Álitamál um ál

Í lok mars ganga íbúar Hafnarfjarðar að kjörkössunum og greiða atkvæði um fyrirhugaða stækkun álvers Alcan í Straumsvík. Hafnfirðingar þurfa að vega og meta rök með og á móti stækkuninni og er að mörgu að hyggja í þeim efnum.

Álver í bakgarðinum er ekki það sem flestir kjósa en staðreyndin er engu að síður sú að í útjaðri höfuðborgarsvæðisins finnst eitt slíkt. Álver Alcan í Straumsvík hefur staðið síðan árið 1970 og hefur í gegnum árin haft mikil áhrif á atvinnumál á svæðinu þó dregið hafi úr mikilvægi þess á undanförnum árum. Í dag um 37 árum eftir opnun þess er atvinnuleysi nánast ekki neitt og ekkert sem bendir til þess að álverið sé forsenda fyrir blómlegu atvinnulífi á svæðinu.

Í lok mars ganga íbúar Hafnarfjarðar að kjörkössunum og greiða atkvæði um fyrirhugaða stækkun. Alcan hefur ekki gengið svo langt að lýsa því yfir að fyrirtækið hyggist leggja af álvinnslu í Straumsvík verði stækkunin ekki samþykkt en þó hafa þeir sagt að þetta kunni klárlega að hafa áhrif á þann tíma sem það verður til staðar. Núverandi raforkusamningar Alcan gilda til ársins 2024 (skvt. Jóni Baldvini Hannibalssyni) og því er fullljóst að álverið mun a.m.k. standa fram að þeim tíma.

Tvenn hagsmunasamtök eru starfandi í aðdraganda þessara kosninga. Annars vegar Sól í Straumi sem berjast gegn fyrirhugaðri stækkun og hins vegar Hagur Hafnafjarðar sem eru henni fylgjandi. Í síðarnefndu samtökunum sitja fulltrúar fyrirtækja og einstaklinga sem þjónusta starfsemi álversins á einn eða annan hátt. Sól í Straumi er hins vegar þverpólitískur hópur áhugafólks um stækkunarmálið í Straumsvík.

Hafnfirðingar þurfa að vega og meta rök með og á móti stækkuninni og er að mörgu að hyggja í þeim efnum. Einfalt er fyrir Hafnfirðinga sem og áhugasama að kynna sér málin á vefjunum: www.alcan.is, www.solistraumi.org og www.hagurhafnarfjardar.is. Í stuttu máli má segja að helstu rökin með stækkuninni séu fjárhagsleg en rökin á móti henni má segja jafnt umhverfisleg og efnahagsleg.

Vissulega hefur starfsemi álvers í Straumsvík haft mikil áhrif atvinnuuppbyggingu í Hafnarfirði og nágrenni í gegnum árin. Hins vegar eins og staðan er í dag þá er mikilvægi álversins fyrir atvinnulíf á svæðinu ekki afgerandi. Álverið borgar að vísu fasteignaskatta til bæjarins og ljóst er að hverfi það á braut (sem ekkert bendir til) þá gætu tekjur bæjarfélagsins lækkað um nokkur prósent. Málið snýst því í grundvallaratriðum um það hvort Hafnfirðingar vilji risaálverksmiðju í bakgarðinum hjá sér með tilheyrandi óhjákvæmilegum útblæstri svo ekki sé talað um sjónmengun og hávaða. Það getur ekki verið fýsilegt að búa í næsta nágrenni við stóriðju og hætt við því að fasteignaverð í þeim hverfum sem eru næst álverinu lækki.

Það er staðreynd að álver menga það umhverfi sem þau starfa í og þrátt fyrir það að tækni til að draga úr mengun þeirra hafi fleygt mjög fram á undanförnum árum, verður þessi staðreynd ekki flúin. Það er því deginum ljósara að stækkun álversins mun t.a.m. auka útblástur gróðurhúsalofttegunda töluvert. Önnur áhrif stækkunarinnar væru m.a.: sjónmengun (álverið yrði gríðarstórt), færsla Reykjanesbrautarinnar auk þess, eins og greiningardeildir bankanna hafa bent á, er líklegra að áframhaldandi skeið verðbólgu og ofurvaxta haldi áfram verði ráðist í stækkunina.

Ákveðinn hræðsluáróður hefur verið í gangi þess efnis að útlit sé fyrir að álverið leggi upp laupana verði stækkunin ekki samþykkt. Hins vegar er ekkert sem bendir til þess því að á heimasíðu Alcan, www.alcan.is þá kemur fram að: “Engar áætlanir eru uppi um lokun álverins ef ekki kemur til stækkunar.“ Hafnfirðingar ættu því ekki að þurfa að óttast það að þetta hafi mikil áhrif á efnahag bæjarbúa og atvinnumál í bænum. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu á heimasíðu Alcan fullyrða samtökin Hagur Hafnarfjarðar að höfnun í kosningunum þýði að álverið hverfi á braut sem er ekki mjög málefnalegur málflutningur.

Höfuðborgarsvæðið þarf ekki á stóriðju að halda. Hér er atvinnulíf í miklum blóma þar sem m.a. fjármálastarfsemi virðist ætla að verða ein af undirstöðunum. Þar að auki höfum við allt sem þarf til að blómleg nýsköpunar- og hátæknifyrirtæki vaxi vel og dafni, s.s. öfluga háskóla og gott menntunarstig. Það er því vonandi að Hafnfirðingar muni sýna þá djörfu afstöðu þegar talið verður upp úr kjörkössunum þann 31.mars að hafna fyrirhugaðri stækkun álversins. Slík afstaða myndi endurspegla viljann til að treysta á annars konar atvinnuuppbyggingu en stóriðju, a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu, og verða lyftistöng og hvati fyrir nýsköpun og þróun í landinu.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)