Ný ríkisstjórn Geirs H Haarde

Formenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar undirrituðu í gær stjórnarsáttmála um samstarf í ríkisstjórn og í framhaldinu mun hin ný ríkisstjórn vera mynduð á Bessastöðum í dag undir forystu Geirs H Haarde. Skýrt var svo frá því í fyrradag hvernig skiptingu ráðuneyta milli þessar flokka yrði háttað og hverjir myndu gegna ráðherraembættum. Í nýjum stjórnarsáttmála er að finna margt áhugavert sem gefur tilefni til að ætla að stjórn landsmála verði áfram farsæl og ráðist verði í þarfar breytingar í ýmsum málaflokkum.

Þingvallastjórnin hefur einsett sér að vera frjálslynd umbótastjórn. Í stjórnarsáttmálanum, sem finna má á heimasíðu forsætisráðuneytisins, er þess getið í inngangi að áhersla verði lögð á kraftmikið efnahagslíf, öfluga velferðarþjónustu, bættan hag heimilanna og aukna samkeppnishæfni atvinnulífsins. Heilt á litið hefur þessum tveimur flokkum tekist vel til með að sameina helstu stefnumál sín í samstarfssamningi nýrrar ríkisstjórnar þó ekki er þar allt eins og best verður á kosið eðli málsins samkvæmt.

Eitt brýnasta verkefni ríkisstjórnar Geirs H Haarde verður að koma á skikkanlegu jafnvægi í efnahagsmálum. Peningamálastefna Seðlabankans hefur sætt vaxandi gagnrýni og ljóst að ýmsir sérfræðingar á þessu sviði hafi misreiknað áhrif útgáfu skuldabréfa, svokallaðra krónubréfa, til erlendra fjárfesta. Hátt vaxtastig virðist þannig hafa aukið á spennuna í efnahagslífinu en markmiði með hækkun vaxta var ætlað slá á þenslu.

Markmið nýrrar ríkisstjórnar í hagstjórn er að tryggja lága verðbólgu, lágt vaxtastig, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jafnan og öflugan hagvöxt og áframhaldandi trausta stöðu ríkissjóðs. Ærið verkefni er þannig framundan og bráðnauðsynlegt að tekið verði á þessum málum föstum tökum. Í því ljósi skiptir gríðarlega miklu máli að aðhald verði í ríkisfjármálum og þess gætt að hlutur opinberrar starfsemi af þjóðarframleiðslunni vaxi ekki umfram það sem nú er.

Athygli vekja fyrirheit um markvissari ríkisrekstur og styrkir það trúna um að allt kapp verði lagt í að stíga sem fastast á bremsur ríkisfjármála. Uppstokkun ráðuneyta var löngu tímabær og næsta víst að við þá tiltekt opnist augu ráðherra og þeir sjái hvað hægt er að hagræða í ríkisrekstri og leggja niður margar ríkisstofnanir. Áætlun um fjögurra ára rammafjárlög verður þannig vonandi til þess að meiri agi verði á forstjórum ríkisstofanna og þeim gert að halda sig innan ramma laganna.

Ein stærstu tíðindin af skiptingu ráðuneyta milli flokkanna er þau að Sjálfstæðisflokkurinn fær nú loks heilbrigðisráðuneytið og landbúnaðarráðuneytið í sínar hendur. Í stjórnarsáttmálanum segir að kostnaðargreina eigi heilbrigðisþjónustuna og taka upp blandaða fjármögnun á heilbrigðisstofnunum þar sem fjármagn fylgir sjúklingum. Að auki verði skapað svigrúm til fjölbreytilegri rekstrarforma í heilbrigðisþjónustu, m.a. með útboðum og þjónustusamningum, en jafnframt tryggt að allir hafi að henni jafnan aðgang, óháð efnahag. Ljóst er að vilji beggja flokka til að bæta heilbrigðisþjónustu í landinu er skýr og gott að vita til þess að Sjálfstæðisflokkurinn njóti stuðnings Samfylkingarinnar til þeirra verka.

Landbúnaðarkerfinu þarf að breyta og ánægjulegt er að Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylking hafa náð saman um það markmið – eitthvað sem virtist ómögulegt að fá Framsóknarflokkinn til að fallast á. Margt fleira má lesa úr stjórnarsáttmálanum. Þannig vekur yfirlýsingin um stríðið í Írak eftirtekt og tímabært að flokkarnir hafa komið sér saman um að Ísland verður að leggja sitt af mörkum og aðstoða við uppbyggingu í þessu stríðshrjáða landi.

Að lokum er ekki hjá því komist að vekja athygli á því að samstaða er meðal flokkanna um að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu. Í dæmaskyni má skjóta því að og nefna að það er með öllu óþarft að fara semja um verð á fasteign sem er ljót, illa staðsett, óhentug, alltof dýr og engin vilji né ástæða er til að kaupa.

Nýrri ríkisstjórn Geirs H Haarde er óskað velfarnaðar og vonir bundnar við að hún muni leysa þau erfiðu verkefni sem framundan eru vel af hendi.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.