Áhyggjurnar yðar

Pabbi Jóa litla sat inni fyrir fíkniefnasmygl, mamma hans var alkóhólisti og hafði nýverið misst vinnuna, eigandinn að íbúðinni þeirra hafði ítrekað hótað að henda þeim út, og nú í morgun hafði mamma hans sagt honum að hún væri ólétt eftir annan mann …

Jói litli var tíu ára. Pabbi hans sat inni fyrir fíkniefnasmygl, mamma hans var alkóhólisti og hafði nýverið misst vinnuna, eigandinn að íbúðinni þeirra hafði ítrekað hótað að henda þeim út, og nú í morgun hafði mamma hans sagt honum að hún væri ólétt eftir annan mann. Þar sem Jói sat og velti þessu fyrir sér endurtók kennslukonan nafnið hans og spurði: „Jói. Jói. Getur þú sagt mér hvað níu sinnum sjö eru?“ Jói leit upp og svaraði: „Það vildi ég að ég hefði áhyggjurnar yðar, fröken Snæfríður.“

Þar sem ég sat í lautarferð um helgina ásamt Úkraínumanni, Kúbverja og konu frá Venesúela, sem öll búa í Bandaríkjunum, varð mér hugsað til þessarar litlu sögu. Meðal þess sem barst í tal var skrifræðið í sendiráði Úkraínu, sem þeim úkraínska þótti minna á sögu eftir Kafka. Kvabb yfir skrifræði er auðvitað oft innantómt hjal, en það ljáði þessum orðum nokkurn þunga að Úkraínumanninum þótti ekki sérstakt tiltökumál að fá útgefin skilríki hér í Bandaríkjunum – nokkuð sem útheimtir að jafnaði um fjögurra klukkutíma bið í mollulegu herbergi með þykkan stafla af ýmsum eyðublöðum í kjöltunni.

Kúbverjinn var þungur á brún þegar hann talaði um hvernig Castro hefur stolið Kúbu frá Kúbverjum, og neyðir almúgann til að kaupa sínar vörur í ríkisreknum einokunarverslunum, þar sem aðeins er til sölu varningur sem Castro telur að sé nauðsynlegur almenningi. Castro sjálfur venur að sjálfsögðu ekki komur sínar í slíkar verslanir. En Kúbverjanum þótti þó Bandaríkin ekki mikið skárri kostur. Á Kúbu ættu þó að minnsta kosti allir kost á því að fá góða heilbrigðisþjónustu – ólíkt því sem Bandaríkjamenn standa frammi fyrir. Honum þótti líka heldur ömurleg sú stefna Bandaríkjanna að setja kvóta á hversu oft Kúbverjar sem dveljast löglega í Bandaríkjunum mega fara oft heim til Kúbu. Þessi kvóti var lengi vel ein ferð á ári, en það þótti greinilega ofrausn, því nýverið var skorið niður og nú fæst aðeins heimild fyrir einni ferð á þriggja ára fresti.

Castro tórir enn og útlit fyrir að fátt breytist í Kúbu á meðan svo er, en í Úkraínu þykir þróunin almennt vera jákvæð. Afturámóti herðir Hugo Chávez stöðugt tökin á fjölmiðlum í Venesúela, lokaði einni elstu sjónvarpsstöð landsins, RCTV, nú í maí, og ekki sér fyrir endann á slíkum aðgerðum. Konan þaðan er búin að búa í Bandaríkjunum í nokkur ár, en ég ákvað að spyrja hana að því hvernig henni litist á þróunina í Venesúela undanfarið, hvort Chávez myndi eyðileggja allt eða hvort hún væri bjartsýn á framhaldið. Svarið kom mér örlítið á óvart, því hún sagðist ekki sjá almennilega hvað Chávez gæti eyðilagt: Í Venesúela hefði allt verið ónýtt í frekar langan tíma. Örfáir aðilar hefðu átt allar eignir og yfir 80% ræktanlegs landsvæðis í landinu, og hefðu ekki eignast það með löglegum hætti, heldur hefðu þeir sölsað undir sig ríkisjarðir. Á meðan hefði meirihlutinn búið við örbirgð og börn þorðu ekki út vegna hættu á glæpum og ofbeldi. Hún átti von á því að Chávez yrði vinsæll eitthvað lengur, í krafti þeirra fjármuna sem olíuauðurinn skapar, en var í stuttu máli ekki bjartsýn á framhaldið eftir það.

Í lautarferðinni var líka kona sem hafði áhyggjur af eiturlyfjavandanum í Bandaríkjunum. Það sem fór í taugarnar á henni voru dópsalarnir sem voru á leiðinni sem hún gekk í leikskóla sonar síns á hverjum degi. Þeir voru reyndar indælismenn, kurteisir og vel liðnir af börnunum í hverfinu, enda mikið í því að gefa krökkunum nammi. Þeir kunna sitt fag að sjálfsögðu.

Þegar talið barst að Íslandi varð ég hálfkauðslegur. Hvernig átti ég að toppa þetta? Af hverju hafa Íslendingar eiginlega áhyggjur? Jú, við höfum áhyggjur af því hvort á landinu verði byggt einu álverinu fleira eða færra. Við höfum áhyggjur af því að sumt fólk þurfi að búa í tveggja manna herbergjum á elliheimilum. Við höfum áhyggjur af því hvort atvinnuleysið verði 1,9% eða 2,1% (nei nú lýg ég reyndar, ég þekki engan sem hefur áhyggjur af því). Við höfum áhyggjur af því að öryggislyklarnir sem bankarnir sendu öllum Íslendingum, gjaldfrjálst, til að koma í veg fyrir netþjófnað, eru í sumum tilvikum gallaðir og frjósa, eða þá að gúmmíið dettur af. Við höfum áhyggjur af því hvort Kjalvegur verður malbikaður, og við höfum áhyggjur af því að stórmillarnir okkar séu ekki í nógu góðum tengslum við íslenskt samfélag.

Ég þóttist vita að ef ég teldi upp eitthvert þessara áhyggjuefna fengi ég svör í líkingu við þau sem kennslukonan fékk frá honum Jóa þar sem hún hlýddi honum yfir margföldunartöfluna. Svo ég þagði bara.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)