Aflátsbréf til sölu

Fyrir krónur 7.685,- kemst ég til himnaríkis. Ég gróðurset nokkur tré og hreinsa þar með samvisku mína. Greiði þetta með Vísakortinu eða Mastercard og get í framhaldinu lifað lífi mínu áhyggjulaus. Býður einhver betur? Nei, það efast ég um. Hvað ætlar þú að gera?

Fyrir krónur 7.685,- kemst ég til himnaríkis. Ég gróðurset nokkur tré og hreinsa þar með samvisku mína. Greiði þetta með Vísakortinu eða Mastercard og get í framhaldinu lifað lífi mínu áhyggjulaus. Býður einhver betur? Nei, það efast ég um. Hvað ætlar þú að gera?

Um daginn fann ég heimasíðu með reiknivél sem reiknaði fyrir mig hversu mörg tré ég þarf að gróðursetja á ári til að kolefnisjafna þá mengun sem ég veld umhverfinu með bílnum mínum. Það eru um það bil 50 tré sem ég þarf að gróðursetja á ári, og það kostar mig heilar 7.685 krónur. Gott að vita verðið sem ætti að nægja til að hreinsa samvisku mína. Ég get meira að segja greitt með Visakorti mínu í beinu framhaldi eftir útreikninginn, en það gerir þetta enn einfaldara. Núna get ég loksins orðið alvöru grænn umhverfissinni.

Ég skilgreini sjálfan mig sem umhverfissinna. Það er að segja að ég er sammála því að við verðum að fara vel með umhverfið okkar, flokka rusl, endurvinna og ég tel að með einföldum breytingum getum við lifað góðu lífi í fallegu og hreinu umhverfi. Það liggur í eðli okkar allra að vilja hafa hreint í kringum okkur. Flest þekkjum við muninn á hreinni miðborg Reykjavíkur og þeirri miðborg sem hægt er að upplifa eftir góða djammhelgi. Ég hef persónulega meiri áhuga á þeirri hreinni.

Kolefnisjöfnun er ekkert annað en samviskujöfnun
Ég er ekki sammála markaðsetningu kolefnisjöfnunar. Þetta er ekki svar við mengunarvanda okkar, heldur einföld leið til að jafna samvisku fólks. Nokkuð sniðugir markaðsfræðingar standa á bak við þetta ásamt háskólasamfélögum víða um heim og tekist hefur að gera alla dauðhrædda með tali um dómsdag mannkynsins vegna gróðurhúsaáhrifa. Þetta líkist kirkjunni á sínum bestu dögum, þegar þú gast borgað kirkjunni og fengið staðfestingu á beinni leið til himnaríkis. Aflátsbréf. Með Gróðurhúsaáhrifin sem djöfullinn og helvítið í þessu nútíma tilfelli er fólk hrætt til þess að greiða fyrir kolefnisjöfnun og koma þannig í veg fyrir dómsdag í framtíðinni. Því miður kemur ekki fram á heimasíðunni sem ég heimsótti hvort ég fæ miða beint til himnaríkis, en ég verð bara að vera bjartsýnn. Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar, notaði þessa líkingu í viðtali á ruv.is.

Aflátsbréf nútímans, kolefnisjöfnunin, er rögn stefna að mínu mati. Það er rangt að þrýsta undir þá hugsun að einstaklingurinn geti mengað, svo lengi sem hann kolefnisjafni sig. Við eigum að geta keyrt um á bílunum okkar, farið í sólarlandaferðir, stundað alþjóða viðskipti og lifað þessum lífsstíl ef við bara berum örlitla virðingu fyrir umhverfi okkar. Íslendingar hafa ekki verið sérstaklega duglegir við að flokka rusl, endurvinna o.s.frv. Fólk getur orðið umhverfisvænna á einfaldan hátt. Til dæmis með því að hætta að henda rusli út í náttúruna og á götur bæja. Slökkva á ljósum og raftækjum sem þurfa ekki að vera í gangi allan sólarhringinn. Nota minni sápu við uppvaskið, velja lífrænt eins oft og kostur gefst, og þannig mætti lengi telja.

Einstaklingurinn ber ábyrgðina
Sleppum því að kenna Bandaríkjunum um flest það sem miður fer í heiminum og þar með talin umhverfisvandamálin. Hættum að kaupa aflátsbréf fyrir samviskuna, hættum að kenna fyrirtækjum um alla mengun og hættum að láta ríkið og bæjar- og sveitarfélög þurfa að nota skattpeninga okkar til að greiða auka gatnahreinsum vegna slæmrar umgengni. Við sem einstaklingar berum ábyrgð á þeirri umhverfismenningu sem verður til í okkar samfélagi. Við erum starfsmenn og stjórnendur allra þessara sömu fyrirtækja og stofnana. Það er einstaklingurinn sem ber ábyrð á því að hafa góð áhrif á náttúruna og lífið í kringum sig.

Þetta er í raun farið að skila sér að vissu leiti. Nýja Boeing þotan verður umhverfisvænni en aðrar vélar, hreinsibúnaður í iðnaðarfyrirtækjum er að verða betri og bílar verða sífellt umhverfisvænni með nýrri tækni og nýjum búnaði svo nokkur dæmi séu nefnd.

Það er markmið okkar að búa til hreint umhverfi fyrir okkur sjálf sem og afkomendur okkar. Til að ná því markmiði gerir kolefnisjöfnun lítið gagn, skilar einungis frá sér status quo.

rej1@hi.is'
Latest posts by Reynir Jóhannesson (see all)