Hafnarfjarðar aprílgabb

Á laugardaginn gengu Hafnfirðingar að kjörborðinu. Baráttan var gríðarlega hörð og spennan mikil enda bentu kannanir til að fylkingarnar væru nánast jafnstórar. Niðurstaðan var einungis 88 atkvæða munur, andstæðingar álversins töldu sig hafa unnið.

Á laugardaginn gengu Hafnfirðingar að kjörborðinu. Baráttan var gríðarlega hörð og spennan mikil enda bentu kannanir til að fylkingarnar væru nánast jafnstórar. Niðurstaðan var einungis 88 atkvæða munur, andstæðingar álversins töldu sig hafa unnið.

Nú er komið í ljós að kosningarnar voru nánast til einskis þar sem félagið fær að stækka um 170 þúsund tonn, en það skortir því bara 110 þúsund tonn upp á þá stækkun sem þeir vildu fá. Bæjarstjórinn hefur staðfest að þetta er mögulegt af þeirra hálfu.

Þetta er auðvitað ekki sú stækkun sem Alcan vildi, hins vegar hafa þeir möguleika með endurskipulagningu á núverandi svæði að stækka álverið verulega. Það liggur þó ekki fyrir hvort það sé vilji eða fullkomnir möguleikar til að koma þeim byggingum, sem eru nauðsynlegar, fyrir innan núverandi svæðis.

Alvarlegast í þessu eru þau áhrif sem verða á erlendri grundu, þar sem Íslendingar skapa sér ímynd að þeim sé ekki að treysta, með hringlandahætti. Þessar kosningar voru alltof seint í ferlinu, eftir að búið var að ganga frá öllum samningum og Hafnarfjarðarbær búinn að gefa vísbendingu um sinn vilja með því að selja Alcan lóð, vitandi vits hvað átti að nota hana í.

Eftir standa spurningar um Samfylkinguna í Hafnarfirði, en bæjarstjórinn hefur staðfest að stækkun upp í 350 þúsund tonn sé möguleg. Framkoma Samfylkingarinnar í bæjarfélaginu er mjög eftirtektarverð, en þeir fara af stað með kosningu þegar ferlið var komið jafn langt og raun ber vitni en upplýsa ekki bæjarbúa að verið var að kjósa um 110 þúsund tonna stækkun en ekki 280 þúsund tonn.

Það er ljóst að Hafnfirðingar voru hafðir af fíflum, þeim var aldrei sögð nema hálf sagan. Það er nú í höndum Alcan að ákveða hvort þeir stækka eða ekki. Hafnfirðingar hafa og höfðu ekkert um það að segja. Í framhaldi hljóta að koma útskýringar frá Samfylkingunni í Hafnarfirði, þeir komast varla lengur upp með að skila auðu eins og þeir gerðu í kosningunum.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.