Látum einkaframtakið stjórna fjárfestingum ríkisins

Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga heyrðust innan allra flokka frasar eins og “stórefla þarf opinber framlög” og “gera þarf stórátak” þegar rætt var um mikilvægi nýsköpunar í atvinnulífinu. Illa ígrundaðar upphrópanir sem þessar hafa lítinn tilgang annan en að vekja falsvonir, eyða skattpeningum og í besta falli enda sem fyrirsagnir í fjölmiðlum.

Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga heyrðust innan allra flokka frasar eins og “stórefla þarf opinber framlög” og “gera þarf stórátak” þegar rætt var um mikilvægi nýsköpunar í atvinnulífinu. Illa ígrundaðar upphrópanir sem þessar hafa lítinn tilgang annan en að vekja falsvonir, eyða skattpeningum og í besta falli enda sem fyrirsagnir í fjölmiðlum. Það má alls ekki misskilja það sem svo að undirritaður vilji ekki styðja við nýsköpun og sprotafyrirtæki heldur þvert á móti. Slíkt þarf hinsvegar að gera á réttum forsendum til að hámarka ágóða sprotafyrirtækjanna, arðsemi ríkispeninganna og ávinning þjóðfélagsins.

Fyrir nokkrum áratugum átti ríkið flest stærstu fyrirtæki landsins, bankana, fjarskiptafyrirtækin, orkufyrirtækin og svo mætti áfram telja. Flest þessara fyrirtækja eru nú komin í einkaeigu og hefur það ótvírætt sýnt sig að einkaaðilum er mun betur treystandi til að stýra fyrirtækjunum. Ekki nóg með það, heldur hefur ríkið mokað inn tekjum í staðinn vegna aukinna skatttekna. Allir græða.

Nú er komið að því að við förum að stíga næstu skref, og látum ekki aðeins einkaaðilana stýra gömlu ríkisfyrirtækjunum, heldur líka hluta af fjárfestingum og styrkveitingum ríkisins! Það er einfaldlega staðreynd að einkaaðilum, sem sjálfir bera fjárhagslega ábyrgð, er betur treystandi til að stýra þessum fjármunum heldur en launþegum ríkisins – að þeim öllum ólöstuðum. Fyrsta skrefið í þessa átt, ætti að taka í auknum stuðningi ríkissins við sprotafyrirtæki.

Nú spyrja menn eflaust, hvernig í ósköpunum á að fara að þessu. Lausnin er mjög einföld og hefur sú leið verið farin í mörgum löndum í kringum okkur og reynst afar vel.

Sú leið kallast “króna á móti krónu”, þ.e. ríkið fjárfestir í sprotafyrirtækjum á móti einkaaðilum. Slíkt hefur til dæmis reynst mjög vel í Skotlandi, en þar eru aðstæður um margt svipaðar og á Íslandi. Fyrirkomulagið er þá þannig að fjárfestar þurfa að sækja um að verða “vottaðir fjárfestar”, en til að fá slíka vottun þarf m.a. að sýna fram á nokkrar áræðanlegar eldri fjárfestingar og menn þurfa að ráða yfir ákveðnum fjármunum í hreinni eign til fjárfestinga. Þegar fjárfestir hefur fengið slíka vottun getur hann fjárfest í sprotafyrirtækjum og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum leggur ríkið jafn mikið hlutafé í fyrirtækið og fjárfestirinn gerir. Það er síðan fjárfestirinn sem fer með eignarhlut ríkisins og skipar í stjórn fyrir hönd ríkisins ef svo ber undir. Ríkið er því svokallaður hlutlaus fjárfestir í fyrirtækinu og “hermir eftir” fjárfestinum sjálfum að öllu leyti. Ef fjárfestirinn ákveður t.d. að selja sinn hlut í fyrirtækinu, verður hann einnig að sjá um að selja hlut ríkisins á nákvæmlega sömu kjörum.

Með þessu fyrirkomulagi myndi ríkið í raun slá þrjár flugur í einu höggi: Styðja við sprotafyrirtæki, spara sér launakostnað og annan yfirbyggðan kostnað við úthlutun peninganna (þar sem fjárfestirinn sér um alla þá vinnu), og í þriðja lagi ávaxta fjármuni sína á sambærilegan hátt og einkaaðilar á markaðnum.

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)