Eftir það var ekkert eins og áður

Muni þið þegar við vorum öll heima hjá okkur í nokkrar vikur? Facebook var með smá comeback og allir fóru að taka þátt í áskorunum og leikjum, allir urðu almannavarnir, vildu hlýða Víði, jafnvel tækniheftasta fólk byrjaði að fjarfunda á netinu í tíma og ótíma, við horfðum á björtu hliðarnar á málum og hlupum hringinn í kringum hnöttinn í sameiningu, við horfðum á beinar útsendingar á netinu af allskonar efni sem fullt af liði sendi út heiman frá sér því enginn mátti fara út. 

Það er ógeðslega margt sem hefur breyst en eitt er svolítið merkilegt. Fyrir þann tíma þótti það ekkert tiltökumál að níða skóinn af náunganum á samfélagsmiðlum. Ég veit að þið munið kannski ekki eftir þessu en fólki þótti bara í lagi að drulla yfir aðra á samfélagsmiðlum af því það var ósammála um einhver málefni. 

Þetta var vissulega hluti af því að samfélagsmiðlarnir voru að slíta barnskóum svona í sögulegu samhengi. Við höfðum öll verið svo fegin að fá okkar eigin fjölmiðla og áheyrendur að við þurstum inn á ritvöllinn með snjallsímana að vopni og frussuðum allskonar skít hvert yfir annað. Við vitum núna að þetta var auðvitað galin hegðun.

Við þurftum að læra að standa saman í þessum nýja heimi samfélagsmiðlanna. Við fengum sameiginlegan óvin sem hjálpaði okkur. Allir lögðust á eitt og við upplifðum það á eigin skinni að málin hafa tilhneigingu til þess að leysast farsællega ef menn fara beint í boltann en ekki í manninn. Þannig er hægt að yfirstíga  jafvel flóknustu vandamál. 

Veiran kenndi okkur það svo um munaði að það er mikilvægt að standa saman á ögur stundu. Við vorum svo sem búin að æfa það nokkrum sinnum. Við höfðum gert þetta í kringum stórmót í fótbolta og líka þegar þegar handboltamönnum gekk vel í sínum leik en það var alltaf á svona peppandi og geggjuðum tímum en ekki í erfiðleikum.

Við lærðum líka hvað það var mikilvægt að hafa gott fólk í stjórnmálum og í samfélagslega mikilvægum verkfnum. Við sáum það hversu mikinn skaða vondir stjórnmálamenn geta gert því víða þar sem vondir stjórnmálamenn réðu ríkjum létust hlutfallslega miklu fleiri en á Íslandi. 

Þá fóru margir að leggja saman tvo og tvo og fengu út að það væri kannski ekki á það bætandi að þegar maður er í erfiðri stöðu og er að glíma við flókin mál að fá neikvæða persónulega gagnrýni yfir sig út af einhverri útfærslu. 

Við lærðum að það er margfallt auðveldara að skipta um skoðun og ná betri niðurstöðu þegar maður fær uppbyggilega gagnrýni í vel skrifuðum texta sem stingur upp á lausnum en þegar riddarar lyklaborðsins ráðast allir á mann í einu og segja mann að maður sé fáviti. Ég veit að þið eruð búin að gleyma því en svona var þetta þegar við vorum að ná tökum á því að nota samfélagmiðla sem tjáningarform. 

Mig langaði bara að minna ykkur á þetta því þetta var eitt að því góða sem veiran gaf okkur að mínu mati. Maður sér nefnilega ekki alltaf breytingarnar fyrr en eftirá og það er svo gott að geta litið til baka og áttað sig á því hversu langt við erum komin. 

Latest posts by Kristín Hrefna Halldórsdóttir (see all)