Kjósum fólk með skoðanir

Ég er rauður, skoðanalaus, skil ekki alveg hvernig lýðræði virkar og er hræddur við að takast á við flókin málefni. Hver er ég?

Ég er rauður, skoðanalaus, skil ekki alveg hvernig lýðræði virkar og er hræddur við að takast á við flókin málefni. Hver er ég?
Svar: Samfylkingin

Ég ætla ekki að taka álver eða úrslit þessara kosninga sem áttu sér stað í Hafnarfirði þessa helgi til umfjöllunar. Nokkuð viss um að það sé til nóg af pistlum, greinum og bloggfærslum um þau málefni. En mig langar til að fara aðeins yfir þetta fyrirbæri sem ber nafnið “íbúalýðræði”. Stjórnmálamenn nútímans virðast halda að þeir geti falið skoðanir sínar á bak við íbúalýðræðið. Erum við ekki flest sammála um að það sé einfaldlega rangt?

Samfylkingarmenn lýstu því yfir nú á dögum að þeir leyfðu sér að hafa engar skoðanir á málum þegar notast væri við íbúalýðræði. Ég býð ekki velkomna skoðanalausa stjórnmálamenn eða flokka. Það er einfaldlega ekki það lýðræði sem ég hef trú á.

Ef Lúðvík bæjarstjóri vill vera skoðanalaus embættismaður, þá má hann alveg vera það. En hann skal ekki halda það að íslenskir stjórnmálamenn fái að fela skoðanir sínar eingöngu vegna þess að þeir segja þær vera persónulegar. Þegar einhver gerist stjórnmálamaður þá er það ekki bara eins og hver önnur atvinna, heldur eru þetta stefnumótendur þjóðarinnar og eiga að vera menn og konur sem eiga sér framtíðarsýn um hvernig samfélagið á að vera. Kjósendur verða að fá nægilega mikið af upplýsingum hvað varðar þessa framtíðarsýn, til að geta kosið “rétt” í kosningum til bæjarstjórnar, og einnig til Alþingis í maí.

Það er ánægjulegt að við nýtum okkur íbúalýðræði sem lausn á deilu innan bæjarfélaga eða á landsvísu. Enda eigum við ávallt að þróa lýðræðið og íbúalýðræði er einfaldlega næsta skref í þróun lýðræðisins. En ég skora á landsmenn til að neita stjórnmálamönnum um skoðanaleysi og ekki gefa þeim neina hvatningu í næstu kosningum með því að kjósa þá sem neita að gefa upp skoðanir sínar. Það er einfaldlega of erfitt að treysta slíkum stjórnmálamönnum.

rej1@hi.is'
Latest posts by Reynir Jóhannesson (see all)