búddatrúar. Þetta er einmitt það sem munkarnir hafa gert gagnvart herforingjastjórninni og þannig gefið mótmælum sínum aukinn þunga, sérstaklega í huga hins almenna borgara í Búrma.

Munkarnir í Búrma gegna ekki aðeins trúarlegu hlutverki, heldur ekki síður mikilvægu samfélagshlutverki. Fjölmörg börn eru send ung í klaustur til að hljóta menntun auk þess sem stór hluti foreldra kýs að senda börnin sín í munkaklaustur í skólaleyfum. Enn fremur er ekki ólíklegt að sérhver íbúi Búrma hafi nokkrum sinnum á lífsleiðinni dvalið nokkrum sinnum hjá munkunum, gjarnan í nokkrar vikur í senn, og unnið sér inn nokkrar trúareiningar.

Núverandi mótmæli eru ekki þau fyrstu sem munkarnir í Búrma taka þátt í. Þeir hafa ávallt verið í forystuhlutverki í andófi gegn óvinsælum yfirvöldum, allt frá baráttu gegn nýlenduveldi Breta til síðustu lýðræðisvakningu í Búrma árið 1988.

Stjórnmálahlutverk þeirra á sér rætur frá þeim tímum þegar Búrma var konungsríki. Þá störfuðu munkarnir sem tengiliðir milli krúnu og þegna, og þrýstu á konung til að falla frá aðgerðum sem voru óvinsælar meðal almennings, t.d. of grimma skattheimtu. Þó má teljast ólíklegt að það hafi verið af ofstækisfullum frjálshyggjuástæðum, heldur hefur velferð þegnanna væntanlega verið þeim ofar í huga.

Þeir urðu herskárri á nýlendutímabilinu til að stemma stigu við vanvirðingu útlendinga fyrir hefðum þeirra og gildum. Þó eru aðeins um 10% munka í Búrma virkir í baráttu fyrir mannréttindum og bættu þjóðfélagi, og leiða má líkur að því að stærstur hluti munkanna sé jafnvel ekki meðvitaður um mótmælin sem þar hafa átt sér stað undanfarnar vikur.

Líklega mætti herinn sín lítils ef munkarnir leggðust af fullum þunga gegn stjórnvöldum, en það segir minna um stöðu herforingjastjórnarinnar og þeim mun meira um áhrif munkanna í Búrma.

Latest posts by Þorgeir Arnar Jónsson (see all)