Má bjóða ykkur strák eða stelpu?

Neytendur eru vanir því að geta valið epli eða appelsínur þegar þeir kaupa ávexti í Hagkaupum, en kyn barna sinna velja menn ekki nema í vísindaskáldskap upprunnum í Hollywood. Eða hvað?

Stofnfrumurannsóknir hafa verið talsvert í umræðunni, bæði á Íslandi og erlendis. Skoðanir eru skiptar um réttmæti slíkra rannsókna, sér í lagi hvað varðar stofnfrumur sem upprunnar eru í fósturvísum. Sumir telja að notkun fósturvísa í slíkum rannsóknum og eyðing þeirra í kjölfarið sé óréttlætanleg í grundvallaratriðum, en gagnrýnin einskorðast þó engan vegin við það atriði. Vangaveltur um klónun látinna systkina, réttindi fólks í tengslum við erfðaefni sitt, og misnotkun á fóstrum og jafnvel klónuðu fólki til líffæragjafa hafa komið upp.

Enn eru slík vandamál fræðilegs eðlis, en þó skyldu menn varast að draga af því þá ályktun að vísindin staldri við þar til siðferðisleg sátt hefur náðst um notkun nýrrar tækni. Hitt er mun algengara, að vísindin komi aftan að fólki og notkun nýrrar tækni sé orðin umtalsverð áður en það verður almenningi vel ljóst að tæknin sé yfirleitt til í rannsóknarstofum, hvað þá á neytendamarkaði.

Kynjaval (sex selection) er dæmi um slíkt, og framboð á slíkri þjónustu er orðið verulegt, þótt ekki fari mjög mikið fyrir því. Nýleg rannsókn sýndi að tæp 10% tæknifrjóvgunarmiðstöðva í Bandaríkjunum bjóða upp á slíka þjónustu. Í um helmingi tilfella er skilyrði fyrir þjónustunni að um „kynjajöfnun“ sé að ræða, þannig að ekki er boðið upp á kynjaval nema til að tryggja að yngra systkini verði af öðru kyni en þau börn sem fyrir eru, en í hinum helmingnum eru engar sérstakar kröfur gerðar um ástæður þess að foreldrarnir kjósa annað kynið frekar en hitt.

Auðvitað hefur lengi verið möguleiki á að ákvarða kyn fóstra á meðgöngu og í sumum löndum er talið að fóstureyðingar hafi viðgengist eftir að kyn hafði verið ákvarðað með sónar. Fóstureyðing, frekar seint á meðgöngu, er þó lítt fýsilegur kostur, enda er talið að þessi aðferð hafi aldrei náð mikilli útbreiðslu, nema hugsanlega í minna þróuðum ríkjum þar sem kostnaður af börnum er talsvert misjafn eftir kynjum.

En með notkun erfðatækni er nú hægt að greina kyn mun fyrr á þroskastigi fóstursins, og er aðferðin mjög sambærileg þeim sem notaðar eru til að skima fyrir ýmsum erfðasjúkdómum. Egg móður er frjóvgað í tilraunaglasi og þegar það er orðið að fósturvísi með fjórum eða átta frumum er ein þeirra tekin úr fósturvísinum og skimað fyrir Y litningnum. Ef hann finnst er fóstrið karlkyns, annars ekki. Þeim fóstrum sem eru af réttu kyni er svo komið fyrir í legi móðurinnar og hinir fósturvísarnir geymdir eða þeim eytt.

Aðrar aðferðir eru til, sem byggjast á að skilja sáðfrumur eftir því hvort þær innihalda X eða Y litning. Það er hægt að gera annað hvort með skilvindu (sáðfrumur sem innihalda X litning eru þyngri og skiljast því frá sáðfrumum sem innihalda Y litning), eða með leysigeislum sem flokka einstakar sáðfrumur. Þessar aðferðir eru þó talsvert ónákvæmari en skimun fósturvísa.

Hér verður ekki kveðinn upp dómur um siðfræði kynjavals. Hvort sem slík þróun er til góðs eða ills er ljóst að hún er að eiga sér stað og talsvert er orðið til af börnum sem eru nákvæmlega af því kyni sem foreldrar þess óskuðu sér, í stað þess að kynið sé komið upp á Guð og lukkuna. Kynjaval með skimun fósturvísa felur oft í sér eyðingu þeirra fósturvísa sem eru af röngu kyni og í samfélagi sem lítur fóstureyðingar hornauga liggur nokkuð beint við að gagnrýna kynjaval fyrir þá eyðingu.

En í samfélagi þar sem fóstureyðingar af félagslegum ástæðum eru leyfðar og stundaðar, er erfitt að verja sérstakt bann við slíkri skimun og vali á fósturvísum, enda eru þeir talsvert lengra frá því að teljast einstaklingar en fóstur í móðurkviði eru. Í löndum á borð við Ísland, þar sem tæknifrjóvgun er niðurgreidd af ríkinu, er líklegt að þessi aðgerð verði lengur að ryðja sér til rúms, enda ólíklegt að ríkið niðurgreiði slíkar aðgerðir í nánustu framtíð og því er kostnaðurinn talsverður, en fyrir fólk sem stendur frammi fyrir kostnaði af glasafrjóvgun er skimun á fósturvísum hlutfallslega lítill viðbótarkostnaður.

Það er erfitt að spá um hvað framtíðin ber í skauti sér, en ef reynslan af fyrri tækninýjungum segir okkur eitthvað, þá er það að eftirspurn einstaklinga hefur meira vægi en siðferðislegar vangaveltur kverúlanta úti í bæ, svo líklegt er að þróunin haldi áfram í sömu átt, hvort sem okkur líkar betur eða verr.


Heimildir: Baruch, S., D. Kaufman, et al. (2006). „Genetic testing of embryos: practices and perspectives of US IVF clinics.“ Fertility and Sterility.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)