Seljum Landsvirkjun, en höldum landinu

Eftir kaup ríkisins á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun er einkavæðing stærsta raforkuframleiðanda Íslands á allra vörum. Verðmæti Landsvirkjunar felst ekki einungis í rekstri virkjana og raforkumannvirkja um land allt, heldur líka í góðu aðgengi að ríkinu og virkjunarleyfum sem afhent eru án endurgjalds. Það væri firra að einkavæða þau verðmæti sem felast í þessu aðgengi.

Eftir kaup ríkisins á hlut Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun er einkavæðing stærsta raforkuframleiðanda Íslands á allra vörum. Að hluta til felast verðmæti Landsvirkjuskýrnar í rekstri virkjana og raforkumannvirkja um land allt. Þessi rekstur er best kominn í höndum einkaaðila sem reka hverja virkjun samkvæmt hagnaðarsjónarmiðum.

Að því gefnu að áætlanir um aðskilnað framleiðslu og dreifingar haldi áfram á sömu braut er auðvelt að sjá fyrir sér rekstur vatnsaflsvirkjana í samkeppnisumhverfi. Það væri skammsýni að binda sig við sölu allra virkjananna til eins aðila, enda framleiða þær samtals um 93% allrar raforku í landinu. Ísland er ekki hluti af raforkumarkaði Evrópu og verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð, þrátt fyrir tal um sæstreng. Markaðurinn fyrir raforku er því íslenskur markaður og Landsvirkjun er nálægt því að vera einokunaraðili á þeim markaði. Þótt samkeppnisrekstur sé betri en einokunarrekstur, er langt í frá augljóst að einokun einkaaðila sé betri en einokun ríkisins.

En markaðsráðandi aðstaða Landsvirkjunar í tengslum við núverandi raforkuframleiðslu er í sjálfu sér lítið vandamál í samanburði við það vandamál sem myndi skapast ef Landsvirkjun eins og hún er í dag yrði seld til einkaaðila. Verðmæti Landsvirkjunar felst ekki einungis í rekstri virkjana og raforkumannvirkja um land allt, heldur líka í góðu aðgengi að ríkinu og virkjunarleyfum sem afhent eru. Það væri firra að einkavæða þau verðmæti sem felast í þessu aðgengi. Yrði fyrirtækið eins og það er í dag selt til einkaaðila er ljóst að heilbrigð skynsemi myndi knýja þessa aðila til að eyða mikilli orku í að hafa áhrif á úthlutun virkjunarleyfa.

Það er því mikilvægt að skilgreina nákvæmlega hvernig virkjunarleyfum verður úthlutað í framtíðinni, og það áður en að einkavæðingu kemur, en ekki í tengslum við einkavæðingu.

Ein leiðin er að láta óutfylltan tékka um virkjun allra vatnsfalla sem ekki eru í einkaeigu fylgja með í einkavæðingarpakkanum. Mögulegar afleiðingar slíkrar sölu yrðu svo skelfilegar að vonandi þarf litlar áhyggjur að hafa af því. Önnur leið er að ákveða að einkavædd Landsvirkjun haldi áfram að hafa þann forgang sem hún hefur notið hingað til, en þurfi engu að síður að fá leyfi fyrir hverri virkjun fyrir sig. Þessi leið leysir ekki rentusóknarvandann, þar sem það yrði enn mjög mikilvægt fyrir einkavædda Landsvirkjun að halda þingmönnum og ráðherrum góðum, og reyna að tryggja að í stjórnarráðið settust að loknum hverjum kosningum einstaklingar sem hefðu samúð með fyrirtækinu.

Þriðja leiðin er að útfæra, áður en að einkavæðingu kemur, reglur um uppboð allra nýrra virkjunarkosta sem samþykktir kunna að verða í framtíðinni. Þannig yrði tryggt að auðlindarentan af hverjum virkjunarkosti endaði í höndum ríkisins, í stað þess að um hana yrði slegist í reykfylltum bakherbergjum. Slíkar reglur ættu einnig að gera ráð fyrir því að lágmarksverð yrði sett á hvern virkjunarkost, enda er löngu tímabært að fara að gera kröfu um að virkjanaframkvæmdir skili skýrri og augljósri rentu í ríkiskassann (sjá fyrri pistil höfundar, Verðmæti Kárahnjúka sem birtist á Deiglunni árið 2003).

Uppboðsleiðin er ótvírætt sú besta af þessum þremur aðferðum, enda er um markaðslausn að ræða sem þó felur ekki í sér afsal á forræðinu yfir öræfum landsins og þeirri náttúrufegurð sem Íslendingar og útlendingar gera sér stöðugt betri grein fyrir. En uppboðsleið fylgir sá galli að ef aðeins er um einn kaupanda að ræða fæst að öllu jöfnu hlægilegt verð fyrir vöruna. Aðrir aðilar en Landsvirkjun sætu frammi fyrir því að vera í afskaplega ójafnri samkeppni við Landsvirkjun, þar sem samlegðaráhrif af rekstri margra virkjana nýtast Landsvirkjun og ekki öðrum. Það er því mikilvægt til að þessi leið gangi upp að nokkrir sterkir aðilar séu til staðar til að taka þátt í slíku útboði. Uppbrot Landsvirkjunar fyrir einkavæðingu er ein leið til að tryggja þá niðurstöðu.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)