Verkfallsmet

Þrátt fyrir að heldur hafi dregið úr tíðni verkfalla undanfarin ár þá trónir Ísland enn á toppi lista OECD landa yfir flestar tapaðar vinnustundir á ári vegna verkfalla eða annarra aðgerða launafólks.

Íslendingar eru heimsmethafar í heimsmetaeign, að minnsta kosti sé tekið mið af hinni alfrægu höfðatölu. Íslendingar eru líka óhemju stoltir af öllum metunum sínum. Þau met eru þó einnig til sem erfitt er að vera stoltur af. Eitt þeirra er met í verkföllum.

Þrátt fyrir að Íslendingar séu methafar í verkföllum þá er tilfinning manns samt sú að verkföllum hafi fækkað mjög mikið undanfarin ár. Sú tilfinning fæst staðfest, með undantekningum þó, séu tölur frá árinu 1976 skoðaðar, en það ár fengu opinberir starfsmenn verkfallsrétt samkvæmt lögum.

Þrátt fyrir að heldur hafi dregið úr tíðni verkfalla undanfarin ár þá trónir Ísland enn á toppi lista OECD landa yfir flestar tapaðar vinnustundir á ári vegna verkfalla eða annarra aðgerða launafólks. Samkvæmt tímaritinu The Economist sem kom út í byrjun maí þá töpuðust að meðaltali um 400 vinnudagar á ári fyrir hverja þúsund starfsmenn á Íslandi á árunum 1996-2005. Er þetta um tvöfalt meira en hjá næstu þjóð á eftir, Kanada og um 10 sinnum meira en í Bandaríkjunum. Þetta er m.a.s. mun meira en í Frakklandi hvaðan sem fréttir af brjáluðum flutningabílstjórum í verkfalli virðast mjög tíðar.

Sé horft til Íslands þá er tilfinning pistlahöfundar sú að kennarar og aðrar opinberar stéttir, s.s. flugumferðarstjórar og sjúkraliðar, eigi stóran þátt í þeim fjölda vinnustunda sem tapast á Íslandi sökum verkfalla. Þessar stéttir eiga það sameiginlegt að vera stórar stéttir með sama vinnuveitanda þ.e. allar vinna fyrir ríkið. Sveigjanleiki þessara stétta til samninga er lítill og kostnaðurinn gríðarlega hár við minnstu hækkanir launa hjá stærri stéttunum eins og kennurum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum. Auk þess er óhætt að segja að þrátt fyrir tíðari verkföll þessara stétta undanfarin 30 ár eða svo en hjá öðrum stéttum að þá sé árangurinn sára lítill. Starfsfólk í þessum stéttum er með þeim launalægri, a.m.k. að teknu tilliti til menntunar, í þjóðfélaginu.

En hvað er þá til ráða?

Ef litið er á kennarahreyfinguna sem dæmi enda stór hagsmunasamtök ríkisstarfsmanna, þá hefur pistlahöfundur fulla samúð með þeirra málstað en hann er engan veginn sammála meðalinu sem þeir beita. Staðreyndin er sú verkföll kennara hafa litlu skilað í gegnum tíðina og ólíklegt er að þau komi til með að skila miklu í framtíðinni. Kerfisbreytingar er þörf.

ASÍ sem dæmi semur í dag um ákveðinn grunnramma en svo eru sértækir vinnustaðasamningar að verða sífellt algengari. Þessi breyting í átt til aukins frjálsræðis og aukinnar samkeppni í kjarasamningum hefur m.a. leitt til fátíðari verkfalla meðal þeirra félagsmanna. Kennarahreyfingin þarf að gera slíkt hið sama; viðurkenna að verkfallsvopnið er ekki beitt lengur sem og hugsa til framtíðar og liðka um ferlið, opna fyrir svæðisbundna- eða vinnustaðatengdasamninga. Kennarahreyfingin getur samið um lágmarkskjör fyrir sína félagsmenn en hún á að opna fyrir sértækar aðgerðir með því að leyfa samninga við einstaka skóla og einstaka kennara og umfram allt búa til samkeppni um besta starfsfólkið og bestu vinnuveitendurna. Liður í því væri m.a. að henda út úreltu mats- og launakerfi sem byggir eingöngu á aldri og starfsreynslu og raðar kennurum í launaflokka eftir þeim breytum.

Góðir hlutir gerast hægt. Með þessu móti væri opnað fyrir leiðréttingu stórra stétta í smærri skrefum. Góðir kennarar og góðir skólar fengju fyrst leiðréttingu en væntanlega myndu aðrir fylgja í kjölfarið síðar. Auk þess væru rök hins opinbera um gríðarlegan kostnað ekki lengur marktæk því ekki þyrfti að semja við 10.000 starfsmenn um launahækkun á einu bretti. Spurningin er sú hvort kennaraforystan hafi kjarkinn til að standa fyrir þessum breytingum. Gallinn er líklega sá að fáir hópar starfsmanna eru jafnfastheldnir á fornan hugsunarhátt og einmitt kennarar. Þegar öllu er á botninn hvolft vilja þeir líklega umfram allt falla inn í fyrirfram skilgreindan launaramma með óhlutlægum breytum svo tryggt sé að enginn skari fram úr og engin geti fengið meira en næsti maður við hliðina. Það er nefnilega ógerningur að meta störf kennara öðruvísi en eftir aldri og reynslu og því best að allir fái jafnt, sama hvort þeir leggi nótt sem dag í undirbúning kennslu eða mæti þunnir til vinnu með neikvæðan lífsvilja og viðurstyggð á nemendum. Að gera þá kröfu á skólastjórnendur að þeir geti metið störf sinna starfsmanna eins og forstjórar hefðbundinna fyrirtækja eða annarra ríkisstofnana er óhugsandi, er það ekki?.

Nauðsyn breyttrar aðferðafræði á við um fleiri stéttir en kennara. Það er vonandi að forsvarsmenn þeirra taki til umhugsunar stefnu sinna félaga. Þó það væri ekki til annars en stefna að því að Ísland verði ekki lengur methafi í verkföllum. Hver græðir á þeim?

Heimildir:
The Economist, 5-11. Maí 2007

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)