Mikilvægar stúdentaráðskosningar

VakaÓvenjuleg staða hefur verið í Stúdentaráði síðustu ár þar sem engin fylking hefur náð hreinum meirihluta. Enn óvenjulegri staða hefur verið í ráðinu í ár þar sem Vaka og Röskva mynduðu meirihluta saman og þótti það saga til næsta bæjar. Áhugavert hefur verið að fylgjast með starfinu í vetur og þrátt fyrir samstarfið hefur munurinn á fylkingum tveimur aldrei verið skýrari.

VakaNú styttist óðfluga í hinar árlegu stúdentaráðskosningar í Háskóla Íslands og harðnar baráttan með degi hverjum. Vaka, félag lýðræðissinnaðra stúdenta býður fram lista að vanda og er hann skipaður einvala liði fólks úr hinum ýmsu deildum skólans. Óvenjuleg staða hefur verið í Stúdentaráði síðustu ár þar sem engin fylking hefur náð hreinum meirihluta. Enn óvenjulegri staða hefur verið í ráðinu í ár þar sem Vaka og Röskva mynduðu meirihluta saman og þótti það saga til næsta bæjar. Áhugavert hefur verið að fylgjast með starfinu í vetur og þrátt fyrir samstarfið hefur munurinn á fylkingunum tveimur aldrei verið skýrari.

Vaka hefur alla tíð lagt áherslu á uppbyggilega gagnrýni og að finna lausnir á vandamálunum í stað þess að benda einungis á það sem miður fer. Þessar aðferðir Vöku hafa sýnt það að þær virka best til þess að ná árangri. Vaka vill vinna með stjórnmálamönnum og háskólayfirvöldum til að koma málum í gegn og bæta þannig skólann. Endalaust röfl, barlómur og almenn neikvæðni skila litlu, ef þá nokkru.

Fjölmörg dæmi má taka um framkvæmdagleði Vöku, eitt þeirra eru Stúdentakortin. Í fjölmörg ár hafði það verið rætt innan Háskólans að koma á einhvers konar aðgangskortakerfi í skólanum, en það var ekki fyrr en Vaka tók við formennsku í hagsmunanefnd SHÍ að hjólin fóru að snúast. Vökuliðar unnu dag og nótt í sjálfboðavinnu við gerð kortanna og nú hafa kortin litið dagsins ljós, en þau eru í senn aðgangskort að heimabyggingu nemenda, afsláttarkort og nemendaskírteini. Hægt er að sækja um stúdentakortin á þessari síðu .

Nýjasta dæmið sem sannar það að Vaka lætur verkin tala eru Rannsóknadagar SHÍ sem haldnir verða 24. og 25. janúar næstkomandi. Þeir eru í höndum Vökuliða sem eiga veg og vanda af þessu gríðarstóra verkefni. Þessu verkefni er ætlað að vera grundvöllur til að efla og hvetja til umræðu um rannsóknarstarf á Íslandi. Hægt er að kynna sér þetta verkefni á þessari síðu .

Enn annað dæmið er Innovit, sem er hugmynd stúdenta að nýsköpunar- og frumkvöðlasetri við Háskólann. Vökuliðar mynduðu starfshóp sem hefur unnið hörðum höndum að hrinda þessari hugmynd í framkvæmd. Spennandi verður að fylgjast með þessu glæsilega verkefni á næstunni.

Stórt skref var stigið í hagsmunabaráttu stúdenta þann 11.janúar síðastliðinn þegar menntamálaráðherra og rektor Háskóla Íslands skrifuðu undir tímamótasamning sem tryggir Háskólanum 3 milljarða viðbótarframlag fram til ársins 2011. Vaka fagnar þessu frábæra framtaki enda styður Vaka heilshugar markmið Háskólans um að komast í hóp 100 bestu háskóla heims.

Næstu dagar og vikur eru gríðarlega mikilvægar í starfi Vöku enda ætlar félagið sér stóra hluti í kosningum þann 7. og 8. febrúar. Vaka hefur undanfarin ár fengið langflest atkvæði allra framboða og aðeins vantar herslumuninn upp á að félagið endurheimti meirihluta sinn í ráðinu. Það er nefnilega þannig að það skiptir virkilega máli hverjir það eru sem stýra starfi og nefndum Stúdentaráðs – það sýna þau dæmi sem rakin hafa verið hér að ofan. Vaka hefur leitt starf ráðsins í vetur með samstarf að leiðarljósi, en eðlilega fylgja þvinganir slíku samstarfi. Framkvæmdagleði og hugmyndaauðgi Vökufólks fær ekki notið sín til fulls nema félagið hafi sterkt umboð til að stýra málum stúdenta.

Málefni Vöku eiga sterkan hljómgrunn meðal háskólanema enda er Vaka langstærsta fylkingin. Þetta sást best í síðustu kosningum þegar aðeins vantaði 4 atkvæði upp á að Vaka næði hreinum meirihluta. Ég vil því hvetja alla sem vettlingi geta valdið til að láta ekki sitt eftir liggja í baráttunni framundan og tryggja Vöku sigurinn og þar með enn öflugra og kraftmeira starf í þágu stúdenta við Háskóla Íslands.

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.