Hvað er nýsköpun?

Undanfarin misseri hefur nýsköpun verið mikið í umræðunni, bæði í atvinnulífinu og menntakerfinu en ekki síst hjá stjórnmálamönnum sem kynna stefnu síns flokks fyrir kosningarnar næstkomandi laugardag. Að mati höfundar hefur umræðan um nýsköpun og frumkvöðlastarfssemi þó oft einkennst af mikilli hugtakanotkun og óneitanlega stundum minnt undirritaðan á söguna um nýju fötin keisarans.

Undanfarin misseri hefur nýsköpun verið mikið í umræðunni, bæði í atvinnulífinu og menntakerfinu en ekki síst hjá stjórnmálamönnum sem kynna stefnu síns flokks fyrir kosningarnar næstkomandi laugardag. Að mati höfundar hefur umræðan um nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi þó oft einkennst af mikilli hugtakanotkun og jákvæðni – sem er auðvitað hið besta mál. Hitt er svo annað mál að þessi umræða hefur þó óneitanlega stundum minnt undirritaðan á söguna um nýju fötin keisarans. Menn keppast um að hæla nýsköpun og ræða mikilvægi hennar en þegar aðeins dýpra er kafað kemur oft í ljós að menn vita lítið um hvað málið snýst og lítið býr að baki hinum fögru orðum. Nýsköpun er eitthvað sem allir tala um og eru mjög jákvæðir gagnvart – en svo virðist sem ekki alveg allir viti í raun hvað í hugtakinu felst.

Fyrir stuttu síðan hélt undirritaður fyrirlestur um nýsköpun og starfsemi Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs. Í salnum var ónefndur þingmaður stjórnarandstöðunnar sem játaði sök sína og spurði þeirrar einföldu spurningar “Hvað er nýsköpun?”. Sami stjórnmálaflokkur predikar mikið um nýsköpun í stefnuskrá sinni fyrir kosningarnar – það er einlæg von undirritaðs að meira sé að baki stefnu annarra flokka í þessum málaflokki heldur en innantóm og þekkingarlítil loforð um “átak” og “stóreflingu”.

Til nánari útskýringar fyrir hugtakapólitíkusa og annað áhugfólk um nýsköpun fylgir hér að neðan svar við spurningunni “Hvað er nýsköpun?” sem undirritaður svaraði á Vísindavef Háskóla Íslands fyrir skömmu.

Nýsköpun í sinni einföldustu mynd er að skapa eða búa til eitthvað nýtt sem og endurbæta það sem þegar er til staðar. Á þetta jafnt við um nýja eða endurbætta vöru, þjónustu, tækni, aðferðafræði, framleiðsluaðferð, stjórnskipulag eða leið til sölu- og markaðssetningar. Nýsköpun er ekki það sama og ný hugmynd heldur er aðeins talað um nýsköpun þegar hugmyndinni eða endurbótinni hefur verið hrint í framkvæmd.
Nýsköpun getur átt sér stað á ýmsum sviðum. Hún er mikilvæg í viðskiptum, öllu vísindastarfi, tækniþróun, stjórnunarstörfum, listum, menningu og svo að segja í öllu okkar umhverfi. Algengast er þó að tala um nýsköpun í samhengi við nýja tækni, viðskiptatækifæri eða leið til markaðssetningar.

Nýsköpun getur verið ný fyrir allan heiminn eða einungis fyrir afmarkað svæði svo sem heimsálfu, land, borg eða jafnvel bara tiltekið fyrirtæki eða stofnun. Það er því dæmi um nýsköpun í Afríku en ekki Evrópu þegar byrjað er að flytja inn og selja vöru í Afríku sem áður hefur verið á markaði í Evrópu í nokkurn tíma.

Nýsköpun er talin einkar mikilvæg fyrir efnahagslífið á því svæði sem hún á sér stað. Hún getur ýtt verulega undir hagvöxt vegna þess að í henni felst framleiðsluaukning eða hagræðing sem leiðir af sér meiri framleiðni hjá þeim sem að nýsköpuninni standa.

Innovation. Wikipedia: The Free encyclopedia
Handbók OECD: Oslo manual
Vísindavefur Háskóla Íslands
Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur

Latest posts by Andri Heiðar Kristinsson (see all)