Af forsetaefnum – seinni hluti

Nú er komið að seinni hluta umfjöllunar um forsetaefni bandarísku stjórnmálaflokkanna og er kastljósinu beint að Demókrataflokknum að þessu sinni.

Keppnin um hverjir fá að berjast á næsta ári um forsetaembættið í Bandaríkjunum er hafin af fullri alvöru og talið er svo til öruggt að í fyrsta í skipti í áratugi verður hvorki sitjandi forseti né varaforseti á meðal keppenda. Hópur þeirra sem hafa tilkynnt framboð sitt er orðinn talsvert stór og gæti enn fjölgað í honum.

Hér á Deiglunni var nýlega fjallað um þá frambjóðendur sem helst berjast um útnefningu Repúblikanaflokksins til forsetaframboðs, og nú er röðin komin að þeim Demókrötunum sem þykja líklegastir til að hljóta sams konar útnefningu.

Hillary Clinton ætti að vera öllum vel kunn. Hún var forsetafrú í átta ár og varð svo sú fyrsta sem gegnt hefur þeirri stöðu til að ná kjöri í opinbert embætti. Nú stefnir þessi lögfræðimenntaði öldungadeildarþingmaður New York hins vegar enn hærra og ætlar sér að verða fyrsti kvenforseti Bandaríkjanna. Hvort hún falli við fyrstu hindrun, forkosningar Demókrata, fer að miklu leyti eftir því hvort hún komist upp með þá afstöðu – sumir myndu kalla þvermóðsku – sína að þvertaka fyrir að lýsa því berum orðum yfir að hún hafi gert mistök þegar hún greiddi atkvæði í þinginu með stríðsrekstri Bandaríkjanna í Írak. Hún hefur ekki náð að heilla hinn almenna flokksmann sökum eðlislægrar stífni við að koma fram opinberlega, þó til séu undantekningar á því, en undanfarna daga hefur hún unnið hörðum höndum við að bæta ímynd sína. Framboð Clinton hefur sterkan fjárhagslegan bakgrunn, hún hefur mikil pólítísk ítök innan flokksins og víðar, auk þess sem hún hefur komið best út úr skoðanakönnunum meðal frambjóðenda Demókrata. Hún er óneitanlega sú sem flestir búast við að hljóti útnefninguna en fróðlegt verður að fylgjast með hvernig hún tekst á við kuldann á toppnum.

Barack Obama er af flestum talinn helsti keppinautur Clinton um útnefningu flokksins. Hann skaust á stjörnuhiminn Demókrataflokksins og bandarískra stjórnmála þegar hann flutti innblásna ræðu á flokksþingi Demókrata árið 2003. Hann hefur verið öldungadeildarþingmaður Illinois síðustu tvö árin en á þeim stutta tíma vakið mikla athygli fyrir frjálslyndi og persónutöfra. Faðir Obama er frá Kenýa og móðir frá Kansas, og hann talar mikið um að brúa bilið milli kynslóða og kynþátta. Þrátt fyrir að vera dökkur á hörund eru ýmsir sem segja hann ekki vera „nógu svartan“ til að hafa rétt á að tala sem það sameiningartákn sem hann vill vera. Þó eru fleiri sem segja hann vera ósvikna vonarstjörnu Demókrata og hvort sem hann hlýtur útnefninguna eður ei er hann langlíklegastur til að verða fyrsti blökkumaðurinn í embætti forseta Bandaríkjanna í náinni framtíð. Hvort það tekst núna veltur líklega á því hvort honum takist að sýna þann styrk sem nauðsynlegur er hverjum þeim sem situr í valdamesta embætti í heimi. Heimavarnir eru Bandaríkjamönnum hugleiknar og telja sumir hann hafa sýnt veikleikamerki þegar hann kaus á móti stríðinu í Írak á þingi. Þetta þarf hann að geta varið og um leið sýna að hann hafi þau bein í nefinu sem til þarf. Mælskan og útgeislunin virðist vera minna áhyggjuefni fyrir hann.

John Edwards, enn einn öldungadeildarþingmaðurinn, er sá sem þykir hvað líklegastur til að ógna hinum tveimur. Hann var varaforsetaefni Demókrataflokksins í síðustu forsetakosningum og barðist þá við hlið John Kerry, en engu að síður er hann ekki talinn eiga mikla möguleika á að hljóta útnefninguna. Edwards heldur því fram af óvenju mikilli hreinskilni að með því að kjósa með stríðinu í Írak í öldungadeild þingsins hafi hann gert alvarleg mistök, og vill þannig höfða til þess gríðarstóra hluta flokksmanna sem er andvígur stríðsrekstri í Írak. Enn fremur sagði hann í spjallþætti í gær að hann vissi ekki hvernig mál myndu þróast í Írak ef hersveitum Bandaríkjamanna yrði skipað úr landinu. Að þessu leyti stendur hann framar en Hillary Clinton, sem sýnir ákveðna þvermóðsku í sama máli, en um leið er hann að sýna breyskleika og bandarískur almenningur er ekki alltaf tilbúinn að samþykkja slíka kosti í leiðtogum sínum. Hann heldur í þá von að með slíkum málflutningi skeri hann sig frá hinum frambjóðendunum; hvort það skilar honum nógu miklu fylgi til að koma á óvart í kjörinu skal svo ósagt látið.

Tveir fyrstnefndu frambjóðendurnir virðast bera höfuð og herðar yfir aðra í hópi forsetaefna Demókrataflokksins og á sá slagur eflaust eftir að bjóða uppá ýmsar uppákomur áður en yfir lýkur. Nú þegar hefur slegið í brýnu með þeim vegna harkalegra orða eins af stuðningsaðilum Obama í garð Clinton-hjónanna, og er það vonandi bara byrjunin á athyglisverðu einvígi tveggja mjög frambærilegra einstaklinga.

Latest posts by Þorgeir Arnar Jónsson (see all)