Sölumennska er atvinnugrein sem hefur ekki farið varhluta af þeirri gríðarlegu þróun sem hefur átt sér stað í hinum vestræna heimi. Auglýsendur leita sífellt nýrri leiða til að heilla væntanlega viðskiptavini, nokkuð sem má glöggt sjá með auknu vægi auglýsingasálfræði og markaðsfyrirtækja. Hins vegar er ein tegund sölumennsku sem virðist ekki fylgja tíðarandanum.
Trúboð eða trúkynningar Votta Jehóva eru ótrúlega gott dæmi um aðferðafræði sem er ekki líkleg til að skila nokkrum árangri. Einhverjir vilja eflaust halda því fram að trúarbrögð eigi ekki að lúta lögmálum markaðarins og því syndsamlegt að fylgja þeirri, oft vafasömu, þróun sem sölumennska gerir. Því verður hins vegar ekki neitað að heimsóknir Votta Jehóva minna mig óneitanlega á þau skipti sem Herbert Guðmundsson hefur staðið í dyragættinni og boðið mér að fjárfesta í úrvali bóka. Viðbrögð við þessum heimsóknum eru í hið minnsta keimlík. Í fyrstu á ég erfitt með að meðtaka hvers vegna viðkomandi einstaklingur stendur í dyragættinni, því næst afþakka ég undantekningalaust söluvöruna og stend að lokum fullur meðaumkunar er ég horfi á eftir sölumönnunum ráfa í næsta hús. Þetta uplifði ég síðast í gær þegar tveir japanskir Vottar Jehóva bönkuðu upp á hjá mér um fjögurleytið á sólríkum sunnudegi.
Það sem kemur einna helst á óvart er hin hreinræktaða von sem sjá má í augum sölumanna trúarinnar, í upphafi annars mjög stuttra samskipta. Von um að í þessu húsi finni þeir einstakling sem er viljugur til að hlusta á fagnaðarerindið og jafnvel bjóða upp á tebolla. Um leið og viðhorfið er einstaklega virðingarvert er erfitt að horfa framhjá því hversu veruleikafirrt þetta er allt saman. Þar sem við stöndum á upphafsárum 21. aldarinnar hafa litið dagsins ljós ógrynni miðla og tengslaneta sem hafa það eina markmið að upplýsa og fræða fólk. Þar af leiðandi á ég í stökustu vandræðum með að átta mig á hvers vegna svo ótrúlega frumstæð og gagnslaus sölumennska er enn við lýði. Þó verður að viðurkennast að krakkar í dósa- eða áheitasöfnun fyrir íþróttafélög geta náð nokkuð vænlegum árangri með hurð-eftir-hurð aðferðinni. Það er þó mikið tilkomið vegna krakkanna sjálfra fremur en málstaðarins sem fólk sér að sér við slíkar safnanir. Þau hitta á veikann blett sem ég ætla leyfa mér að stórefast um að Japanirnir tveir hafi fundið á nokkrum manni þennan síðasta sunnudag.
Nú getur verið að í huga Votta Jehóva fylgi þessum heimsóknum ákveðin uppfylling trúarinnnar sem er mér hulin. Í alla staði vona ég að svo sé en ekki að laun þeirra, trúar- eða veraldleg, séu árangurstengd. Því ef svo er ættu þeir að finna nýjar leiðir til að bera út boðskapinn eða í versta falli að velja tímasetningar sínar betur. Það er aldrei að vita nema ég myndi hleypa þeim inn ef ég væri að vinna í skattaskýrslunni minni eða horfa á landsleik með íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu.
- Fimm til að fylgjast með - 17. ágúst 2011
- Raunveruleika útgáfan af FM (CM) afturkölluð af UEFA - 15. júlí 2011
- Þorláksmessa knattspyrnuaðdáenda - 10. júní 2010