Pólitískur framkvæmdadans

Þegar maður kjaftar frá því hvernig bíómynd endar er maður yfirleitt ekkert vinsæll. Ég lít svo á að þegar maður kjaftar frá því hvernig danssýning endar, sem þar að auki hætt er að sýna, eigi maður ekki að fá sama dóm.

Þegar maður kjaftar frá því hvernig bíómynd endar er maður yfirleitt ekkert vinsæll. Ég lít svo á að þegar maður kjaftar frá því hvernig danssýning endar, sem þar að auki hætt er að sýna, eigi maður ekki að fá sama dóm.

Íslenski dansflokkurinn er núna nýhættur að sýna dansverkin Í okkar nafni sem eru í raun tvær danssýningar.

Fyrri sýningin var mjög góð. Hún er eftir Gringras og byggir á lífsmynstri og samskiptum skordýra. Það var alveg ótrúlegt að fylgjast með dönsurunum sem voru einstaklega góðir og um mig fór óneitanlega hrollur þegar ég fékk það hálfpartinn á tilfinninguna að ég væri kominn í maurabú.

Síðari sýningin er hinsvegar meginumfjöllunarefni þessa menningarpistils. Hún er eftir Spánverjann Roberto Oliván og er ramm pólitísk.

Sýningin hefst á mjög skemmtilegum kafla þar sem Íslendingurinn í verkinu er að veiða og fara með rímur, allt mjög íslenskt og þjóðlegt. Þar kemur svo Bretinn að fer að dást að náttúrunni og Íslendingurinn tekur vissulega undir það.

Ég skildi sýninguna þannig að hún ætti að endurspegla viðhorf íslendinga annarsvegar, til náttúrunnar, og svo Breta hinsvegar. En við munum jú að verkið er skrifað af Spánverja.

Þegar Íslendingurinn hefur dáðst að umhverfinu og náttúrunni í dágóða stund fer hann að sjá tækifæri í hverju horni. Hann vill reisa miðstöð fyrir ferðamenn og verslun og hvaðeina, auglýsa staðinn svo fleiri geti notið hans. Þetta finnst Bretanum fráleitt og telur að Íslendingurinn eyðileggi umhverfið með þessu. Þeir byrja að rífast og rífast í dágóða stund. Þá líkur þessum skemmtilega kafla og við tekur hádramatískur kafli sem dansaður var við tónlist Jóns Leifs. Þessi kafli var örugglega 20 mínútur en þá líktu dansararnir eftir sprengingum, vinnuvélum og allskonar framkvæmdum sem augljóslega áttu að vera mjög vondar. Það var verið að reyna að troða því inn í hausinn á mér að framkvæmdir væru vondar.

Verkið endaði svo á því að allt sprakk í loft upp, Íslendingurinn sá eftir öllu saman og skrítin vera, sem ég sá fyrir mér að gæti verið móðir náttúra, engdist um, skrækti, öskrað og skreið loks ofan í kistu og dó.

Vægast sagt mjög dramatískur endir.

Íslendingum er stillt upp sem gráðugum og tækifærissinum sem vilja eyðileggja náttúruna. En Bretinn sér ljósið, ber virðingu fyrir umhverfinu og vill hafa það eins og móðir náttúra skapaði það. Dáldið kaldhæðnislegt í því ljósi að Bretar bera einna mesta ábyrgð á ofveiði þorsks í Norðursjó sem leitt hefur til þess að stofninn þar er hruninn, en “gráðugu” Íslendingarnir nýta sín fiskimið af skynsemi og með sjálfbærum hætti. Bretar brenna kolum til orkuframleiðslu og reka fjöldann allan af olíuborpöllum. Spánverjinn hefði því varla geta verið óheppnari með samanburðinn…

Mér leið svona hálfpartinn eins og ég væri komin inn á trúarsamkomu eða fund hjá Vinstri grænum þar sem var verið að boða virkjana stopp því að allar framkvæmdir eru vondar og Íslendingar eiga að lifa á fiskveiðum og kveða rímur.

Svona hugmyndir eins og þessar sem Spánverjinn Roberto Oliván hefur eru bæði fjarstæðukenndar og fáránlegar. Hvers vegna má Íslendingurinn ekki byggja sjoppuna sína og selja þjónustu og reyna að fá fleiri til þess að njóta okkar yndislegu náttúru?

Aðal atriðið er jú það að Íslendingurinn færi aldrei að eyðileggja það mikið af náttúrunni að ferðamennirnir hættu að koma til hans. Hann gerir sér fulla grein fyrir því að ef hann fer ekki vel með náttúruna hættir fólk að vilja njóta hennar á þessum ákveðna stað og leitar annað. Þá mundi hann tapa því að þá myndi enginn versla í sjoppunni hans. Það er því hagur hans að fara sem best með náttúruna.

Þau skilaboð sem leikriti Oliváns er ætlað að senda eru í raun og veru þau að hann, væntanlega fyrir hönd heimsbyggðarinnar, vill að við Íslendingar verðum lítil, krúttleg og frumstæð þjóð sem veiðir á færi og kveður rímur, eins konar safngripur til yndisauka fyrir þjóðir heims. Hugtakið hroki er varla nógu sterkt til að lýsa þessari afstöðu.

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)