Bílanótt 2007

Til hamingju Reykvíkingar! Menningarnótt í Reykjavík 2007 heppnaðist vel að nánast öllu leyti. Hámarks mennings og lágmarks pústrar. En er Bílanóttin í Reykjavík 2007 nauðsynlegur fylgifiskur menningarinnar? Er það ekki ómenning sem má kannski missa sig á menningarnótt?

Frábært veður, góðir straumar og jákvæðni er sennilega ágæt lýsing á menningarnótt sem fram fór í höfuðborginni nú um helgina. Miðbærinn iðandi af mannlífi og Miklatúnið fullt af fólki. Eitthvað sem hugsanlega væri staðreynd alla daga ársins ef miðbærinn væri ekki í jaðri borgarinnar og hlekkir bílismans væru ögn slakari. Það er gaman að lifa í blekkingum af og til.

Borgaryfirvöld og allir sem lögðu hönd á plóg eiga hrós skilið. Ekki síst litla einkaframtakið sem fékk að blómstra öðru fremur um stræti og torg.

En einn leiðinlegur fylgifiskur menningarnætur, fyrir utan stöku ofbeldis og pústra, er einmitt önnur hátíð sem hlýtur minni athygli. það er hin mikla bílahátíð sem haldin er í miðbænum samfara menninganótt.

Bílanótt 2007 var sennilega ekki eins vinsæl og menningarnótt 2007. Ef frá eru taldir þeir sem teljast geta forfallnir bílaáhugamenn. Öllu plássfrekari en menningarnóttin tekur hún meginþorra þess sem telja má opið rými í miðborginni með bílum lögðum þvert og endilangt um gangstéttar, umferðareyjur og óskilgreint junkspace miðbæjarins.

Hvernig væri nú að leyfa íbúum Reykjavíkur að njóta miðborgarinnar á menningarnótt líkt og hér væru samgöngumálin í einhverjum eðlilegum farvegi einnig? Að geta rölt um götur og stræti Þingholtanna án þess að þurfa að skáskjóta sér milli bíla lögðum á hvaða auða bletti sem gefst?

Skipulagsgáfa hefur því aldrei talist til helstu styrkleika Íslendinga. Og þegar kemur að samgöngum virðist vera einna dýpst í þennan hæfileika. það kom einna best fram á Þingvallahátíðinni 1994, á 50 ára afmæli lýðveldisins. Þar þurfti drjúgur hluti hátíðargesta að njóta hátíðarinnar sitjandi í bíl sínum í teppu á Mosfellsheiðinni á leið til Þingvalla.

Fáum þjóðum dettur nefnilega í hug að skipuleggja mass transit með einkabílum líkt og þar átti sér stað. Hér á landi virðast fjölskylduhátíðir útilokaðar án þess að fjölskyldubíllinn komi við sögu. Allt annað finnst Íslendingum óeðlilegt, af einhverjum ástæðum. En það er í öllu falli svolítill misskilningur.

Þegar skipulagðir eru stórviðburðir í erlendum borgum, jafnvel bandarískum bílaborgum, er gripið til ákveðinna úrræða til að koma fjöldanum til og frá stórviðburðunum sem þessum. Ekki einungis til að koma í veg fyrir götu- og bílastæðakaos, heldur einnig í öryggisskyni, þannig að unnt sé að flytja fjöldann burt í skyndingu ef eitthvað skyldi koma upp á.

Sérstakar strætó- eða rútuferðir frá stórum bílaplönum á jaðri borgarinnar og að viðburðasvæðinu er gott dæmi um það. Þar eru auglýstar rútuferðir með hárri tíðni milli stórra bílastæða á útjaðri borgarinnar og viðburðasvæðisins. Ströng viðurlög gilda síðan um ólöglega lagða bíla, en það er víst eitthvað sem Reykvíkingar virðast umbera öðrum fremur.

Yfirvöldum er þó ekki alls varnað. Á laugardaginn síðasta var ekin sérleið strætó um hátíðarsvæðið sem færði hátíðargesti hratt og örugglega milli helstu viðburða. Það var mjög sniðugt og gott skref í rétta átt.

Það er vonandi að menningarnótt 2008 renni upp líkt og fyrri menningarnætur með tilheyrandi dásemdum. En það væri óskandi að bílanóttin þurfi ekki að fylgja með í kaupbæti. Á næsta ári ættu borgaryfirvöld því að stefna að því að meginþorri hátíðargesti heimsæki hátíðina með strætó sem aki á (t.d.) 5-10 mínútna fresti á helstu aðalleiðum. Auk þess mætti jafnvel halda uppi nokkrum sérleiðum frá stærstu bílastæðunum í úthverfunum og beint á hátíðarsvæðið. Beint úr Smáralind í miðbæinn og til baka t.a.m.

Að sama skapi ætti að banna með öllu að bílum sé lagt ólöglega á hátíðarsvæðinu, hvort sem það eru gangstéttir eða umferðareyjur. Og auglýsa það VEL OG VANDLEGA! Allt ætti að vera gjaldfrjálst (fyrst menn eru komnir út í það rugl á annað borð) og nota tækifærið til að auglýsa strætó og vetraráætlun hans fyrir borgurunum. Enda varla betra tækifæri né betri tímasetning til þess. Þannig má einnig spara lögreglulið í umferðargæslu og einbeita sér að öryggi gangandi í miðbænum í staðinn.

Hver veit þá nema að á menningarnótt 2008 getum við kannski losað okkur undan bílaómenningunni sem hingað til hefur verið órjúfanlegur og fremur súr fylgifiskur.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.