Skýr stefna – traustur flokkur

Sjálfstæðisflokkurinn stendur vel að vígi. Ástæðan er einföld. Stefna flokksins er skýr og öllum til heilla. Kjósendur vita að hverju þeir ganga með því að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Byggt er á traustum grunni efnahagslífsins og þannig er hægt að efla áfram velferðarkerfið. Það skiptir máli hvaða flokkur leiðir næstu ríkisstjórn og ástæða er til að hræðast vinstri vitleysuna.

Þegar öllu er á botninn hvolft skipta stefnumál flokkanna höfuðmáli þegar kosið er til Alþingis. Ýmislegt getur stuðlað að betri ímynd stjórnmálaflokka eins og skemmtilegar auglýsingar, traustir frambjóðendur og öflug forystusveit. En engin flokkur getur aflað fylgis og verið trúverðugur til lengri tíma litið ef stefnumálin eru óskýr eða jafnvel ekki til. Stjórnmál snúast um framtíðina og þeir sem eru kjörnir til forystu í landsstjórninni verða að vita hvert á að stefna. Það er ekki nóg að vera bara skemmtilegur eða hrópa hátt um ekkert í umræðuþáttum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei þurfa skammast sín fyrir stefnumál sín eða reynt að endurskrifa söguna. Það sama verður ekki sagt um aðra flokka. Frá upphafi hefur Sjálfstæðisflokkurinn staðið vörð um einstaklingsfrelsið og barist gegn hvers konar miðstýrðri forræðishyggju vinstrimanna. Sjálfstæðisflokkurinn trúir því að framtak og hugvit einstaklinga sé það afl sem knýr hjól atvinnulífsins áfram. Blómlegt atvinnulíf er svo eina forsenda þess að mögulegt sé byggja upp öflugt velferðarkerfi. Lítum á þrjá mikilvæga málaflokka sem skipta efnahags- og velferðarkerfið miklu.

Skattar
Í kosningabaráttunni hafa vinstri flokkarnir lítið talað um skatta en stærsta velferðarmálið er að fólk geti bætt lífskjör sín og hafi til þess meira milli handanna. Ríkið tekur peninga af fólki í formi skatta. Séu skattar lækkaðir situr augljóslega meira eftir í vösum almennings. Sjálfstæðisflokkurinn lækkaði skatta á einstaklinga á síðasta kjörtímabili því sem nemur 4 prósentustigum. Helsta stefnumál flokksins nú er að halda áfram að lækka skatta á einstaklinga. Að auki er stefnt að því að fella niður almenna tolla, afnema stimpilgjöld og halda áfram að lækka vörugjöld. Aðrir flokkar virðist lofa að hækka ekki skatta en þeir munu finna leið framhjá því loforði eins og dæmin sýna.

Menntun

Undir forystu sjálfstæðismanna hefur átt sér stað bylting í menntamálum Íslendinga. Aldrei hafa eins margir menntað sig eins mikið og nú og ekkert ríki ver eins háu hlutfalli landsframleiðslunnar til menntamála eins og hér á landi. Stefnan er skýr. Haldið verður áfram að efla skólastarf og tryggja jöfn tækifæri allra einstaklinga til að mennta sig. Öflugt menntakerfi lykill að traustu efnahagskerfi og spennandi atvinnutækifærum. Aðrir flokkar vilja eðlilega líka bæta menntun en reynslan sýnir að Sjálfstæðisflokknum er best treystandi til að halda góðu starfi áfram.

Heilbrigði
Þá að heilbrigðismálum. Aldrei fyrr hafa meiri peningar verið settir í heilbrigðisgeirann eins og á síðasta kjörtímabili. Engu að síður er úrbóta þörf enda gera peningar eitt og sér lítið fyrir heilsu manna. Það þarf að fjárfesta í heilbrigði rétt eins og í menntun og það er ekki sama hvernig það er gert. Sjálfstæðisflokkurinn vill nýta kosti fjölbreyttra rekstrarforma á sem flestum sviðum og tryggja þannig hagkvæma nýtingu opinbers fjármagns enda verður áfram greitt fyrir þjónustuna úr sameiginlegum sjóðum. Þannig má tryggja að einstaklingar fái þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda án þess að þurfa greiða fyrir slíkt dýrum dómi. Jafnræði er hér lykilatriði rétt eins og í menntakerfinu. Því miður virðast aðrir flokkar ekki skilja að gera þurfi grundvallar breytingar á heilbrigðiskerfinu til að mæta þörfum og kröfum almennings. Öllu fögru er lofað án hugmynda um hvernig standa eigi að málum.

Vel færi á því að nefna fleiri málaflokka og fara yfir þar helstu stefnumál og árangur sjálfstæðismanna. En aðalatriði er að kjarninn í stefnu Sjálfstæðisflokksins er hvarvetna hafður að leiðarljósi og það skilar árangri hvort sem stefnt er að betri samgöngum, öflugra almannatryggingakerfi eða fjölskrúðugra menningarlífi.

Valið er einfalt. Sérstaklega þegar haft er í huga að eftir leiðtogaumræður gærkvöldsins á Stöð 2 er eina leiðin til að koma í veg fyrir vinstristjórn að kjósa Sjálfstæðisflokkinn.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.