Brandarabanki á kosningavori

Mennirnir hafast misjafnt að og hafa margvíslegar skoðanir á hlutunum Það kemur jafnan bersýnilega í ljós á vikunum fyrir kosningar. Sumir virðast vera þeirrar skoðunar að framfarir séu slæmar, að tíu prósent af milljón geti ekki verið meira en helmingur af þúsund og að jöfnuður sé betra markmið en betri lífskjör fyrir alla. Jú og líka þessarar hér…

Sumt skilur maður ekki og það á ekki síst við í aðdragnda kosninga. Fólk heldur ótrúlegustu hlutum fram á atkvæðaveiðum og stundum virðist kappsmál að taka nógu djúpt í árinni. Eitt af því sem mér þykir eiga heima ofarlega á lista yfir slík atriði er umræðan um bankana. Því hefur verið haldið fram að einkavæðing bankanna hafi verið mistök, þeir hagnist of mikið á kostnað almennings og þeir auki ójöfnuð í landinu.

Í þessum fullyrðingum stjórnmálamanna eru talsverðar þversagnir. Sú augljósasta er væntanlega sú að þeir auki ójöfnuð, því aldrei í sögu landsins hefur ríkið haft meiri skatttekjur af fjármálageiranum. Bankarnir skila því nú meira en nokkru sinni til samneyslunnar. Þannig hefur ríkið úr meiru að moða nú úr þessari grein en þegar það átti og rak bankana.

Störfum í fjármálageiranum hefur þess fjölgað mjög í auknum umsvifum þeirra og laun hækkað. Vissulega má segja að hækkandi laun geti virkað gegn jöfnuði, ef markmiðið er að jafna laun kjör fólks niður á við. Atvinnuleysi er ekki vandamál á Íslandi, sem gerir stjórnmálamönnum vissulega erfiðara fyrir því atvinnuleysi er mjög stórt og auðvelt mál að tala um, þegar það er til staðar.

Eitt af því sem hefur gert atvinnuleysinu erfitt um vik er gott aðgengi að fjármagni. Þannig er auðveldara en oftast áður að stofna fyrirtæki, hefja rekstur og skapa tekjur fyrir sjálfan sig og jafnvel störf fyrir aðra. Fyrirtæki eiga auðveldara með að stækka og fjölga störfum.

Ein af forsendum þess að slíkt aðgengi að fjármagni sé fyrir hendi og hægt sé að bjóða lánskjör á sem allra hagstæðustu kjörum er lánshæfi bankanna. Það er engin tilviljun að fréttir af lánshæfismati bankanna eru framarlega í fréttum þegar þær berast. Því hærra sem bankar eru metnir sem lánþegar því betri kjör fá þeir og á því betri kjörum geta þeir lánað sínum viðskiptavinum.

Það er því augljóst að því stærri og burðugri sem bankar eru því betri kjör fá þeir, viðskiptavinum sínum til hagsbóta. Hagnaður er því nauðsynlegur til frekari vaxtar, svo bankarnir getu haldið áfram að bæta kjör og bjóða betri þjónustu. Ef skoðað er hvaðan hagnaður bankanna kemur má líka glöggt sjá að hann er ekki fenginn með okri á vöxtum eða þjónustugjöldum til almennings. Auk verðbréfaviðskipta og tengdri umsýslu verður starfsemi þeirra erlendis æ stærri þáttur og allir þrír viðskiptabankarnir hafa nú um eða yfir helming tekna sinna erlendis frá. Einhverntíman hefði slíku verið fagnað.

Einkavæðing bankanna var því mikið heillaspor fyrir þjóðina. Í kjölfarið var farið að reka bankana á alþjóðlegum viðskiptagrundvelli. Stækkun þeirra í kjölfarið hefur orsakað betra aðgengi að fjármunum, minni vaxtamun og auknar tekjur fyrir ríkissjóð. Í stuttu máli allra hagur.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)