Af forsetaefnum – fyrri hluti

Nú er baráttan um sæti forsetaefna bandarísku stjórnmálaflokkanna hafin af fullri alvöru og margir um hituna. Hér er fjallað um helstu vonbiðla Repúblikanaflokksins.

Forkeppnin til að sjá hverjir fá að berjast á næsta ári um forsetaembættið í Bandaríkjunum er hafin af fullri alvöru og talið er svo til öruggt að í fyrsta í skipti í áratugi verður hvorki sitjandi forseti né varaforseti á meðal keppenda. Hópur þeirra sem hafa tilkynnt framboð sitt er orðinn talsvert stór og gæti þeim enn fjölgað.

Prófkjörsbaráttan er hafin af fullri alvöru á nokkrum stöðum en hverjir eru stærstu fiskarnir og hvað hafa þeir til brunns að bera? Hér verða dregin fram í sviðsljósið nokkur þeirra sem líklegust eru til árangurs í forvali Demókrata og Repúblikana á forsetaefnum sínum, þrjú úr hvorum flokki. Sagt verður stuttlega frá hverju þeirra auk þess sem líkur þeirra á að hljóta tilnefningu síns flokks verða vegnar og metnar. Umfjöllun þessari er eingöngu ætlað að stikla á stóru og veita stutta innsýn í það sem verður efst á baugi í bandarískri stjórnmálaumræðu, og áberandi í fréttum um allan heim, þegar líður á árið. Svo þegar nær dregur verður þessari baráttu gerð ítarlegri skil en þetta verður að duga í bili.

Umfjölluninni verður skipt í tvennt; fyrri hlutinn í dag og sá síðari að rúmri viku liðinni. Þar sem Repúblikanaflokkurinn er nú einu sinni flokkur núverandi forseta, George W. Bush, er því ekki úr vegi að líta fyrst á úrvalið hjá þeim.

Þekktasti frambjóðandinn er líklega Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri í New York, sem tilkynnti um framboð sitt fyrr í mánuðinum. Hann sat á borgarstjórastóli í tvö kjörtímabil og þótti sýna einstaka leiðtogahæfileika í kjölfar árásanna á Tvíburaturnana árið 2001. Giuliani kemur yfirleitt best út úr skoðanakönnunum af frambjóðendum repúblikana og margir kostir hans benda til að hann yrði frambærilegur forseti. Þó hefur hann ýft nokkuð margar fjaðrir meðal flokksmanna með ummælum sínum um áhrif byssueignar á glæpatíðni, auk yfirlýsts stuðnings hans við aukin réttindi samkynhneigðra og fóstureyðingar. Þetta gætu reynst ljón í vegi hans að því að hljóta tilnefningu flokksins en hann rær nú öll árum að því að víkka pólítískt tengslanet sitt og safna styrkjum til að halda dampi í baráttunni.

Annar frambjóðandi sem þykir eiga góðan möguleika á að hljóta tilnefninguna er öldungadeildarþingmaðurinn John McCain. Hann þykir standa vel að vígi meðal flokksmanna víða um Bandaríkin og gengur að dyggum stuðningi vísum í ýmsum lykilríkjum á borð við Iowa og Suður-Karólínu. Hans helsti Akkilesarhæll í kjöri flokksins virðist ætla að verða afdráttarlaus stuðningur hans við aðgerðir Bandaríkjamanna í Írak. Með því setur hann sig á skjön við mikinn meirihluta þjóðarinnar og það þykir ekki fýsilegur kostur í fari forsetaframbjóðanda. Það er þó margt sem vegur upp á móti skoðunum hans á írak. Ferill McCain í bandaríska hernum er glæsilegur og hefur hann hlotið ótal orður fyrir afrek sín á vígvöllum. Hann virðist einnig búa yfir hæfileikanum að geta blásið fólki eldmóð í brjóst með þrumuræðum sínum, þó hann eigi til að láta skapið hlaupa með sig í gönur. Hann hefur reynslu af baráttu sinni við George W. Bush á sama vettvangi fyrir átta árum síðan og sú reynsla gæti gert útslagið þegar á líður.

Þriðji frambjóðandinn er líklega sá síst þekkti af þeim þremur sem hér verður gefinn gaumur, en hann hefur engu að síður farið vel af stað í baráttu sinni. Mitt Romney var ríkisstjóri Massachusetts á árunum 2003 til 2007 en reynslan hans kemur frekar úr viðskiptaheiminum. Hann stofnaði eigið fjárfestingarfyrirtæki árið 1984 og hefur auðgast vel á því, auk þess sem hann hefur sinnt ýmsum sérfræði- og ráðgjafaverkefnum í gegnum tíðina. Meðal annars var hann í skipulagsnefnd Vetrarólympíuleikanna í Salt Lake City árið 2002. Hans skilaboð til flokksmanna og almennings er að margt þurfi að breytast í Hvíta Húsinu og til að svo megi verða þurfi einhvern utanaðkomandi, einhvern sem er ekki gegnsýrður af pólítík og geti innleitt aukna skilvirkni og nýsköpun í æðsta stjórnkerfi Bandaríkjanna. Romney er fjölskyldumaður, á stóra fjölskyldu sjálfur og kemur auk þess úr mikilli stjórnmálafjölskyldu, þannig að fjölskyldugildin og pólítískt nef, sem eiga eftir að spila stórt hlutverk í baráttunni framundan, eru honum í blóð borin. Svo þykir hann líka hafa einstaklega „forsetalegt“ útlit og yfirbragð; leyfi lesendum sjálfum að dæma um það.

Af öðrum Repúblikönum sem hafa tilkynnt um framboð sitt má nefna Newt Gingrich, fyrrum leiðtoga flokksins á þingi, Sam Brownback, öldungadeildarþingmann frá Kansas, og George Pataki, fyrrum ríkisstjóra New York. Þessir eru þó taldir ólíklegri en hinir þrír, annað hvort vegna skorts á fjármagni eða pólítískum stuðningi innan flokksins. Erfitt er að ráða í spilin á þessum tímapunkti en ljóst er að spennandi barátta er framundan á milli afar ólíkra einstaklinga.

Latest posts by Þorgeir Arnar Jónsson (see all)