Álið og „eitthvað annað“

Umræðan um umhverfismál og stóriðju gæti breyst verulega næstu misserin. Spáð er 4-4,5% atvinnuleysi árin 2009 og 2010 og kröfur um beinhörð störf verða án efa háværari en hugmyndir um að vernda náttúruna og treysta á hið fræga „eitthvað annað“. En er tilefni til að hafa miklar áhyggjur af þróun mála?

Eitt af minnistæðari atvikum kosningabaráttunnar í vor var án efa þegar Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sat fyrir svörum í sjónvarpssal og var spurður hvernig hann ætlaði að tryggja atvinnu, fyrst flokkur hans væri á móti álverum og frekari uppbyggingu þeirra – hvað væri þetta fræga „eitthvað annað“ sem kæmi í stað álsins. Steingrímur svaraði með því að telja upp ýmis minni fyrirtæki hér og þar um landið, meðal annars bjórverksmiðju á Árskógsströnd. Því var síðan slegið upp á Stöð 2 kvöldið eftir, sem sérstakri „frétt“, að Steingrímur teldi nú bjórverksmiðjur til jákvæðra þátta atvinnulífsins, þó hann hefði greitt atkvæði á móti bjórnum á þingi 20 árum fyrr.

Þetta atvik skipti auðvitað ekki miklu máli í kosningabaráttunni í heild sinni en sýndi að það getur verið þrautinni þyngri fyrir stjórnmálamenn að ræða um og verja tiltekna atvinnuvegi umfram aðra. Andstæðingar VG fengu að kynnast því framan af vetri í álvers- og umhverfisumræðunni, sem sópaði tímabundið fylgi til vinstri grænna og tók sérstaklega frá Samfylkingunni, að það er ekkert grín að bera blak af álverum og stóriðju. Stór forsenda fyrir auknu vægi umhverfisverndar og andstöðu við stóriðju var auðvitað sú að þar sem atvinnuleysi á Íslandi hefur verið með því lægsta á byggðu bóli, er vandséð hvers vegna fara þurfi út í stóriðjuuppbyggingu. Hvaða störf þurfti eiginlega að skapa þegar allir eru með vinnu?

Samdráttur framundan
Þessi staða kynni hins vegar að breytast á næstunni þar sem framundan er samdráttarskeið í þjóðfélaginu, sem mun meðal annars birtast í auknu atvinnuleysi – vandamáli sem hefur blessunarlega ekki verið fyrir hendi hér á landi undanfarin ár.

Ný þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins spáir 4-4,5% atvinnuleysi árin 2009 og 2010, sem er fjórföldun á við það sem nú er. Sú staða hlýtur að setja spurninguna um „eitthvað annað“ í nýtt ljós. Krafan um atvinnuuppbyggingu verður sterkari á sama tíma og krafan um umhverfisvernd og hófsemi verður ekki jafnsterk og áður.

Flokkarnir sem mest hafa byggt á umhverfisvernd – Íslandshreyfingin og VG – kynnu að fara illa út úr slíkri umræðu og Samfylkingin mun trúlega prísa sig sæla fyrir að hafa ekki tekið umhverfisútspilið sitt lengra á sínum tíma en að tryggja „nauðsynlega heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra“ eins og Fagra Ísland boðaði. Kröfur um að blása af alla stóriðju um óákveðinn tíma munu trúlega hljóma undarlega þegar hvað mest kreppir að árin 2009 og 2010, þ.e. ef spá fjármálaráðuneytisins reynist rétt, enda ekki jafnauðvelt að andmæla atvinnutækifærum þegar atvinnuna skortir, hversu æskileg eða óæskileg þau tækifæri kunna að vera.

Það þarf þó ekki að vera tilefni til að hafa stórar áhyggjur. Þrátt fyrir að 4-4,5% atvinnuleysi sé meira en við erum vön, er það svipað og viðgengst víða í löndunum í kringum okkur og á meginlandi Evrópu, t.d. í Þýskalandi, Frakklandi og Spáni birtast slíkar atvinnuleysistölur helst í villtustu draumum bjartsýnustu ráðamanna. Atvinnuleysi þar er langvarandi vandamál sem hefur haft miklar félagslegar afleiðingar. Engin hætta er á slíku hér.

Tækifæri í breyttri stöðu
Þessi breytta staða gefur aukið tilefni til frekari skattalækkana á fyrirtæki, sem hefði afar jákvæð áhrif bæði til skemmri og lengri tíma litið. Skattar á fyrirtæki eru 18% í dag en í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að til standi að lækka það hlutfall á kjörtímabilinu. Slík breyting yrði án efa innspýting í atvinnulífið og gæti laðað að fyrirtæki erlendis frá, ekki síst þegar verðbólgan og vextir eru á hraðri niðurleið. Með lækkun fyrirtækjaskatta hægt að ná fram mikið af „einhverju öðru“, enda örvar hóflegt og rétt stillt skatthlutfall atvinnulífið og skilar meiri tekjum og umsvifum í hagkerfinu.

Ný staða í atvinnumálum gæti líka sett umræðuna um virkjanir og stóriðju í jarðbundnara samhengi en hún hefur verið. Þrátt fyrir ekki sé langt um liðið frá því að framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun fóru af stað, má segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar í umræðu og þekkingu á þessum málaflokki síðan þá. Fram hefur komið að stjórnmálaflokkarnir, jafnvel þeir sem hafa hvað helst viljað virkja, hafa ekki á stefnuskránni að ráðast í aðra eins vatnsaflsvirkjun og Kárahnjúka í náinni framtíð og hugsanlega aldrei. Jarðvarmi hefur fengið meiri athygli enda hlýst minna landrask af slíkum framkvæmdum en af stórum vatnsaflsvirkjunum.

Lagaumhverfið í tengslum við virkjanir og náttúruauðlindir hefur líka breyst. Ríkið hefur að nánast öllu leyti dregið sig út úr ákvarðanatöku um virkjanir og álver og í stað þess að vera í senn gerandi og löggjafi á sama sviðinu sér ríkisvaldið nú fyrst og fremst um að setja hinn almenna ramma. Sveitarfélög og fyrirtæki taka einstakar ákvarðanir um uppbyggingu á sviði stóriðju, að uppfylltum almennum skilyrðum. Þó það fyrirkomulag sé ekki gallalaust má segja að það sé talsverð framför að ríkisvaldið sé ekki með puttana í einstökum ákvörðunum en einbeiti sér þess í stað að því að skapa leikreglurnar. Dæmi um þetta eru mengunarkvótar sem fyrirtæki á sviði stóriðju verða að útvega sér sem tryggir að útblástur af stóriðju fer ekki yfir ákveðið hámark og fyrirtæki haga útblæstri sínum á hagkvæman hátt.

Mikill áhugi á umhverfisvernd
Tímarnir eru líka breyttir að því leyti að möguleikar á sviði uppgræðslu og kolefnisjöfnunar hafa stóraukist og aðkoma stórra fyrirtækja og hins opinbera að verkefninu Kolviði er jákvæð þróun. Í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi kom fram að ef álver verði byggt á Bakka við Húsavík standi til að kolefnisjafna allan útblástur frá álverinu með því að rækta upp landsvæði á stærð við höfuðborgarsvæðið í grenndinni. Þó kolefnisjöfnun hér á landi sé kannski engin allsherjarlausn, eins og vinirnir Stefán Jón Hafstein og Andríki hafa bent á, er alveg ljóst að um er að ræða jákvætt skref sem sýnir kannski fyrst og fremst aukna viðleitni fyrirtækja og einkageirans til að láta sig varða um umhverfismál.

Þótt framundan kunni að vera erfiðir tímar í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar er engin ástæða til að örvænta. Þjóðarbúið er vel í stakk búið til að takast á við slíkar aðstæður og tækifærin til mótvægisaðgerða eru mörg, bæði með hefðbundnum leiðum á borð við skattalækkunum á fyrirtæki en einnig með því að halda áfram uppbyggingu í orkuiðnaði. Þeirri þróun ættu umhverfisverndarsinnar ekki að þurfa að kvíða, enda hefur mikil vitundarvakning orðið í tengslum við umhverfismál, bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Við ættum að geta notið og nýtt og í þokkabót fundið ágætis jafnvægi þar á milli.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.