Allt vitlaust á vellinum

Í kjölfar atviksins á leik Dana og Svía í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu, er athyglisvert að velta því upp hvernig refsingum eigi að beita í svona tilfellum og ekki síst gegn hverjum þær refsingar eiga að beinast.

Um fátt hefur verið meira talað í íþróttaheiminum síðustu daga en ölglaði Daninn sem tók málin í sínar hendur í leik Svía og Dana á Parken. Knattspyrnusamband Evrópu hefur kveðið upp dóm sinn í málinu og það má segja að sjaldan hafi það átt betur við að tala um að Danir “liggi í því” – í tvennum skilningi. Þessi tiltekni Dani hafði samkvæmt fréttaskeytum einmitt legið í því allan daginn og endað daginn svo á því að leggja alla þjóð sína í það.

Dómur UEFA er vægur þegar litið er til hinnar beinu fjársektar sem beitt er í málinu, en þyngra vegur sú skilyrðing sem sett er á hvar Danir mega leika næstu fjóra heimaleiki sína, þ.e. 250 km frá Kaupmannahöfn. Sá hluti dómsins mun, eins og bent hefur verið á, valda miklu tekjutapi fyrir danska knattspyrnusambandið og rekstraraðila Parken. Það var sömuleiðis skemmtilegur flötur á málinu að dómarar í málinu hjá UEFA hafa viðurkennt að hafa ekki áttað sig á því hvað Danmörk var lítið land, þ.a. ef dómnum verður framfylgt verða Danir jafnvel að leika þessa fjóra leiki utan Danmerkur.

Það er áhugavert að velta því fyrir sér einu og öðru í atburðarrás þessa máls. Í fyrsta lagi hversu mikil áhrif áhorfendur geta haft á gang mála hjá knattspyrnusamböndum landa, í þessu tilfelli því danska, með því að leika sama, eða viðlíka, leik og áðurnefndur Dani gerði. Í kjölfar þess vakna nokkrar spurningar. Hefði dómurinn verið sá sami (þ.e. beinst gegn danska sambandinu sem ábyrgðaraðila á framkvæmd leiksins) ef þetta hefði verið Svíi sem hljóp inn á völlinn? Ef þetta hefði verið Dani sem hefði ráðist á danskan eða sænskan leikmann, Svíi í búningi danska landsliðsins og svo framvegis. Það gerist reglulega að áhorfendur sleppa inn á leikvanga. Yfirleitt er erinda þeirra ekki annað en að vekja athygli á sjálfum sér, en ekki að ráðast að leikmönnum eða starfsmönnum leiksins. En spurningin er, á refsingin gagnvart framkvæmdaraðilunum að taka mið af því hvað maðurinn gerir eftir að hann sleppur inn á völlinn, eða eingöngu því að hann komst inn á völlinn?

Hefði þessi áhorfandi hlaupið inn á völlinn, dansað fugladansinn og svo verið tæklaður af öryggisvörðum, þá hefði dómarinn sjálfsagt látið leikinn halda áfram, eða hvað? Dómarinn hefur vafalaust flautað leikinn af vegna þess að hann mat það svo að starfsmenn og leikmenn hafi verið í hættu inni á vellinum. En er rétt að það velti á því hvað áhorfandinn gerir þegar inn á völlinn er komið, hver niðurstaðan verður gagnvart framkvæmdaraðilum leiksins? Það má færa rök fyrir því þetta séu tvö aðskilin atvik. Áhorfendur eiga ekki að geta ætt inn á knattspyrnuvelli meðan á leik stendur, en eftir að þeir eru komnir inn á völlinn, þá ættu þeir sem einstaklingar að vera dæmdir samkvæmt því sem þeir gera – í þessu tilfelli líkamsáras á dómarann. Danski leikmaðurinn sem kýldi þann sænska er í raun að framkvæma gjörnin sem á ekkert skylt við íþróttina.

Í öðru lagi má spyrja sig að því hvað hefði gerst ef UEFA hefði ekki verið sammála dómaranum, sem flautaði leikinn af og dæmdi Svíum sigur 3-0. Nú þekkir undirritaður knattspyrnureglurnar í þaula og getur þar af leiðandi ekki svarað eftirfarandi spurningu sem er þó sett fram til gamans og svo áhugamenn geti velt henni fyrir sér. Hefði verið er mögulegt að UEFA dæmdi að síðustu mínútur leiksins yrðu leiknar? Og ef dómurinn hefði verið á þá leið, hefði leikurinn hafist á vítaspyrnunni, á miðju eða dómarakasti? Það hefði óneitanlega verið írónískt ef þessi innkoma danska áhorfandans hefði geta, samkvæmt reglum, tryggt Dönum jafntefli.

Það er ljóst að refsingar í þeim anda sem UEFA beitti í þessu tilfelli eiga að senda þau skilaboð til stuðningsmanna liðanna og framkvæmdaraðila, að svona uppákomur verði ekki liðnar og muni hafa verulegar afleiðingar fyrir landslið viðkomandi þjóðar. Hins vegar er spurning hvort það hefur meiri fælingarmátt að beita refsingunni gegn þjóðunum eða þeim einstaklingum sem framkvæma verknaðinn. Hins vegar er ljóst að UEFA hefur aðeins lögsögu yfir sínum aðildarlöndum/knattspyrnusamböndum, en ekki einstökum þegnum landanna. Burtséð frá því, þá er ljóst að þessi tiltekni áhorfandi mun fá meira en nægilega refsingu frá samlöndum sínum.

Latest posts by Birgir Hrafn Hafsteinsson (see all)