Hvern kjósa konur í næstu ríkisstjórn?

Samstarf nýrrar ríkisttjórnar fer vel af stað. Nýir ráðherrar Samfylkingarinnar keppast við að koma sér að og kynna stefnu sína og hugmyndir. Ber þar mikið á kvennkynsráðherrum Samfylkingarinnar enda þær helmingur ráðherraliðsins.

Samstarf nýrrar ríkisttjórnar fer vel af stað. Nýir ráðherrar Samfylkingarinnar keppast við að koma sér að og kynna stefnu sína og hugmyndir. Ber þar mikið á kvennkynsráðherrum Samfylkingarinnar enda þær helmingur ráðherraliðsins.

Það voru ákveðin vonbrigði fyrir marga hversu ójafnt hlutfall kynja var í ráðherrastöðum Sjálfstæðisflokksins. Um það bil þriðjungur þingmanna flokksins eru konur en einungis einn ráðherra af sex. Hlutfall kvenna er slæmt í þingflokknum en enn verra í ríkisstjórninni. Samfylkingin stendur sig eilítið betur, þó hlutfall kvenna í þingflokknum sé svipað og hjá Sjálfstæðisflokknum þá eru jafnmargar konur ráðherrar og karlar.

Það er öllum samfélögum mikilvægt að kraftar, sjónarmið, hugmyndir og aðferðir beggja kynja og allra þjóðfélagshópa endurspeglist í mannlífinu öllu. Stjórnmálamenn gegna hér mikilvægu hlutverki að ganga á undan og marka stefnuna með aðgerðum. Stjórnmálamenn og þá sérstaklega ríkisstjórnin á að huga að því við skipanir í stöður og uppraðanir á lista að hlutfall kynja sé sem jafnast. Auðvitað hefur mikið áunnist og mikið breyst, en hver sem ástæða þess er að konur skili sér illa inn í toppstöður og valdaembætti er þá þarf að taka á því á vettvangi landsstjórnarinnar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf átt í vandræðum með fylgi kvenna við flokkinn. Umræðan um jafnrétti var nokkur í aðdraganda kosninganna og nægir að vísa í ræðu Geirs H. Haarde á landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem áhersla var lögð á þessi mál. Það má alls ekki gerast á þessu kjörtímabili að Sjálfstæðisflokkurinn gleymi þessum málaflokki og horfi á Samfylkinguna fara með forystu í þessu máli, því Samfylkingin mun njóta þess á kostnað Sjálfstæðisflokksins í næstu kosningum. Þó Framsókn stæði sig eilítið betur í kynjahlutföllunum í fráfarandi ríkisstjórn en Sjálfstæðisflokkurinn var aldrei ástæða til að hafa neinar áhyggjur af því að Framsókn tæki mikið kvennafylgi af Sjálfstæðisflokknum, enda miklu minni flokkur og töluvert karllægari almennt en Samfylkingin.

Það er enn nægur tími til stefnu fram að næstu kosningum en til að árangur náist þá er nauðsynlegt að vinna á kjörtímabilinu en gefa ekki bara út fyrirheit fyrir kosningar. Slíkur hefur alltaf verið háttur Sjálfstæðisflokksins og mikilvægt að hann standi sig í þessu sem og öðru, nú sem endranær.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.