Einkavæðum orkufyrirtækin

Það er regin misskilningur að opinberum aðilum sé best treystandi til að sjá landsmönnum fyrir hagkvæmri orku. Hvað ætli Reykvíkingar hafi t.a.m. þurft að gjalda mikið fyrir línu.net leikfimi stjórnmálamanna í formi hás orkuverðs eða lélegrar nýtingar fjármagns?

Pistlahöfundur fagnaði mjög þegar leitað var tilboða frá einkaaðilum í hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja enda löngu orðið tímabært að einkavæða orkufyrirtæki landsins. Ungt Samfylkingarfólk er þessu þó ekki sammála enda lifir það í þeirri trú að ríkið sé betur til þess fallið að tryggja landsmönnum ódýra orku en einkaaðilar.

Að vissu leyti er þeim viss vorkunn því orkumarkaðurinn á Íslandi er flókin og samkeppni í smásölu er hvorki mikil né augljós. Hins vegar eru það miklu frekar leifar gamalla tíma þegar orkufyrirtækin voru í einokunarstöðu hvert á sínu markaðssvæði, en ófrávíkjanleg regla. Samhliða einkavæðingu orkufyrirtækjanna þyrfti því að auðvelda samkeppni í smásölu á orku og gera notendum algjörlega frjálst að skipta um orkusmásala án vandkvæða. Því miður er ekki hægt að segja að staðan sé þannig í dag.

Sé það að einhverju leyti skiljanlegt af hverju ungt Samfylkingarfólk er á móti einkavæðingu orkufyrirtækja vegna fákeppni eða einokunarstöðu þeirra á smásölumarkaði, er það með öllu óskiljanlegt að það geti verið mótfallið einkavæðingunni sé litið til heildsöluhluta þessara fyrirtækja. Á heildsölumarkaði hafa t.a.m. Orkuveita Reykjavíkur, Lansdvirkjun og Hitaveita Suðurnesja keppst um að bjóða í orkusölu til verðandi stóriðju á landinu. Væri það ekki nema til að eyða óvissu um orkuverð til stóriðju, hagkvæmni virkjunarkosta og til að auka gegnsæi varðandi mögulega gjaldtöku fyrir nýtingu náttúruauðlinda þá ættu ungliðar Samfylkingarinnar að vera hlynntir einkavæðingunni. Það má nefnilega segja að öll þessi atriði lúti að verndun umhverfisins. Þar að auki ættu einkaaðilar að geta betur tryggt að rétt verð fáist fyrir orkuna og að hún verði ekki eingöngu seld út frá annarlegum pólitískum sjónarmiðum á útsöluverði.

Það er morgunljóst að orkufyrirtæki landsins hafa í skjóli ríkis og sveitarfélaga komist upp með alls kyns tómstundastarfsemi sem hefði ekki liðist hjá einkafyrirtækjum. Orkufyrirtækin eru risaeðlur í nútíma atvinnulífi þar sem má eflaust hagræða mikið í rekstrinum og koma þeim fjármunum sem sparast í hagkvæmari nýtingu annars staðar. Það er því regin misskilningur að opinberum aðilum sé best treystandi til að sjá landsmönnum fyrir hagkvæmri orku. Hvað ætli Reykvíkingar hafi t.a.m. þurft að gjalda mikið fyrir línu.net leikfimi stjórnmálamanna í formi hás orkuverðs eða lélegrar nýtingar fjármagns? Einkaaðilum er vel treystandi fyrir að útvega landsmönnum orku á hagkvæmu verði líkt og þeim er treystandi til að sjá um framboð á öðrum neysluvörum.

Það skal þó ekki gleyma því að tryggja þarf viðunandi samkeppni á markaðinum og til þess þarf að einfalda lög og regluvirki um orkufyrirtæki. Að því búnu ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að opinberir aðilar selji öll orkufyrirtæki í sinni eigu og opni þar með aðgengi að frjálsum orkumarkaði, landsmönnum öllum til góða.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)