Skemmtilegasti rektor landsins flæmdur í burtu!

Helgarnestinu er þungt í skapi á köldum föstudegi og beinir spjótum sínum að menntasnobbi og akademíum.
Háskólar, og annað þess konar pakk, eru ekki aðeins sjálfhverfir, þeir geta líka verið hryllilega leiðinlegir. Háskólaborgarar ganga upp í því að lifa í akademískum hamborgaraheimi þar sem þeir sjá ekkert út fyrir akademíuna ( hamborgarabrauðið) og telja akademíuna vera þann stað þar sem sól rís og sól sest og að fjármunir skapist fyrst og fremst í bókhaldsdeildum. Gott ef hjólið var bara ekki fundið upp í málstofu um heimspeki Hegels!

Hvað segði Jónas núna?

Helgarnestinu er þungt í skapi á köldum föstudegi og beinir spjótum sínum að menntasnobbi og akademíum.

Háskólar, og annað þess konar pakk, eru ekki aðeins sjálfhverfir, þeir geta líka verið hryllilega leiðinlegir. Háskólaborgarar ganga upp í því að lifa í akademískum hamborgaraheimi þar sem þeir sjá ekkert út fyrir akademíuna ( hamborgarabrauðið) og telja akademíuna vera þann stað þar sem sól rís og sól sest og að fjármunir skapist fyrst og fremst í bókhaldsdeildum. Gott ef hjólið var bara ekki fundið upp í málstofu um heimspeki Hegels!

Akademískar umræður, hlutlægni, vergur, gagnályktun og frotteismi eru orð sem akademían brúkar til þess að skilja sig frá sauðsvörtum almúganum og útiloka þá sem ekki eru innvígðir og innmúraðir í íðorð fræðigreinana. Þannig þarf aldrei að rökræða við pöpulinn. Vinsælt er síðan að sötra léttvín og snæða snittur í kokteilboðum að loknum fyrirlestrum og málstofum sem að sjálfsögðu er snædd á kostnað styrkjenda eða ríkisins og ræða umræðuefni í íðorðastíl og um hámenningarefni samfélagsins: synfoníur, óperur, og nýjustu glæpasögu Arnaldar Indriðasonar. Þess á milli dundar akademían sér við að setja siðareglur ofan á siðareglur ofan á siðareglur um nokkurn veginn allt sem gerst getur í akademísku samfélagi.

Akademían, sem hreykir sér af því að vera almennt séð víðsýn, er hins vegar hrikalega þröngsýn heiftúðug og mórölsk þegar kemur að þeim sem feta ekki sama slóða og binda bagga sína öðrum pelastikkum en samferðarmenn hennar. Akademíuna vill að ákveðinn elegans og siðfágun ríki í háskólasamfélagi og að á yfirborðinu líkist það helst dönsku súkkulaðiboði, eða ensku teboði síðla dags. Önnur hegðun er ekki akademísk. Það er með öðrum orðum hræðilegt að súpa úr brennivínsflösku af stút, en viðeigandi og æskilegt að dreypa á glasi af þrúguvíni í síðdegisboði.

Glöggt má þetta sjá í Háskólanum á Bifröst þessa dagana þar sem rektorinn hefur sagt upp störfum sínum vegna eineltis akademíunnar. Fyrir þá sem ekki þekkja til er Háskólinn á Bifröst staður þar sem Samfylkingarmenn eru sagðir kenna Framsóknarmönnum að verða Sjálfstæðismenn og er í Borgarfirði, rétt hjá fjallinu Baulu. Rektorinn hefur verið sakaður um ýmis konar vafasama hegðun allt frá skefjalausum næturveisluhöldum í rektorsbústað í miðri viku, meintum einræðistilburðum í stjórnun til þess að hafa veðjað við stúdent upp á skólagjöld stúdentsins.

Þetta finnst akademíunni ekki sniðugt og var gerð aðför að rektor háskólans með nafnlausu ákæruskjali sem gekk manna á milli um meinta háttsemi rektors. Mátti á skjalinu skilja að það væri rektorum ósæmandi að veðja, eiga í samskiptum við fólk, taka ákvarðanir, bjóða fólki heim til sín, ræða við aðra stúdenta en þá sem sérstaklega voru honum andfallnir. Allt þetta var síðan brot á endalausum siðareglum sem akademían á Bifröst hefur sett um skipti manna á milli í Borgarfirði.

Það er sjónarsviptir af rektornum á Bifröst. Hann var ákveðinn, hann hafði skoðanir og var ekki feiminn að halda þeim fram. Hann notaði tungutak sem alþýðan skildi og hann skildi þarfir venjulegs fólks og sat ekki í fílabeinsturni fræðanna einangraður frá samfélaginu.

Helgarnestið lýsir frati ofangreinda aðför og að að hluti af siðprúðri akademíu Bifrastar hafi orsakað það að rektor háskólans hefur núna verið flæmdur í burtu. Með því er skemmtilegasti og skeleggasti rektor landsins hættur. Við það þarf að setja punkt sem ekki hefði átt að þurfa að setja fyrr en að ári liðnu. Þeir sem ollu þeirri greinarmerkjasetningu mega svo sannarlega skammast sín.

Latest posts by Ari Karlsson (see all)

Ari Karlsson skrifar

Ari hóf að skrifa á Deigluna í janúar 2005.