Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja

Talsverð umræða hefur verið um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja í samfélaginu og í síðustu viku var fjölmenn ráðstefna um þetta efni á vegum Háskólans í Reykjavík. Einnig birtist grein um þetta efni eftir Björgólf Guðmundsson, bankaráðsformann Landsbankans. Eigendur og stjórnendur fyrirtækja átta sig á því að það er fyrirtækjum mikilægt að samfélagið sem þau starfa í sé heilbrigt og að stutt sé við ýmis mikilvæg samfélagsverkefni sem ekki er hægt að ætlast til að ríkið eitt sjái um.

Talsverð umræða hefur verið um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja í samfélaginu og í síðustu viku var fjölmenn ráðstefna um þetta efni á vegum Háskólans í Reykjavík. Einnig birtist grein um þetta efni eftir Björgólf Guðmundsson, bankaráðsformann Landsbankans. Eigendur og stjórnendur fyrirtækja átta sig á því að það er fyrirtækjum mikilægt að samfélagið sem þau starfa í sé heilbrigt og að stutt sé við ýmis mikilvæg samfélagsverkefni sem ekki er hægt að ætlast til að ríkið eitt sjái um.

Fyrirtæki eru í raun ekkert annað en fólk sem hefur ákveðið að starfa saman að ákveðnum verkefnum og það skiptir máli fyrir fyrirtækið, starfsfólkið og viðskiptavini að samfélagslegum verkefnum sé sinnt. Starfsmenn Glitnis voru t.d. afar stoltir af Reykjavíkurmaraþoni Glitnis og það er mikilvægt fyrir fyrirtækin og eigendur þeirra að starfsmenn séu stoltir og ánægðir í starfi.

Í nýlegri bók, Corporate Social Responsibility (CSR) eftir Philip Kotler prófessor við Northwestern University í Chicago og Nancy Lee, markaðssérfræðing og kennara við University of Washington og Seattle University, er fjallað um það hvernig fyrirtæki eru í vaxandi mæli að móta sér stefnu í þessu efni. Fleiri heimsfrægir fræðimenn hafa gert þessu máli skil m.a. Michael Porter, prófessor við Harvard háskóla og heiðursdoktor Háskóla Íslands. CSR er nánast orðin ákveðin grein innan stjórnunarfræðanna og mörg stærri fyrirtæki hafa mótað sér stefnu og eru með starfsmenn sem sinna þessum verkefnum.

CSR snýst um það að bæta hagsæld þjóðfélagsins með valkvæðum verkefnum fyrirtækja og nýta til þess fjármuni eða aðrar auðlindir og þekkingu fyrirtækja með markvissum hætti.

Heilbrigt samfélag kemur fyrirtækjum til góða, skilar meiri hagvexti og sóknarfærum. Fyrirtæki þurfa að móta sér stefnu um að verja ákveðnum fjármunum til samfélagslegra verkefna en ekki er skynsamlegt að dreifa peningum hugsunarlaust. Það á við um góðgerðarmál, menningu, listir, íþróttastarf og menntamál svo dæmi séu tekin. Það er ekkert óeðlilegt við það að fyrirtækin hafi eigin hagsmuni og arðsemi í huga í sinni stefnumörkun, því það hlýtur alltaf að vera megin skylda stjórnenda að hafa hag og arðsemi fyrirtækisins að leiðarljósi. Með samfélagslegum verkefnum eru fyrirtækin að styrkja undirstöður þjóðfélagsins og viðurkenna að eðlilegt og sanngjarnt sé að sinna samfélagslegum verkefnum.

Í síðustu viku lést Milton Friedman nóbelsverðlaunahafi í hagfræði, en fyrir 36 árum síðan lét hann þá skoðun í ljós í grein í New York Times Magazine að: „Eina samfélagslega ábyrgð fyrirtækja er að auka sinn hagnað”. Í bók sinni „Capitalism and Freedom” hélt Friedman því fram að ef fyrirtæki leggi fjármuni í eitthvað annað en daglegan rekstur, þá sé verið að taka vald og frelsi af einstaklingunum sem eiga fyrirtækið. Eigendurnir sjálfir eigi að ákveða þetta. Viðhorfin í dag eru hins vegar önnur. Fyrirtæki lifa ekki í einangrun og ekki er á það treystandi að stjórnvöld verji sköttum fyrirtækja og einstaklinga til samfélagslegra verkefna. Á sama tíma og skattar fara lækkandi bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum er eðlilegt að samfélagsmálum sé sinnt af þessum aðilum.

Ég held að flestir viðurkenni nú nauðsyn þess að fyrirtæki taki þátt í samfélagslegum verkefnum. Það eflir einnig þeirra hag og hagnað og þátttaka á þessu sviði þarf ekki að ganga gegn grundvallar hugsjón Milton Friedman.

Latest posts by Sæunn Björk Þorkelsdóttir (see all)