Frá örófi alda hafa þróast í samfélögum manna ýmsar furðulegar hefðir varðandi útlit og líkama í fagurfræðilegu tilliti. Til að hljóta samfélagslegt samþykki hefur þannig á hverjum tíma þótt afar mikilvægt að fylgja ákveðnum óskrifuðum reglum. Á Vesturlöndum þykir til dæmis alveg vonlaust að vera feitur, meðan að á eyjunni Borneó í Suðaustur-Asíu þykir afleitt að vera með stuttan háls og í ættbálkum í Eþíópíu ertu þeim mun fegurri sem varirnar eru stærri og útstæðari.
Það er ekki einvörðungu það að staðsetning í tíma og menningu geri manni erfitt um vik að leggja fagurfræðilegt mat á líkamsbreytingar eins og hálslengingar og varastækkanir, heldur er með öllu óskiljanlegt að svo mikið sé á sig lagt þegar ljóst er að að þessum útlitsbreytingum fylgja miklar þjáningar. Fegurð er þjáning segja víst fagurkerarnir. Fyrr má nú vera.
Eitt þekktasta dæmið um slíkar breytingar snýr að reyrðum fótum kínverskra kvenna, en í Kína tíðkaðist í heilt árþúsund að konur gengu gegnum lífið í barnastærðum af skóm.
Upphaf þessarar hefðar er rakið aftur til 7.aldar, til eftirlætis dansmeyjar keisarans sem vafði fætur sína með silkiborðum. Var hún dáð af karlmönnum en öfunduð af öllum hinum dansmeyjunum, sem tóku síðan upp á því sama.
Voru fætur stúlkubarna á aldrinum 4-7 ára þá baðaðir upp úr blöndu af jurtum og dýrablóði og táneglur þeirra klipptar alveg af til að koma í veg fyrir innvöxt eða sýkingar. Því næst voru fæturnir nuddaðir og tærnar svo brotnar ein af annarri, þær sveigðar undir ilina og fóturinn síðan reyrður mjög þétt. Þetta var endurtekið með nokkurra daga millibili í mörg ár. Óþarfi er að taka fram að gjörningurinn olli gífurlegum þjáningum og gerði það yfirleitt að verkum að þessar konur gátu ósköp lítið gengið, hvað þá unnið. Það varð því aðeins á færi ríkari fjölskyldna að brjóta tær dætra sinna, þar sem ekki kom að sök að þær gætu ekki unnið. Þetta þótti afskaplega fallegt og þokkafullt.
Svona nokkuð yrði að sjálfsögðu flokkað sem ofbeldi gagnvart börnum í dag, en í þessari menningu á þessum tíma hefði það að láta þetta ‘fegrunarinngrip’ eiga sig falið í sér að hafa af stúlkubarni möguleg lífsgæði í framtíðinni, enda vonlítið að ætla sér giftast vel með fætur af eðlilegri stærð.
Það er kannski ekki hlaupið að því að ætla að greina hefðir eða þrýsting af þessum meiði í okkar samfélagi, því auðvitað er ekki hægt að líkja samfélagskröfum nútímans við t.d. kínversku vafningana, en á öllum tímum, í öllum samfélögum, virðist samfélagssamþykkið krefjast fórna og erfiðis, því kröfurnar virðast ávallt lúta að fegurð sem er ekki náttúruleg. Langir hálsar, útstæðar varir, agnarsmáir fætur, örgrannur vöxtur…
- Afstæðar og óbærilegar raunir - 25. mars 2021
- Konan sem vissi ekki að hana vantaði jarðskjálfta - 22. október 2020
- Offita og aumingjaskapur - 15. ágúst 2007