Ábyrgðarleysi

Á kosningavetri (aðeins meir en öðrum vetrum) er gríðarlega vinsælt að kalla eftir því að ríkið geri hitt og þetta. Oft væri hins vegar nær að spyrja „hvað get ég gert?“ frekar en að biðja alltaf ríkið um að kippa hlutunum í liðinn.

Það er oft auðveldara að kenna einhverjum öðrum um það sem úrskeiðis fer frekar en bera ábyrgðina sjálfur. Sömuleiðis er auðveldara að biðja einhvern annan um að gera hlutina í stað þess að gera þá sjálfur. Á kosningavetri (aðeins meir en öðrum vetrum) er gríðarlega vinsælt að kalla eftir því að ríkið geri hitt og þetta. Oft væri hins vegar nær að spyrja „hvað get ég gert?“ frekar en að biðja alltaf ríkið um að kippa hlutunum í liðinn.

Umferðin og sú umræða sem verið hefur um vegaframkvæmdir nýlega eru nærtækt dæmi. Tvöföldun vega „allt annað er óásættanlegt“ og „engin víravegrið“ eru nýlegar kröfur af þessum vettvangi. Vegirnir eru orðnir svo góðir og bílarnir svo kraftmiklir að vegirnir verða að vera tvöfaldir til að koma í veg fyrir lífshættuleg slys. En hvað gerist svo þegar vegurinn er orðinn tvöfaldur og enn betri og bílarnir enn kraftmeiri. Munu þá allir keyra á 160 km hraða á klukkustund og næstu kröfur verða þá engar beygjur á vegina og enginn halli, því öðru vísi verður ekki hægt að koma í veg fyrir banaslys?

Hvernig væri bara að aka hægar? Aka á löglegum hraða og virða umferðareglurnar. Það er gjörsamlega ofar mínum skilningi að menn geti ekki ekið á löglegum hraða, verið í belti og sleppt því að taka fram úr, liggur mönnum virkilega lífið á?

Vandamálið í umferðinni er að það eru alltaf einhverjir sem geta ekki farið eftir þessum sáraeinföldu reglum og ógna um leið umferðaröryggi okkar hinna. Hertar refsingar og aukið eftirlit eru leiðir til þess að stemma stigu við þessari hegðun. Eins og rætt hefur verið um hérna á Deiglunni hafa refsingar nýlega verið hertar við umferðarlagabrotum og er það vel. Næsta mál á dagskrá er þá að fylgja þeim eftir með auknu eftirliti. Svo segir mér hugur að stöðugt eftirlit á fjölförnustu vegum landsins sé mun ódýrari og ekki síður árangursrík leið til að stemma stigu við umferðarómenningunni en tvöföldun allra vega sem mun svo kalla á auknar kröfur um beinan og breiðan veg allt landið um kring.

En fyrst og fremst er það á okkar ábyrgð að virða umferðareglurnar og brýna það fyrir þeim sem við ökum með að virða þær líka. Stöðug óvirðing fyrir lögunum á ekki að vera afsökun fyrir því að ríkið þurfi að grípa til aðgerða til að menn geti samviskulaust ógnað eigin öryggi og annarra.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.