Pyrrhosarsigur í Hafnarfirði?

Mjög naumur meirihluti Hafnfirðinga hefur tekið þá ákvörðun álverið í Straumsvík verði ekki stækkað. Atkvæðagreiðslan og niðurstaða hennar er að mörgu leyti athyglisverð. Andstæðingar stóriðju og virkjana hrósa sigri en sá sigur gæti hafa verið dýru verði keyptur.

Ekki verður af stækkun álversins í Straumsvík eftir að meirihluti kjósenda í Hafnarfirði greiddi atkvæði gegn deiliskipulagstillögu um stækkunina í íbúakosningu sem fram fór þar suðurfrá í gær. Kjörsókn var mikil en afar mjótt var á munum, einungis 88 atkvæði skildu að þá sem voru andvígir og þá sem voru fylgjandi stækkuninni.

Einkar athyglisvert hefur verið að fylgjast með kjörnum fulltrúum bæjarbúa í aðdraganda þessara kosninga. Meirihluti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn hefur þannig ekki viljað gefa upp afstöðu sína til málsins. Það er með miklum ólíkindum að pólitískir leiðtogar skili auðu í umræðu um svo stóra ákvörðun, burtséð frá því hvort þeir vilji skjóta henni til kjósenda eða ekki. Bæjarstjórinn í Hafnarfirði sagðist í aðdragandum ekki vilja hafa áhrif á hug íbúa með því að lýsa afstöðu sinni en þegar kjörstöðum hafði verið lokað og bæjarstjórinn var spurður um afstöðu sína, þá var heldur engin svör að finna. Þögn og afstöðuleysi hins pólitíska meirihluta í Hafnarfirði er sérstakur kapítuli í málinu og verða honum ekki gerð frekari skil hér.

Þessi atkvæðagreiðsla er fyrir margra hluta sakir nokkuð merkileg. Mikil kjörsókn er til marks um að Hafnfirðingar hafi almennt haft á málinu sterka skoðun og niðurstaðan sýnir ótvírætt að bæjarfélagið er klofið í svo að segja jafn stórar fylkingar – 50,3% voru andvígir stækkun en 49,7% voru henni fylgjandi. Þótt niðurstaðan sé fengin, er að vissu leyti óheppilegt að hún skuli ekki vera meira afgerandi en raun ber vitni. Ljóst má vera að fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki í Hafnarfirði telja sig nú hafa borið skarðan hlut frá borði.

Úrslit atkvæðagreiðslunnar þurfa hins vegar ekki að koma svo mjög á óvart. Frá sjónarhóli Hafnfirðinga mæla margvíslega rök gegn stækkun, einkum varðandi ásýnd bæjarins og nánasta umhverfis hans. Fáum hugnast væntanlega að hafa risastjórt álver svo að segja í bakgarðinum hjá sér. Þá er atvinnuástand í Hafnarfirði með allra besta móti. Ógæfa Alcan felst því aðallega í upphaflegri staðsetningu og þeirri staðreynd að atvinnuástandið veitir fólki þá öryggistilfinningu að engin þörf sé á stækkun. Í raun kemur það á óvart í þessu ljósi hversu naumlega stækkunin er felld í atkvæðagreiðslunni.

Sú staðreynd að 49,7% Hafnfirðinga voru reiðubúnir að stækka mjög verulega risastóra verksmiðju í bakgarðinum hjá sér með tilheyrandi mengun, háspennulínum og virkjanaframkvæmdum er athyglisverð. Hafi einhverjir vænst eftir því að Hafnfirðingar myndu í atkvæðagreiðslunni sýna stuðning sinn við hugmyndir um virkjanastopp eða -frestun, þá hljóta hinir sömu að hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum. Eflaust hafa einhverjir kosið gegn stækkuninni á forsendum Vinstri grænna, þ.e. að álver og virkjanir séu af hinu illa, en langflestir þeirra sem sögðu nei í gær hafa vafalítið verið að lýsa þeirri afstöðu sinni að þeir vildu ekki stækka verksmiðjuna í næsta nágrenni við heimili sín. Þessu til stuðnings má benda á að þátttakan í kosningunni var áberandi mest hjá íbúum í Áslands- og Vallahverfum, en þau eru nálægt Straumsvík.

Ögmundur Jónasson, þingflokksformaður Vinstri grænna, segir á heimasíðu sinni um úrslitin í Hafnarfirði að þáttaskil hafi orðið í langvarandi deilum um virkjanastefnu og efnahagsstefnu á Íslandi. Hann og aðrir stöðvunarsinnar ætla greinilega að falla í þá gryfju að túlka niðurstöðuna í Hafnarfirði sem sigur fyrir sinn málstað.

Nú munu augu manna væntanlega beinast að uppbyggingu stóriðju norður á Bakka við Húsavík og suður í Helguvík í umdæmi Reykjanesbæjar. Á báðum þessum stöðum, einkum Húsavík, er atvinnuástandið mun síðra en í Hafnarfirði og á báðum stöðum stendur til að reisa álver nokkuð fjarri íbúðarsvæðum. Ef íbúarnir á þessum stöðum lýsa yfir vilja sínum til þess að álver verði reist þar, væri það þá til marks um íslenska þjóðin sé fylgjandi stórfelldri álvæðingu? Með röksemdarfærslu Ögmundar, og þeirra sem túlka úrslitin í Hafnarfirði með álíka hætti og hann, yrði svarið afdráttarlaust já.

Það er skiljanlegt að þeir sem andvígir eru stóriðjuuppbyggingu og virkjunum gleðjist yfir niðurstöðunni í Hafnarfirði og fagni sigri. Sá sigur gæti þó reynst pyrrhosarsigur. Með þessari niðurstöðu aukast líkurnar á því að álver rísi bæði á Bakka og í Helguvík. Nú á eftir að koma í ljós hvort lýðræðisást Ögmundar og félaga verður jafn einlæg þegar kemur að því að kanna afstöðu íbúa á Húsavík og í Reykjanesbæ til þess að reisa álver.

Ákvörðun Hafnfirðinga liggur fyrir. Þeir gengu til atkvæða á sínum eigin forsendum. Niðurstaðan er góð fyrir þann helming Hafnfirðinga sem var andvígur stækkun verksmiðjunnar við túnfótinn en slæm fyrir hinn helminginn sem taldi hag sínum betur borgið með stærra álveri. Flóknara er það ekki.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.