Íslensk Wikipedia

Wikipedia, alfræðiorðabókin sem allir geta tekið þátt í að skrifa, hefur á undanförnum árum öðlast æ ríkari sess og hefur ósjaldan verið vitnað í hana hér á Deiglunni. Íslenska Wikipedian er öllu smærri í sniðum, en þó er vel þess virði að líta á hana.

Wikipedia, alfræðiorðabókin sem allir geta tekið þátt í að skrifa, hefur á undanförnum árum öðlast æ ríkari sess og hefur ósjaldan verið vitnað í hana hér á Deiglunni. Íslenska Wikipedian er öllu smærri í sniðum, en þó er vel þess virði að líta á hana.

Íslenska Wikipedian verður að sjálfsögðu aldrei jafnumfangsmikil og sú enska. En ekki lesa allir ensku, og á tímum ýmissa málverndarátaka (svo sem stofnun umboðsmanns íslenskrar tungu, sem Flugufótur Deiglunnar fjallaði um á dögunum), er ókeypis íslensk alfræðiorðabók kærkomin viðbót. Fyrir börn og unglinga er gott að hafa aðgang að alfræðiriti á móðurmálinu. Á íslensku Wikipediunni má líka stundum finna upplýsingar um hluti sem ekki er fjallað jafnvel um í ensku útgáfunni, sérstaklega um hluti sem varða Ísland.

Á íslensku Wikipediunni er að finna ágætisgreinar um ýmislegt fyrir áhugafólk um stjórnmál og þjóðmál, svo sem um Menntaskólann í Reykjvaík, Alþingi, Davíð Oddsson og stjórnarskrárna, en líka um staði, svo sem Reykjavík, Akureyri og Vestmannaeyjar og Gullfoss. Eins er þar að finna upplýsingar um alþjóðlegra efni, svo sem um heimspeki, sannleik, kristni og íslam.

En öfugt við ensku Wikipediuna má enn finna mörg atriðisorð sem ekki hafa verið skrifaðar greinar um, eða þá að greinarnar eru mjög stuttar. Til dæmis hafa enn ekki verið skrifaðar greinar um rekstrarhagfræði, þróun mannsins, veraldarvefinn, helförina, djass, berkla, býflugur eða Asteka.

Með því að smella á einhvern af ofangreindum hlekkjum geta lesendur hellt sér í að bæta við íslensku Wikipediuna, þótt ekki sé nema einu atriðisorði. Þar sem í langflestum tilvikum eru til ítarlegar greinar um efnið á ensku Wikipediunni eru hæg heimatökin með heimildir, og jafnvel stuttar greinar gera gagn.

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)