Leikur lýðræðið lausum hala?

Kosningarnar í Hafnarfirði á morgun eru í raun fyrstu bindandi íbúakosningarnar á Íslandi. Mikið er í húfi og þeir sem hagsmuna eiga að gæta hafa lagt allt í sölurnar í kosningabaráttunni. Á sama tíma og þrengt hefur verið verulega að svigrúmi stjórnmálaflokka til fjáröflunar og auglýsinga eru fyrirtæki og félagasamtök undanþegin slíkum reglum. Er lýðræðið að yfirgefa stjórnmálaflokkana?

Það má með nokkurri einföldun segja að kosningarnar sem fram fara í Hafnarfirði á morgun séu fyrstu alvöru íbúakosningarnar á Íslandi. Að vísu var kosið um framtíð flugvallarins í Reykjavík árið 2001 en niðurstöður úr þeirri atkvæðagreiðslu voru ekki bindandi og þátttakan var langt undir væntingum. Almennt hefur beint lýðræði hér á landi verið með allra minnsta móti, jafnvel þótt miðað sé við þjóðir sem fara sér heldur hægt í þeim efnum. Sé hins vegar horft til landa eins og Sviss, þar sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru nánast daglegt brauð er auðvitað gerólíku saman að jafna. Síðasta þjóðaratkvæðagreiðsla á Íslandi fór fram árið 1944 og snerist um stjórnarskrá lýðveldisins. Þar sögðu 98,5% já og ef til vill hafa menn spurt sig hvers vegna væri yfirhöfuð verið að standa í þessu þegar kjósendur væru svona sammála. Í öllu falli hefur ekki haldin þjóðaratkvæðagreiðsla síðan.

Álverskosningarnar verða prófsteinn á íbúakosningar hér á landi. Engum hefur dulist hve ákaft Alcan hefur beitt sér í þessari kosningabaráttu. Þar virðist ekkert skorta á að fjármagn og kraftar starfsmanna séu nýttir til þess að tryggja rétta niðurstöðu fyrir fyrirtækið. Það er í sjálfu sér ekki nema skiljanlegt að fyrirtækið leggi allt sitt í kosningarnar. En þetta vekur upp ákveðnar spurningar um lýðræðið hér á landi og hvert það stefni.

Sú mikla breyting hefur orðið á undanförnum mánuðum varðandi starfsemi stjórnmálaflokka að fjármagni, styrkjum og auglýsingum flokkanna er þrengri stakkur skorinn en áður. Lögin um flokkana sem sett voru í desember voru stærsta skrefið á þeirri vegferð, með takmörkunum á framlög til flokkana. Nýslegið samkomulag flokkana um takmörk á kostnaði við auglýsingar í kosningabaráttunni er angi af sama meiði. Flokkarnir eru undir sífellt fleiri takmörkunum á meðan sambærilegar reglur eiga ekki við um fyrirtæki og félagasamtök, sem geta beitt sér af miklum þunga í bæði almennum kosningum sem íbúakosningum. Þessir aðilar þurfa ekki að gefa upp hverjir láta fé af hendi rakna til þeirra og engin hámörk eru á framlögum til þeirra. Alcan leikur því lausum hala og sömu sögu er að segja um Framtíðarlandið sem hefur staðið fyrir mikilli kynningarherferð vegna sáttmála sem félagið bauð landsmönnum að skrifa upp á.

Nú kann að vera að einhverjum þyki þetta ekki sérstakt áhyggjuefni. En hvernig munu þessi mál þróast þegar horft er lengra fram á veginn? Verða flokkarnir orðinn léttvægur og lítill hluti af lýðræðinu? Reglum sem ætlað er að auka gagnsæi í starfsemi flokkanna mega ekki snúast upp í að verða spennitreyja sem veldur því að flokkarnir munu láta af hendi áhrif sín og stefnumörkun yfir til hagsmunaaðila í kringum íbúakosningar. Sá veruleiki er ekki það sem að er stefnt.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.