Frjáls verslun er hagur bænda

Nýleg könnun sýnir að íslenskir neytendur eru reiðubúnir að greiða hærra verð fyrir íslenskar landbúnaðarvörur en innfluttar. Í þessu ljósi blasir við að engin þörf er á verndartollum og öðrum innflutningshöftum.

Bændur héldu sinn árlega baráttufund, Búnaðarþing, í byrjun mars og óhætt er að fullyrða að bjart hafi verið yfir íslenskum bændum á fundinum. Í setningarræðu sinni á fundinum sagði Haraldur Benediktsson, bóndi á Vestra-Reyni í Innri Akraneshreppi og formaður Bændasamtakanna, að bændum hefði gengið betur en þeir hefðu þorað að vona við að koma viðhorfum sínum á framfæri.

Vísaði Haraldur í niðurstöður nýlegrar könnunar sem Capacent – Gallup vann fyrir Bændasamtökin en þar kemur fram að Íslendingar telji gæði innlendra landbúnaðarvara meiri en innfluttra og mikill meirihluti aðspurðra var reiðubúinn að greiða hærra verð fyrir íslenskar en innfluttar landbúnaðarvörur. Af þessum niðurstöðum dróg Haraldur eftirfarandi ályktun:

„Niðurstaðan er líka umhugsunarefni fyrir þá sem árum saman hafa alið á óvild í garð landbúnaðar og bændastéttar.“

Ekki er gott að átta sig á því hvað bóndinn á Vestra-Reyni er að fara með þessum orðum eða við hvaða aðila hér er átt. En ef Haraldur á hér við þá aðila sem hvatt hafa til afnáms tolla og annarra innflutningshafta, þá sem hafa lagt til að íslenskur landbúnaður verði leystur úr viðjum hafta og ríkisafskipta, þá gæti hann ekki hafa valið sér verri forsendur til að koma höggi á þá aðila.

Niðurstöður umræddrar könnunar, sem formaður Bændasamtakanna hampar svo mjög, renna auðvitað styrkum stoðum undir málflutning þeirra sem vilja koma á frjálsri verslun með íslenskar landbúnaðarvörur. Sé það rétt að 75% þjóðarinnar telji íslenskar landbúnaðarvörur betri en þær erlendu og 62% séu tilbúin til að greiða hærra verð fyrir innlendu vörurnar, þá er íslenskur landbúnaður betur í stakk búinn en flestar aðrar framleiðslugreinar hér á landi til að keppa við innfluttar vörur.

Í stað þess að túlka niðurstöður ofangreindrar könnunar sem áfangasigur forræðishyggjunar, þá væri nær fyrir formann Bændasamtakanna að stappa stálinu í sitt fólk og bjóða erlendri samkeppni byrginn. Íslenskir bændur eru fullkomlega færir um spreyta sig á frjálsum markaði og eiga skilið að fá tækifæri til þess.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.