Allir njóta uppgangsins

Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, kynnti í fyrradag áfanganiðurstöður í rannsóknum sínum á tekjudreifingu á Íslandi og komst að því að tekjudreifing hefur lítið breyst hér á landi frá árinu 1993. Sú mikla hækkun tekna sem orðið hefur síðan þá hefur því dreifst jafnt á ólíka tekjuhópa og langt í frá að ákveðnir tekjulægri þjóðfélagshópar hafi dregist aftur úr. Þessar niðurstöður þurfa ekki að koma mikið á óvart. Þegar atvinnulífið er leyst úr viðjum ríkisforsjár og skattar lækkaðir aukast tækifæri allra til að bæta sinn hag.

Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, kynnti í fyrradag áfanganiðurstöður í rannsóknum sínum á tekjudreifingu á Íslandi. Með því að skoða framtalsgögn frá embætti ríkisskattsstjóra kemst Ragnar að því að tekjuaukning áranna 1993-2005 hafi dreifst nánast jafnt á ólíka tekjuhópa. Með öðrum orðum, að allir hafi aukið tekjur sínar nánast jafnt og ekki sé hægt að tala um að tekjulægstu hóparnir hafi verið skildir útundan. Góðærið hefur því náð til allra en ekki bara sumra, eins og oft hefur mátt skilja á umræðunni undanfarið.

Það er án efa freistandi og spennandi fyrir stjórnarandstöðuna að mála þá mynd af stjórnarflokkunum tveimur að þeir hafi með aðgerðum sínum hyglað hinum ríku en látið hina tekjulægri reka á reiðanum. Rannsókn Ragnars sýnir hins vegar að ekki er hljómgrunnur fyrir þessum fullyrðingum. Aukið frjálsræði í efnahagsmálum hefur komið öllum vel.

Í rannsókn sinni skoðar Ragnar atvinnutekjur einstaklinga, hjóna og sambúðarfólks og svo heildartekjur beggja hópa. Af þeirri rannsókn má sjá að atvinnutekjur hafa hækkað til þess að gera jafnt og lægri tekjurnar ívið meira. Tekjuþróun þar sem allir hópar auka tekjur sínar jafnt þýðir að hinn svonefndi Gini-stuðull, sem hefur verið mikið til umræðu að undanförnu, er nánast sá sami árið 2005 og árið 1993. Gini-stuðullinn mælir tekjudreifingu og má í stuttu máli segja að hann hækki eftir því sem tekjudreifingin verði ójafnari. Sé stuðullinn t.d. 1 á sami einstaklingurinn allar eignir þjóðfélagsins en sé stuðullinn 0 eiga allir þegnar þjóðfélagsins jafnmiklar eignir.

Ragnar mælir einnig Gini-stuðulinn fyrir heildartekjur hjóna og sambúðarfólks, þ.e. atvinnutekjur og fjármagnstekjur, og kemst að því að hann hafi hækkað nokkuð hratt á árunum 1993-2005. Stuðullinn hækkar hins vegar mun minna ef tekjuhæsta 1% í skalanum eru tekið út fyrir mælinguna. Af þessu má ráða að hinir allra tekjuhæstu, sem t.d. hagnast verulega á hlutabréfasölu, skekkja myndina töluvert.

En það er hollt að hafa í huga að mælikvarðar eins og Gini-stuðullinn eru ekki algildir. Ragnar benti á það í fyrirlestri sínum í Odda í fyrradag að þar sem stuðullinn er mældur á ársfresti, taki hann ekki inn í myndina breytingar í ævitekjum fólks. Eins og við vitum flest eru tekjur fólks ólíkar eftir æviskeiðum. Þær eru yfirleitt frekar lágar fyrstu árin á vinnumarkaði, hækka svo með árunum og ná hámarki um fimmtugt en lækka gjarnan síðustu ár starfsævinnar. Gini-stuðullinn getur hins vegar hækkað milli ára þótt meðaltal ævitekna haldist óbreytt.

Þá geta ytri breytingar í þjóðfélaginu haft áhrif á stuðulinn, t.d. kann hærri meðalaldur þjóðarinnar eða lengri skólaganga haft þau áhrif að stuðullinn hækkar, þótt engar breytingar verði á tekjum að öðru leyti.

Hvað sem þessum þáttum líður er fróðlegt að skoða niðurstöður Ragnars um tekjudreifinguna árin 1993-2005 í ljósi þeirra fullyrðinga stjórnarandstöðunnar um að ríkið hafi á undanförnum árum aukið ójöfnuð með aðgerðum sínum. Þeir sem hafa fylgst með þróun í efnahagsmálum undanfarin 10-15 ár sjá fljótlega að efnahagsstefna stjórnvalda um að minnka ríkisumsvif og lækka skatta hefur skilað miklum uppgangi í efnahagslífinu. Niðurstöður Ragnars þurfa því ekki að koma á óvart. Þegar einstaklingar fá tækifæri til að njóta ávaxta erfiðis síns án þess að ríkisvaldið skipti sér af lætur árangurinn sjaldnast á sér standa. Og þegar öllu er á botninn hvolft er þetta sú stefna sem kemur öllum best til lengri tíma litið.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.