Vegna ferðaþjónustunnar?

Settar hafa verið fram heimsendaspár um ferðaþjónustu á Íslandi vegna afstöðu og aðgerða í auðlinda- og umhverfismálum. En er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af og eiga erlendir ferðamenn að vera útgangspunktur í umræðunni um þessi mál?

Fjölgun ferðamanna til landsins heldur áfram. 817 þúsund farþegar fóru um Leifsstöð á fyrstu ellefu mánuðum ársins, sem er aukning um 100 þúsund eða 14,7%. Þessar tölur segja ekki þó allt um fjölda ferðamanna til landsins og því fróðlegt að skoða einnig fjölda gistinátta á hótelum en þar er einnig mikil fjölgun.

Alls voru rúmlega milljón gistinætur nýttar á fyrstu tíu mánuðum ársons og aukingin er um 11% frá í fyrra. Frá 1997 hefur aukningin verið að meðaltali 7% milli ára og því ljóst að aukingin nú er talsvert yfir meðaltali. Einnig eru vísbendingar um að ferðamannatímabilið sé að lengjast því í október í ár voru 13% fleiri gistinætur en í sama mánuði í fyrra.

Það er því ljóst að ekki einungis fjölgar ferðamönnum, heldur fjölgar þeim hraðar í ár en flest undanfarin ár. Þó þetta komi líklega fæstum á óvart er þetta engu að síður áhugavert. Ekki síst í ljósi þess að umdeildar virkjanaframkvæmdir og tilraunahvalveiðar virðast ekki hafa neikvæð áhrif. Og þó það sé líklega of snemmt að segja til um áhrif hvalveiða í atvinnuskyni, virðist auking gistinátta í október umfram aukingnu ársins gefa jákvæða vísbendingu.

Þetta eru vissulega góðar fréttir og vonandi er Ísland að njóta þess að hafa stundað mjög ábyrga stjórnun auðlinda landsins, að langstærstum hluta. Nú eru uppi hugmyndir í Evrópusambandinu um mikinn niðurskurð á þorskkvóta og fækkun sóknardaga. Á meðan njótum við nokkuð stöðugs ástands. Það er margviðurkennd staðreynd að okkur hefur tekist betur upp í fiskveiðistjórnun en flestum öðrum þjóðum í Evrópu og Norður-Ameríku. Hvalveiðar eru hluti af ábyrgri stefnu í þessum málaflokki.

Þessa sömu ábyrgð þurfum við að sýna þegar kemur að öðrum umhverfismálum. Það þarf að setja skýrari stefnu og ramma um nýtingu náttúruauðlinda. Það er ljóst að slík stefna getur aldrei fallið öllum í geð. það er óskynsamlegt að virkja út í eitt og byggja stóriðju með það að markmiði að auka hagvöxt til skamms tíma eða reyna að minnka niðursveiflu. Það er líka óskynsamlegt að hafna frekari framkvæmdum eða nýjum tækifærum til verðmætasköpunar. Þarna á milli er meðalvegur sem reyna þarf að ná sem mestri sátt um.

Líkur eru til þess að ferðamannastraumurinn haldi áfram að aukast þó hér verði hver spræna virkjuð. Það er því ekki vegna erlendra ferðamanna heldur okkar sjálfra sem við eigum að taka ábyrgð. Það erum jú við sem búum hér.

Latest posts by Brynjólfur Ægir Sævarsson (see all)