Einföld leið til þess að lækka lyfjaverð

Á síðasta kjörtímabili spannst allnokkur umræða í þjóðfélaginu um hátt lyfjaverð. Í þessari umræðu kom fram að mun minna úrval er af samheitalyfjum á Íslandi en hjá grannþjóðum okkar. Þessi skortur á úrvali samheitalyfja dregur úr samkeppni á samheitalyfjamarkaði á Íslandi og er því einn af þeim þáttum sem gerir það að verkum að lyfjaverð á Íslandi er hærra en annars staðar.

Á síðasta kjörtímabili spannst allnokkur umræða í þjóðfélaginu um hátt lyfjaverð. Í þessari umræðu kom fram að mun minna úrval er af samheitalyfjum á Íslandi en hjá grannþjóðum okkar. Þessi skortur á úrvali samheitalyfja dregur úr samkeppni á samheitalyfjamarkaði á Íslandi og er því einn af þeim þáttum sem gerir það að verkum að lyfjaverð á Íslandi er hærra en annars staðar.

Ein af orsökum þess að úrval samheitalyfja er ekki meira en raun ber vitni á Íslandi er að sumir framleiðendur samheitalyfja láta hjá líða að sækja um leyfi fyrir lyf sín á Íslandi. Þessir framleiðendur telja í mörgum tilvikum Ísland einfaldlega vera of lítinn markað til þess að það svari kostnaði fyrir þá að sækja um leyfi.

Sú krafa íslenska ríkisins að lyf sem seld eru á Íslandi þurfi að fá sérstakt leyfi á Íslandi virðist því vera viðskiptahindrun sem á þátt í því að halda uppi lyfjaverði á Íslandi. Það sem meira er, þessi viðskiptahindrun er óþörf. Unnt væri að ryðja henni úr vegi einfaldlega með því að breyta lyfjalögum þannig að leyfilegt væri að selja á Íslandi öll lyf sem hafa fengið leyfi t.d. í Evrópusambandinu eða í Bandríkjunum (eða annað hvort í ESB eða Bandaríkjunum).

Breyting af þessu tagi myndi auka til muna samkeppni á samheitalyfjamarkaði á Íslandi og þannig leiða til lægra lyfjaverðs. Ef íslenska ríkið vill halda eftir einhvers konar öryggisventli, mætti hugsa sér að Lyfjastofnun hefði vald til þess að banna sérstaklega einhver tilskilin lyf sem leyfð hafa verið á viðmiðunarsvæðinu. En meginreglan ætti að vera sú að lyf sem eru leyfð á viðmiðunarsvæðinu séu einnig leyfð á Íslandi.

Það er einstaklega bagalegt að óþarfa skriffinska eins og sérstakar leyfisveitingar fyrir lyf á Íslandi sé að halda uppi lyfjaverði. Flestar breytingar á heilbrigðiskerfinu eru flóknar og tvíbendnar. Þessi er hins vegar einföld og augljós. Hún ætti því að vera með því fyrsta sem nýr heilbrigðisráðherra beytir sér fyrir.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.