Baráttan um landgrunnið

Eitt mesta hagsmunamál Íslands er afmörkun landgrunnsins utan 200 sjómílna frá svokölluðum grunnlínum. Í næstu pistlum undirritaðs hér á Deiglunni verður reynt að útskýra um hvað málið snýst og af hverju þetta er svona mikið hagsmunamál.

Eitt mesta hagsmunamál Íslands er afmörkun landgrunnsins utan 200 sjómílna frá svokölluðum grunnlínum. Í næstu pistlum undirritaðs hér á Deiglunni verður reynt að útskýra um hvað málið snýst og af hverju þetta er svona mikið hagsmunamál.

Hvað er landgrunn?

Í náttúrulegri merkingu er landgrunnið sá stöpull eða pallur sem landið hvílir á. Oft er hann vel afmarkaður, brúnir hans greinilegar og hlíð niður á hafsbotninn utan grunnsins. Lagaleg merking hugtaksins er hins vegar önnur, enda málamiðlun stjórnmála og vísinda. Samkvæmt henni nær landgrunn yfir svonefnt landgrunnssvæði. Það tekur yfir grunnið út að ystu brúnum þess, hlíðina, þaðan niður og hlíðarfótinn. Einnig nær það til hinna svonefndu hlíðardraga, það er hins aflíðandi svæðis utan hlíðarfótarins, út á djúpsævisbotninn. Halli þess niður á við er mismunandi mikill eftir staðháttum. Landgrunnssvæðið tekur því til framlengingar landmassa strandríkisins neðansjávar og er samsett af grunninu, hlíðinni og hlíðardrögunum. Á því svæði hafa setlög hlaðist upp sem skolast hafa frá landi í tímans rás. Fyrir utan landgrunnssvæðið er djúpsævisbotninn, en hann heyrir ekki til landgrunnssvæðisins.

Landgrunn strandríkja nær að lágmarki 200 sjómílna fjarlægð frá landi samkvæmt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Strandríki hafa hins vegar möguleika á landgrunnsréttindum þar fyrir utan við tilteknar náttúrulegar aðstæður sem verður umfjöllunarefni annars pistils.

Í landgrunninu geta leynst margvíslegar auðlindir, helstar þeirra eru olía og gas. Það eru þó ekki einu náttúruauðlindirnar sem þar fyrirfinnast. Í landgrunninu geta verið margvíslegir málmar, m.a. metanhýdrat, tin, títaníum, króm, sirkóníum, demantar, blý, gull, silfur, járn, sink og kopar. Mikilvægar botnsetutegundir lifa á landgrunninu, t.d. ostrur, skelfiskur og krabbar. Hafa verður hugfast að fleiri auðlindir geta fundist í og á landgrunninu í framtíðinni með aukinni tækni og þekkingu, t.d. erfðaefni lífvera. Augljóst er því að eftir miklu er að slægjast í landgrunninu.

Söguleg þróun

Þar til á 20. öld var hafsbotninn almennt talinn alþjóðlegt svæði (l. res communis). Var því enginn greinarmunur gerður á réttarstöðu landgrunnsins og djúpsævisbotnsins. Ríki voru einungis talin njóta fullveldisréttar yfir hafsbotninum innan landhelgi þeirra sem þá var almennt þrjár sjómílur. Engu ríki var talið heimilt að taka sér yfirráð yfir landgrunninu utan marka landhelginnar.

Á fyrstu áratugum síðustu aldar hófu strandríki að lýsa yfir fullveldisrétti á nýtingu botnsetutegunda á landgrunninu. Sum ríki lýstu jafnvel yfirráðum sínum á vissum svæðum landgrunnsins. Tækniframfarir gerðu mönnum kleift að nýta náttúruauðlindir landgrunnsins utan landhelginnar og kveiktu þær áhuga strandríkja á yfirráðum yfir náttúruauðlindum sem leyndust þar.

Venja er að líta á yfirlýsingu Harry S. Truman forseta Bandaríkjanna frá árinu 1945 (sem venjulega er kölluð Truman-yfirlýsingin) sem fyrstu skýru yfirlýsinguna um að landgrunn tilheyri strandríkjum. Í yfirlýsingunni segir m.a. að ríkisstjórn Bandaríkjanna líti svo á að náttúruauðlindir í botnlögum og á botni landgrunnsins undir úthafinu og í framhaldi af ströndum Bandaríkjanna tilheyri Bandaríkjunum og séu háðar lögsögu og stjórn þeirra. Í fréttatilkynningu í tengslum við yfirlýsinguna kom fram að ytri mörk landgrunnsins voru talin vera 100 faðma dýptarlína, en 100 faðmar samsvara tæplega 200 metrum. Kröfur svipaðs efnis fylgdu í kjölfarið frá öðrum ríkjum. Innan áratugar hafði skapast samhæfð og nokkuð víðtæk framkvæmd ríkja á þessu sviði sem ekki var mótmælt af öðrum ríkjum og er hér á ferð skólabókardæmi um myndun þjóðréttarvenju.

Svokölluð Santiago-yfirlýsing Chíle, Ekvador og Perú frá árinu 1952 mætti harðri andstöðu annarra ríkja en átti eftir að hafa mikil áhrif á þróun hafréttarins. Í þeirri yfirlýsingu kröfðust ríkin fullveldisréttar yfir hafsbotninum og botnlögum hans að 200 sjómílum frá ströndum ríkjanna. Ríkin kröfðust einnig fullra yfirráða yfir höfum aðlægum ströndum þeirra sem og loftrými yfir hafinu að sömu vegalengd.

Genfarsamningurinn um landgrunnið frá 1958 var mikilvægt spor í sögu hafréttarins enda fyrsti hnattræni þjóðréttarsamningurinn um landgrunnið. Á fyrstu hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem fram fór árið 1958, var samningurinn til umræðu og virtist almenn sátt vera um að strandríki nytu vissra réttinda yfir landgrunninu. Í 1. tl. 2. gr. samningsins var svo fyrir mælt að strandríki færu með fullveldisrétt yfir auðlindum landgrunnsins að því er varðaði rannsóknir og nýtingu þeirra. Í 1. gr. voru ytri mörk landgrunns skilgreind á tvo vegu. Réttur strandríkisins skyldi ná út að 200 metra dýptarlínunni eða svo langt út fyrir hana frá ströndum sem unnt væri að nýta auðlindir landgrunnsins á hverjum tíma. Síðari hluti skilgreiningarinnar var nefndur nýtingarviðmiðið. Samkvæmt 3. gr. samningsins átti réttur strandríkisins til landgrunnsins ekki að hafa áhrif á yfirlæg hafsvæði, þ.e. úthafið, eða loftrýmið fyrir ofan hafsvæðin.

Í Norðursjávarmálunum frá árinu 1969 staðfesti Alþjóðadómstóllinn að 2. gr. Genfarsamningsins endurspeglaði þjóðréttarvenju. Í dómnum lagði dómstóllinn mikla áherslu á að landgrunnið væri náttúruleg framlenging af landmassa strandríkisins. Átti sú áhersla dómstólsins eftir að hafa mikil áhrif á framvindu mála á þriðju hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór á árunum 1973 til 1982.

Fyrrnefnt nýtingarviðmið var mjög gagnrýnt. Bent var á að það væri ónákvæmt og óskýrt. Með aukinni þekkingu væri hægt að nýta auðlindir landgrunnsins æ fjær ströndinni. Bent var á að á endanum gæti farið svo að gerðar yrðu kröfur til alls hafsbotnsins á grundvelli nýtingarviðmiðsins.

Árið 1969 ályktaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að Genfarsamningurinn um landgrunnið skilgreindi ekki nægilega mörk svæðisins þar sem strandríki nýtur fullveldisréttar til rannsóknar og nýtingar náttúruauðlinda og að þjóðréttarvenja á þessu sviði segði ekki til um réttarstöðuna. Ári síðar ályktaði allsherjarþingið að hafsbotninn utan lögsögu ríkja væri sameiginleg arfleifð mannkyns. Gagnrýnin á nýtingarviðmiðið og ályktanir allsherjarþingsins þrýstu á skýrari og ótvíræðari skilgreiningu á ytri mörkum landgrunnsins.

Á þriðju hafréttarráðstefnunni var almennur hljómgrunnur fyrir því að byggja á Genfarsamningnum um landgrunnið frá árinu 1958 varðandi réttarstöðu landgrunnsins og hver innri mörk þess ættu að vera. Aðaldeiluefnið voru ytri mörk landgrunnsins og stóð ágreiningurinn einkum á milli tveggja hópa ríkja. Annars vegar voru ríki sem vildu að ytri mörk landgrunnsins væru miðuð við vissa fjarlægð, t.d. 200 sjómílur líkt og ytri mörk efnahagslögsögunnar. Það hafði áhrif á þessa afstöðu að flest ríki hafa ekki náttúrulegt landgrunn sem nær út fyrir 200 sjómílur frá grunnlínum. Hins vegar voru ríki sem vildu að ytri mörkin væru miðuð við landmótunarfræðilega þætti. Hópur svonefndra breiðgrunnsríkja myndaði bandalag til að knýja á um að síðari aðferðin yrði niðurstaðan og var Ísland þar á meðal. Niðurstaða þriðju hafréttarráðstefnunnar um landgrunnið var málamiðlun þessara tveggja sjónarmiða.

Efni pistilsins er tekið upp úr:

Bjarni Már Magnússon. 2005. Hlutverk landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Úlfljótur 58,3:449-493. Reykjavík.