Fangelsismál í ólestri

Það er lítið hugsað um fangelsismál á Íslandi og svo virðist vera sem einungis þeir sem sjálfir hafa setið inni, aðstandendur fanga eða þeir sem hafa starfað við fangelsismál séu þeir einu sem láta sig þessi mál varða. Fangelsismál eru hinsvegar ekki einkamál þessa fólks, þetta snertir okkur öll.

Afbrotamaður er settur í steininn, lokaður frá samfélaginu okkar í t.d. þrjú ár og þá er hann búinn að borga sína skuld til samfélagsins. En hvað gerist svo? Er sagan svo bara búin? Erum við þá bara laus við hann?

Nú er búið að betrumbæta Kvíabryggju og sé ég fyrir mér kaffistofu spjallið sem á eftir að fara af stað. „það er nú bara eins og að fara á hótel að fara á Kvíabryggju, flatskjár, fjarnám, ekki læst herbergi og engir rimlar. Hvað er þetta eiginlega? Eiga þeir ekki að hugsa um hvað þeir hafa gert?“ Refsing afbrotamanna snýst ekki um að þeir búi við slæmar aðstæður heldur er refsingin frelsissviptingin.

Þessir ólukkumenn eru sviptir frelsinu en hvað svo? Það er líklega ein versta tilfinning sem maður getur fundið er að vera sviptur frelsi sínu og að hafa ekkert frelsi í nokkur ár er ansi vont. En er það sem við viljum? Viljum við ekki að fólk sem dæmt er í fangelsi fari í endurhæfingu og verði betur stætt til að takast á við þau vandamál eða hverskonar aðstæður áður en því var stungið í steininn?

Það var gerð heimildarmynd ekki alls fyrir löngu um fanga á Litla Hrauni þar sem þeir sögðu sitt álit á fangelsinu. Orð eins fangans sitja enn í mér en hann sagði að þeim væri bara stungið inn í nokkur ár og svo væri þeim gleymt. Svo þegar þeir eru búnir að vera á bak við lás og slá er þeim hleypt út og það er ætlast til þess að þeir séu betri en þeir voru þegar þeir fóru inn. Það þarf að hjálpa fólki að vinna í því að gera sig betri og það krefst mikillar vinnu. Ég tel að þetta sé mjög mikilvæg vinna því þetta gæti skilað þessum afbrotamönnum sem betri mönnum þegar þeir koma út í samfélagið aftur..

Ég tel að ný og betri Kvíabryggja sé stórt og flott skref í rétta átt og eiga þeir sem að því stóðu hrós skilið. Það má samt ekki líta á þetta þannig að nú sé þetta bara búið, það þarf að hugsa kerfið okkar upp á nýtt. Fyrir mér eigum við að vera með endurhæfingarfangelsi fyrir alla fanga, ekki bara þá sem komast á Kvíabryggju. Það myndi skila því að úti í samfélaginu okkar væru færri síafbrotamenn.

Þetta er mál okkar allra, munum það.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.