Aukum ójöfnuð meðal eldri borgara

Ef dregið verður úr tekjutengingu lífeyrisgreiðslna hefur það óumflýjanlega í för með sér að ójöfnuður mun aukast meðal eldri borgara. Ef eitthvert samræmi væri í málflutningi vinstrimanna, þá myndu þeir mótmæla öllum hugmyndum um afnám tekjutengingar.

Málefni aldraðra hafa verið í brennidepli íslenskra stjórnmála á síðustu misserum. Kröfur um úrbætur í þessum málaflokki hafa verið háværar og hagsmunasamtök aldraðra farið mikinn. Fyrir siðustu sveitarstjórnarkosningar reyndu frambjóðendur að höfða mjög til þessa hóps og hjá flestum voru málefni eldri borgara sett á oddinn.

Nýlega ákváðu stjórnvöld að koma til móts við kröfur þessa hóps með margvíslegum breytingum á lífeyrisgreiðslum og öðrum þáttum sem snúa að framfærslu aldraðra. Kostnaður ríkisins vegna þessara breytinga er áætlaður 27 milljarðar króna, tuttugu og sjö þúsund milljónir. Fullyrða má að annað eins átak í velferðarmálum hefur ekki verið gert hér á landi. Þrátt fyrir þessar miklu úrbætur gætir enn óánægju meðal eldri borgara. Beinist sú óánægja einkum að tekjutengingu lífeyrisgreiðslna.

Margvísleg rök hníga að því að draga úr tekjutengingu lífeyrisgreiðslna. Í fyrsta lagi þá er eðlilegt að þeim sem sýnt hafa fyrirhyggju og búa að góðum lífeyrisgreiðslum sé ekki refsað fyrir það. Í öðru lagi er æskilegt í félagslegu og heilsufarslegu tilliti að eldri borgarar séu þátttakendur á vinnumarkaði svo lengi sem heilsa þeirra leyfir. Í þriðja lagi er þjóðfélagið að verða af þeirri verðmætasköpun sem leiða myndi af vinnuframlagi eldri borgara. Sömu rök eiga við í þessum efnum og um nýlega breytingu sem gerð var á örorkubótakerfinu og fjallað var um í leiðara hér á Deiglunni.

Á þessu máli er hins vegar önnur hlið. Ef dregið verður úr tekjutengingu lífeyrisgreiðslna hefur það óumflýjanlega í för með sér að ójöfnuður mun aukast meðal eldri borgara. Ef eitthvert samræmi væri í málflutningi vinstrimanna, þá myndu þeir mótmæla öllum hugmyndum um afnám tekjutengingar eldri borgara, þar sem með því yrðu hinir ríku ríkari meðal eldri borgara – gini-stuðullinn og allt það.

Kostir þess að draga úr tekjutengingu eru hins vegar svo afgerandi að þeir fara jafnvel langt með að réttlæta þá útgjaldaaukningu sem ríkissjóður yrði fyrir í formi hærri lífeyrisgreiðslna. Eftir sem áður skiptir höfuðmáli að slík breyting myndi ekki vega að stoðum kerfisins en eins og kunnugt er íslenska söfnunarkerfið máttarstólpi velferðar hér á landi og öfundsvert í augum annarra þjóða sem byggja á s.k. gegnumstreymiskerfi.

Deiglan tekur undir með þeim sem draga vilja úr tekjutengingu ellilífeyris. Aukum ójöfnuð meðal eldri borgara, bætum kjör þeirra og hag þjóðarinnar í heild sinni.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.