Velferð, schmelferð

Vaxandi kaupmáttur þýðir að launin okkar duga betur en áður. 75% kaupmáttaraukning á ríflega 12 árum þýðir að það tekur 4 daga að vinna sér inn fyrir því sem áður tók 7 vinnudaga. Tökum fram vasareikni.

Einfaldleiki er alltaf bestur. Þannig er hún fræg sagan af því að þegar Albert Einstein var spurður að því hvað það væri í heiminum sem honum þætti ótrúlegast. Einstein var ekki seinn til svars:

„Vaxtavextir“, sagði höfundur afstæðiskenningarinnar án þess að blikka.

Það var vissulega rétt athugun hjá Einstein að vaxtavextir eru merkilegt fyrirbæri. Í eðli sínu snúast vaxtavextir um það grundvallaratriði að uppsöfnunaráhrif vaxta á höfuðstól gera það að verkum að sparnaður er hagkvæmur og vex hraðar en línulega yfir tíma.

Kæri lesandi, ekki sofna!

Í umræðunni um hagvöxt virðist það stundum gleymast að hagvöxtur er ekki föst og gefin stærð. Þannig getur hagvöxtur t.d. verið neikvæður — og þetta er ekki prentvilla. Það er ekkert sjálfgefið að hagvöxtur sé stöðugur eða vaxandi frá ári til árs.

Ef stjórnvöld beita sér hins vegar fyrir því að skapa hagfellt umhverfi til fyrirtækjarekstrar og efla menntun og tækniþróun er líklegt að hagvöxtur aukist. En ef stjórnvöld leggja hins vegar áherslu á að byggja bara upp bjórverksmiðjur á Árskógsströnd þá er líklegt að hagvöxtur verði neikvæður.

Þetta er reyndar ofureinföldun,… sama gildir nefnilega um eldfjallagarða.

Á Íslandi er hagvöxtur jákvæður og yfir langt, samfellt hagvaxtartímabil – eins og síðustu kjörtímabil, vænkast hagur landsmanna ansi hratt og veglega. Af umræðu í aðdraganda kosninga virðist sem efnahagsárangursgleraugu (já, þetta er nýyrði) stjórnarandstöðuflokkanna séu hins vegar bæði kámug og jafnvel löngu týnd undir stjórnarandstöðubeddanum (já, þetta er líka nýyrði).

Tökum dæmi:

1% árlegur hagvöxtur í 12 ár jafngildir 13% vexti yfir tímabilið
2% árlegur hagvöxtur í 12 ár jafngildir 27% vexti yfir tímabilið
3% árlegur hagvöxtur í 12 ár jafngildir 43% vexti yfir tímabilið
4% árlegur hagvöxtur í 12 ár jafngildir 60% vexti yfir tímabilið
5% árlegur hagvöxtur í 12 ár jafngildir 80% vexti yfir tímabilið
6% árlegur hagvöxtur í 12 ár jafngildir 101% vexti yfir tímabilið
7% árlegur hagvöxtur í 12 ár jafngildir 125% vexti yfir tímabilið
8% árlegur hagvöxtur í 12 ár jafngildir 152% vexti yfir tímabilið

Lesendur þurfa ekki að vera mannlegir vasareiknar til að sjá að vöxurinn er ekki línulegur og hagvaxtavextir (já, þetta er líka nýyrði) eru engu síðra fyrirbæri en vaxtavextirnir sem heilluðu Einstein.

Að öðru.

Pistlahöfundur mætir í vinnu til að fá laun sem hann nýtir svo til að kaupa fánýta hluti — atvinna gefur höfundi því kaupmátt. Sama gildir um lesendur.

Kaupmáttur er því mælikvarði á hve vel launin duga til að greiða fyrir hluti sem við kaupum okkur. Nafnfjárhæð launa skiptir litlu máli ef laun halda ekki í við verðlagsþróun til skamms tíma.

What?

Einföldum hlutina: Ef launin hækka um 10% á ári en verðlag hækkar um 20% þá verður kaupmáttarrýrnun. Þá þurfum við að vinna meira til að kaupa sömu hluti og við gátum áður keypt með minna vinnuframlagi.

What?

Jú, í kaupmáttarrýrnun duga launin verr en áður (er bergmál hérna inni?).

Vaxandi kaupmáttur þýðir hins vegar að launin duga betur. 75% kaupmáttaraukning yfir ríflega þrjú kjörtímabil þýðir því að það tekur 4 daga að vinna sér inn fyrir því sem áður tók 7 vinnudaga.

Mismunurinn er frí – eða aukatekjur.

Um þessi atriði er kosið á laugardag, enda eru efnahagsmál stærsta velferðarmálið.

Latest posts by Halldór Benjamín Þorbergsson (see all)