Þráttað við þinglok

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis átti þingstörfum á þessu þingári að ljúka í gær, fimmtudag. Þinglok eru fyrr á ferðinni en í hefðbundnu ári vegna kosninganna í maí næstkomandi. Það er því líklegt að á næsta starfsári Alþingis verði skipun ríkisstjórnarinnar breytt frá því sem nú er. En var þetta starfsár þingsins, frá því þing kom saman í október 2006, gott eða slæmt?

Samkvæmt starfsáætlun Alþingis átti þingstörfum á þessu þingári að ljúka í gær, fimmtudag. Þinglok eru fyrr á ferðinni en í hefðbundnu ári vegna kosninganna í maí næstkomandi. Það er því líklegt að á næsta starfsári Alþingis verði skipun ríkisstjórnarinnar breytt frá því sem nú er. En var þetta starfsár þingsins, frá því þing kom saman í október 2006, gott eða slæmt? Byrjum á endanum.

Alls voru 80 mál á dagskrá 89. fundar Alþingis í gær, stór jafnt sem smá en hæst ber þó auðlindamálið en sérnefnd um stjórnarskrármál hafði enn ekki lokið yfirferð um málið þegar þessi orð eru rituð. Auðlindamálið snýst eins og flestir vita um að bæta inn í stjórnarskránna efnislið um sameign þjóðarinnar á auðlindum landsins.

Hvort að samstaða náist um málið eða það verði einfaldlega kæft í nefnd er ekki vitað að svo stöddu. Þó svo að merkingarlega hafi ákvæðið líklega ákaflega litla þýðingu þá er samt vonandi að málið náist ekki í gegn því að stjórnarskrá landsins á að vera heilagra plagg en svo að í hana séu sett merkingarlaus eða merkingarlítil ákvæði til þóknast ákveðnum hagsmunahópum eða standa við gefin kosningaloforð.

Önnur mál sem vert er að nefna er að breyting Rúv í opinbert hlutafélag (ohf.) en frumvarp þess efnis varð að lögum í lok janúar. Fagna ber því að rekstrarfyrirkomulagi Ríkisútvarpsins hafi verið gjörbylt þó vissulega hefði mátt standa öðruvísi að málum. Agalegan verður þó að telja nefskattinn sem fylgir nýja hlutafélaginu enda nefskattar eflaust ein versta hugmynd ríkja til innheimtu gjalda ekki síst fyrir þær sakir hversu erfitt er að afnema þá en auðvelt að breyta því í hvað beri að eyða þeim. Kannast einhver við framkvæmdasjóð aldraðra?

Að sjálfsögðu verður að minnast á skattalækkanir í þessari yfirferð. Er þar bæði vísað í lækkun á tekjuskatti um síðustu áramót og lækkun á virðisaukaskatti og tollum á matvörum um síðustu mánaðamót. Skattalækkunum ber ávallt að fagna jafnvel þó gagnrýnisraddir telji þær stundum koma á óhentugum tíma. Um áramótin var tímasetningin talin slæm þar sem þensla væri í þjóðfélaginu. Pistlahöfundur á þó erfitt með að sjá að einstaklingar eyði sínum fjármunum á óskynsamlegri hátt en ríkið og að eyðsla ríkisins hafi ekki síður verið ástæða þenslunar. Það ber því að fagna öllum aðgerðum sem minnka þá fjármuni sem ríkið hefur úr að spila.

Ríkisstjórnin setti fram frumvarp um það hvernig ráðstafa eigi söluhagnaði vegna sölu Símans. Menn hafa eflaust skemmt sér stórkostlega við að semja það frumvarp enda þykir stjórnmálamönnum miklu skemmtilegra að eyða peningum en að skera niður kostnað. Síðan má nefna að Alþingismenn töldu skynsamlegt að hækka lágmarksiðgjald, þ.e. mótframlag atvinnurekanda, í lífeyrissjóð úr 8% í 6%. Með því var verið að færa ráðstöfunarrétt fjármuna til lífeyrissjóða frá launþegum. Í raun er það undarlegt hvað kjarabarátta á Íslandi er farin að snúast um auknar greiðslur í lífeyrissjóði í stað þess að fólk fái notið betri kjara strax. Fólk hefur þá ávallt það val að eyða meira í sparnað. Þetta lyktar af því að forkálfar verkalýðshreyfinganna telji sig hafa meira vit á peningum en alþýða manna.

Eitt stærsta málið sem fór í gegn á þinginu snéri þó að fjármálum stjórnmálaflokka og frambjóðenda. Um var að ræða þverpólitískt mál þar sem stjórnmálamenn tryggja sínum flokkum framlög til framtíðar og gera nýjum framboðum erfiðara um vik að bjóða fram. Málið var gagnrýnt harkalega hér á Deiglunni, m.a. í þessum pistli en því miður þá fannst þingmönnum (öllum nema þremur) ekki ástæða til að hlusta á raddir kjósenda í þessu en ítrekuðu mikilvægi þverpólitískrar samstöðu um málið. Enda var það kannski ekki von, lögin eru góð fyrir stjórnmálamenn en aðra ekki.

Þinglok núna binda ákveðinn endahnút á samstarf Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í ríkisstjórn. Ólíklegt verður að teljast að þessi tveir flokkir myndi áfram ríkisstjórn á næsta kjörtímabili þar sem t.a.m. Framsóknarflokkurinn hefur helmingast í skoðanakönnunum frá núverandi kjörfylgi. Samstarf þessara flokka leiddi margt gott af sér eins og skattalækkanir en einnig margt miður gott samanber lög um fjármál stjórnmálaflokka. Það verður einnig að teljast vonbrigði að þessi ríkisstjórn, sem verður að teljast, nánast eins hægri skipuð og íslensk fjölflokka stjórn getur orðið, hafi ekki gengið lengra í frelsisátt á ýmsum sviðum. Ber þar að nefna afnám ríkisisins á sölu áfengis og frekari niðurfellingu tolla og vörugjalda. Fyrsta skrefið í þá átt var þó stigið og vonandi er hægt að ná frekari árangri í þeim efnum seinna þegar hinn íslenski framsóknarsinnaði bændaflokkur situr ekki lengur í ríkisstjórn.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)