Baráttudagur – frídagur – dagur

Ég þarf ekki að mæta í vinnuna í dag. Margir vinir mínir í bankageiranum, hugbúnaðarfyrirtækjum og menntastofnunum eru líka með frí. Þetta er á margan hátt notarlegt. Ég fór áðan út í búð og keypti mér kotasælu og nýbakað brauð. Síðan ætla ég að taka strætó upp í Breiðholt og fara í mat til foreldra minna. Notarlegur dagur.

Ég þarf ekki að mæta í vinnuna í dag. Margir vinir mínir í bankageiranum, hugbúnaðarfyrirtækjum og menntastofnunum eru líka með frí. Þetta er á margan hátt notarlegt. Ég fór áðan út í búð og keypti mér kotasælu og nýbakað brauð. Síðan ætla ég að taka strætó upp í Breiðholt og fara í mat til foreldra minna. Notarlegur dagur.

Það er auðvitað dæmigert fyrir eitthvað, sem ég veit ekki alveg hvað á að vera, að meðan við í mennta- og snobbstéttunum höfum það náðugt, höngum á netinu og prófum nýju leikjatölvuna, þá þarf samt einhver að keyra strætóana, vaska upp á sjúkrahúsunum og nú í seinni tíð, jafnvel að afgreiða í búðum á þessum degi. Baráttudagur verkalýðsins sem með árunum breyttist í „frídag verkalýðsins“ er í óða önn að verða einfaldlega að „degi verkalýðsins“ án frí- eða baráttuformerkja. Spurning hvort hann verði eins og konudagur eða bóndadagur. Dagurinn þar sem allir veifa til verkafólks.

Þegar aðstæður launafólks fyrir daga verkalýðshreyfingarinnar, guð man hvenær það nú var, eru rifjaðar upp er ekki annað hægt en að dást að þeim árangri sem náðst hefur. Vart er heldur annað hægt en að bera virðingu sem á sínum tíma þorðu að leggja sitt að veði í þágu sín og annarra. Það er því ekki verri hugmynd en hver önnur að hafa heilan dag til að minnast baráttu þessara manna og kvenna. Sósíalismi og verkalýðsbarátta hafa, jú, mótað okkar norrænu samfélög allhressilega og hvernig svo sem skoðun okkar er á öllum uppátækjum þessara systkina gegnum tíðina þá hafa þau allavega ekki ruslað það mikið út á hér sé óbúandi. Sem verður reyndar til dæmis ekki sagt um vanskapaða frændur þeirra í löndunum austar í álfunni.

Það er reyndar dálítið leiðinlegt að á seinustu misserum hafa sumir reynt að róa inn á mið íslensks verkafólks með tortryggni í garð hins erlenda sem helstu beituna. Til allrar hamingju lítur ekki út fyrir að sá túr hafi heppnast vel. Hins vegar þyrfti hinn íslenska verkalýðshreyfing að taka sig saman í andlitinu í þessum málum. Allt of oft mætti halda að áhugi hennar á kaupum og kjörum erlendra verkamanna sé byggi einungis á áhyggjum um kjör og afkomu íslensku starfsmannanna.

Líklegast mun ég ekki vera sammála mörgu í ræðum dagsins, fremur en aðrir forhertir markaðsinnar. En kurteisi er dyggð og því er það meira en sjálfsagt að óska öllu verkafólki og hreyfingunni allri innilega til hamingju með daginn. Það eru, jú, aðgerðir forvera þeirra sem ollu því að við, menntamenn, bankamenn og forritarar getum nú helgað heilan dag bloggi og hjólreiðaferðum.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.