Hvað er nýtt við nýja fjölmiðlafrumvarpið?

Miðað við það uppþot sem varð í þjóðfélaginu fyrir rúmum tveimur árum vegna fjölmiðlamálsins svokallaða, gæti maður haldið að hið nýja fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar myndi vekja mikla athygli. En það hefur hins vegar varla verið í umræðunni. Engu að síður felur hið nýja frumvarp í sér sama inngrip í fjölmiðlamarkaðinn og hið eldra gerði.

Þrátt fyrir að tilefnið sé ekki augljóst hafa stjórnmálamenn þessa lands haft ómældan áhuga á því undanfarin ár að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum. Að vísu studdi stjórnarandstaðan ekki frumvarp forsætisráðherra vorið 2004 þó þingmenn hennar hefðu margir tekið fram í umræðum á Alþingi að þeir hefðu áhuga á að setja slíkar takmarkanir – þeir gætu bara ekki sætt sig við þá útfærslu sem frumvarpið umdeilda fól í sér. Áhuginn á reglusetningu hefur sum sé í grunninn verið til staðar í öllum flokkum hvað sem leið afdrifum fjölmiðlafrumvarpsins á sínum tíma.

Nú liggur hið nýja fjölmiðlafrumvarp fyrir Alþingi. En hver er munurinn á eldra og nýrra frumvarpinu? Í stuttu máli er hann ekki mikill. Í hinu nýja frumvarpi er með sama hætti og í hinu eldra verið að setja reglur um eignarhald á fjölmiðlum og að ákveðið hámark verði sett á hvað einstakir aðilar megi eiga í tilteknum fjölmiðlum. Að vísu er ákveðinn útfærslumunur en hafi einhver verið mótfallinn hinu eldra frumvarpi á þeim forsendum að það skerti frelsi á fjölmiðlamarkaði, getur sá hinn sami óhræddur haldið þeirri skoðun til haga gagnvart hinu nýja frumvarpi. Það byggir, líkt og hið eldra frumvarp, á þeirri grundvallarhugsun að setja þurfi ákveðnar reglur og hámark á eignarhald einstakra aðila í fjölmiðlum – að reglur séu betri leið til að tryggja fjölbreytni á markaði en frelsi.

Eldra frumvarpið tók til útgáfu útvarpsleyfa. Það fól í sér að ekki mætti veita leyfi til útvarpsreksturs til fyrirtækis sem hefði ársveltu yfir tvo milljarða og ef annað fyrirtæki ætti meira en 35% eignarhlut í því eða ef fyrirtæki í sömu fyrirtækjasamstæðu ættu samanlagt meira en 35% (þetta hlutfall var upphaflega lægra) í fyrirtækinu. Eins að ekki mætti veita leyfi til útvarps til fyrirtækis sem hefði að meginmarkmiði rekstur sem væri óskyldur fjölmiðlarekstri. Þetta var umdeilt frumvarp og endaði eftir stjórnskipulegan þvæling milli þings, ríkisstjórnar og forseta með því að vera dregið til baka.

En hvað felst í hinu nýja frumvarpi? Samkvæmt því kemur það í hlut útvarpsréttarnefndar að skera úr um hvort reglur um hámarkseignarhlutdeild hafi verið brotnar og þá í kjölfarið hvort tilteknum aðilum verði gert að minnka eignarhlut sinn í viðkomandi fjölmiðli. Viðmiðið sem nefndin mun nota eru áhorfs-, hlustunar- og lestrarkannanir sem verða framkvæmdar með reglulegu millibili á útbreiðslu einstakra fjölmiðla hér á landi. Fari lestur, áhorf eða hlustun þessara fjölmiðla yfir 33% þrjá mánuði í röð, þ.e. þriðjungsmarkaðshlutdeild, verða reglur um hámarkseignarhlutdeild virkar og þeim fjölmiðlafyrirtækjum sem halda úti fjölmiðlum yfir þessum mörkum verður gert að „lagfæra“ eignarhaldið hjá sér þannig að enginn einn hluthafi eigi meira en 25% í fyrirtækinu. Það þarf kannski ekki að koma á óvart að Ríkisútvarpið á að standa utan þessara reglna.

Í stuttu máli mun útvarpsréttarnefnd þannig geta tekið ákvarðanir sem kunna að hafa gífurlega þýðingu fyrir fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði og fela í sér verulegt inngrip í markaðinn, þ.e. að skylda hluthafa til að selja eignarhlut sinn í fjölmiðli, á grundvelli skoðanakannanna en nefndin getur falið fyrirtækjum að framkvæma kannanirnar. Þannig að næst þegar þið, kæru lesendur, fáið símtal frá Gallup, eða Capacent, eða hvað þetta heitir nú, þar sem spurt verður út í hvaða fjölmiðla þið skoðið helst, er gott að hafa bak við eyrað að svarið kann að hafa veruleg áhrif á afkomu fjölmiðilsins. Ekki þannig að mikill lestur eða áhorf komi sér vel, heldur getur það beinlínis komið viðkomandi fjölmiðli í vandræði ef hann fer yfir 33%-markið.

Nú mætti reyndar segja sem svo að það sé ekki auðvelt að útfæra sanngjarnar eða einfaldar reglur um hvernig haga eigi reglum sem þessum. En þá blasir við sú spurning hvers vegna verið sé að setja þessar reglur á annað borð. Það er ekkert í spilunum um að þörf sé á slíkum reglum. Frjáls markaður tryggir þá fjölbreytni sem nauðsynleg er, eins og kom fram á dögunum þegar kynntar voru niðurstöður alþjóðlegra samtaka fréttamanna. Þar kom fram að fjölmiðlar á Íslandi, ásamt þremur öðrum löndum, nytu hvað mest frelsis í heiminum.

Fjölmiðlamarkaður sem hefur ekki búið við þessar reglur hefur þannig fært okkur Morgunblaðið, Fréttablaðið og Blaðið auk Viðskiptablaðsins sem hefur verið gefið út tvisvar í viku en til stendur að gera að dagblaði og svo helgarútgáfu DV. Við höfum Stöð 2 með öfluga fréttastofu auk sjónvarpsstöðvanna Sirkuss, Skjás eins og Sýnar. Á útvarpsmarkaði er fjöldi útvarpsstöðva og flytur Bylgjan m.a. reglulega fréttatíma. Þess ber þó að geta að forskot Ríkisútvarpsins í skjóli opinberra framlaga er mikið á bæði sjónvarps- og útvarpsmarkaði, en þar bætast engu að síður við tvær öflugar fréttastofur við það sem áður er talið. Enn eru ótaldir vefmiðlarnir, mbl.is og visir.is auk þess sem Ríkisútvarpið heldur úti ruv.is og Viðskiptablaðið vefmiðlinum vb.is. Ennfremur má benda á fjölda héraðsfréttablaða og vefmiðla sem halda úti sjálfstæðum fréttaflutningi, eins og t.d. Bæjarins bestu á Ísafirði, Víkurfréttir á Suðurnesjum og Skessuhorn á Vesturlandi. Þetta er auðvitað ekki nema brot af þeim fróðleik og upplýsingum sem Íslendingar geta aflað sér á vefnum, enda eru ótal vefsíður fyrirtækja, stofnana og einstaklinga sem birta fréttir og fréttatengda umfjöllun. Þar fyrir utan er hér heilmikil tímaritaútgáfa, eins og t.d. Ísafold, Frjáls verslun og Mannlíf eru dæmi um. Manni hefur nú frekar fundist framboðið vera of mikið en hitt.

Það getur hins vegar verið erfitt að eiga við það þegar stjórnmálamenn bíta það í sig að „taka þurfi á ástandinu“ og „efla og auka fjölbreytni“ með allskonar ríkisafskiptum. Þá virðist litlu skipta að hér sé öflugur fjölmiðlamarkaður til staðar sem kannski helst skekkist vegna forskots Ríkisútvarpsins á keppinauta sína – það þarf samt að setja reglur. Ef tilefni var til þess að setja spurningamerki við eldra frumvarpið um fjölmiðla, ætti það ekki síður að vera fyrir hendi með hið nýja frumvarp.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.