Barnamynd með boðskap

Í kvikmyndahúsum borgarinnar er nú sýnd barnmyndin Happy Feat eða „Fráir fætur“. Þetta er hress teiknimynd, uppfull af dansandi og syngjandi mörgæsum og færir okkur boðskap um að mannfólkið skuli bera meiri virðingu fyrir umhverfinu og umfram allt að láta af fiskveiðum því þær ógna afkomu mörgæsa.

Í kvikmyndahúsum borgarinnar er nú sýnd barnmyndin Happy Feat eða „Fráir fætur“. Þetta er hress teiknimynd, uppfull af dansandi og syngjandi mörgæsum og færir okkur boðskap um að mannfólkið skuli bera meiri virðingu fyrir umhverfinu og umfram allt að láta af fiskveiðum því þær ógna afkomu mörgæsa.

Í aðalhlutverki er Muldri sem er svarti andarunginn í hópnum þar sem hann kann ekki að syngja, en Muldri kann hins vegar að dansa, nánar tiltekið að steppa. Sá eiginleiki er hins vegar lítils metinn í heimi mörgæsanna og Muldri óvinsæll eins og hann er vegna hins meðfædda galla hverfur frá heimkynnum sínum. Á ferðalagi sínu hittir Muldri nokkrar „latino“ mörgæsir sem eru mun opnari fyrir takmörkunum Muldra og slást í för með honum í leit að rót þess vanda sem steðjar að heimi mörgæsanna; drasl, skítur og þverrandi fiskur.

Saman ferðast mörgæsirnar þar til þær koma að heimkynnum mannanna og verður ljóst að þar er rót vandans, vanvirðing mannfólksins við umhverfið. Þessi boðskapur er væntanlega eilítið flókin fyrir meginþorra markhópsins, en gerir myndina þeim mun áhugaverðari fyrir þá sem eldri eru. Boðskapurinn takmarkast þó ekki við það að mannfólkið eigi að ganga betur um umhverfið því megináherslan færist smátt og smátt yfir á gífurlega andstöðu við fiskveiðar sem ógna lífsviðurværi mörgæsanna.

Muldri lendir óvænt í dýragarði þar sem hann dansar sig inn í hug og hjörtu nærstaddra og tekst þannig á ótrúlegan hátt að fá mannfólkið til að opna augun fyrir þeirri vá sem steðjar að heimi mörgæsanna. Muldri kemur svo að sjálfsögðu heim sem hetja.

Það læðist óneitanlega sú tilfinning að manni að allsherjarbann við fiskveiðum hafi blundað í hugum þeirra sem gerðu myndina og því vaknar sú spurning hvort þetta verði næsta stóra mál á dagskrá umhverfisverndarsinna úti í heimi. Þó fiskveiðar séu ekki sama grundvallarstoð lífs á Íslandi og þær voru áður, þá eru þær engu að síður ein af okkar aðalatvinnugreinum og sem 13. mesta fiskveiðiþjóð heims er ljóst að hagsmunir okkar eru gífurlegir þegar kemur að alþjóðlegu viðhorfi til fiskveiða.

Seint á síðustu öld urðu hvalir alveg rosalega krúttlegir og manngerðar verur sem nánast geta talað saman, fyrir tilstilli umhverfisverndarsinna úti í heimi. Fiskar verða væntanlega seint nóg og sætir til að hægt sé sannfæra menn um að ættleiða einn slíkan ólíkt hvölum, en mörgæsir eru það svo sannarlega. Mörgæsirnar gætu hugsanlega orðið lóð á vogarskálar þeirra sem vilja takmarka eða banna fiskveiðar, því hver vill lifa í heimi þar sem syngjandi og dansandi mörgæsir svelta heilu hungri?

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.