Bilderberg

Í kjölfar velgengni Fredriks Reinfeldts og hægri flokks hans í sænsku þingkosningunum hefur hinn dularfulli Bilderberger-hópur komist í fréttirnar á ný.

Í kjölfar velgengni Fredriks Reinfeldts og hægri flokks hans í sænsku þingkosningunum hefur hinn dularfulli Bilderberger-hópur komist í fréttirnar á ný. Ástæðan er sú að Reinfeldt er sagður hafa sótt fund hópsins í Ottawa, Kanada í júní á þessu ári. Þrátt fyrir að ekki sé hægt að fullyrða um tengsl fundarins og árangurs Reinfeldts er engu að síður athyglisvert að skoða sögu hópsins og meint áhrif hans á stjórnmál og viðskipti víða um heim.

Hópurinn kom fyrst saman í Oosterbeek í Hollandi árið 1954 að frumkvæði Pólverjans Joseph Retinger og Bernhards Hollandsprins. Þó er talið að David Rockefeller sé nokkurs konar guðfaðir hópsins og hefur hann mætt á alla fundi sem haldnir hafa verið. Hópurinn dregur nafn sitt af fyrsta fundarstaðnum, Hotel de Bilderberg.

Kveikjan að hugmyndinni voru áhyggjur Retingers af aukinni andúð íbúa Vestur-Evrópu í garð Bandaríkjamanna og var yfirlýstur tilgangur hópsins að auka skilning milli Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku með óformlegum viðræðum milli helstu valdamanna landanna á flestum sviðum þjóðfélagsins. Með árunum hefur áhrifasvið hópsins þó teygt anga sína víðar, og meðal annars er stríðsrekstur Bandaríkjamanna í Írak af mörgum talinn eiga rætur sínar að rekja til þeirra Bilderberg-manna.

Það sem skilur Bilderberg frá öðrum valdamiklum samkomum, eins og World Economic Forum, er hið dulúðlega yfirbragð hópsins og leyndin sem hvílir yfir fundunum. Höfuðstöðvarnar eru í látlausum húsakynnum í hollenskum smábæ og símtölum er svarað með einföldum skilaboðum á símsvara; fátt gefur til kynna að þarna er stofnun til húsa sem af mörgum er talin ein sú valdamesta í heiminum.

Fundirnir, sem að jafnaði eru haldnir árlega, fara fram víðs vegar í Evrópu og Norður-Ameríku og þá dugar ekkert minna en fimm stjörnu hótel undir öll fyrirmennin og herlegheitin. Þó fara fundirnir afar hljótt og ekki er tilkynnt um þá fyrr en allir gestirnir hafa haldið aftur til síns heima. Málefni hvers fundar eru send öllum sem tekið hafa þátt í slíkum samkomum og að sjálfsögðu er ítrustu þagmælsku krafist af gestum. Ef fjölmiðlar og aðrir áhugamenn fá veður af fundunum þá er þeim haldið frá af lögreglumönnum og strangri öryggisgæslu.

Stjórnmálamönnum og háttsettum embættismönnum, forkólfum úr viðskipta- og fjölmiðlaheiminum auk fræðimanna og annarra hugsuða er boðið á fundina og eru þeir oftast um 130 talsins. Frægir gestir á Bilderberg-fundum hafa meðal annars verið járnfrúin Margaret Thatcher, Karl Gústaf, Svíakonungur og Henry Kissinger, svo einhverjir séu nefndir. Nokkrir Íslendingar hafa tekið þátt í slíkum fundum og má þar nefna Davíð Oddsson og Geir Hallgrímsson.Núverandi formaður er Etienne Davignon, belgískur stjórnmála- og viðskiptamaður, og meðal virkra meðlima hópsins má telja Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Stephen Harper, forsætisráðherra Kanada, og Paul Wolfowitz, yfirmann Alþjóðabankans.

Þrátt fyrir að áhrif Bilderberg-hópsins hafi aldrei verið staðfest sökum dulúðarinnar sem hvílir yfir fundum þeirra, þá er flest sem bendir til að þetta sé samkunda áhrifamesta fólks Vesturheims og að þar fari fram opinskáar umræður um stöðu mála í heiminum hverju sinni. Hvort þarna séu teknar afdrifaríkar ákvarðanir um skipan í valdastöður eða þróun heimsmála er hins vegar erfiðara að segja til um. Þó er varla hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að Fredrik Reinfeldt er langt frá því að vera eini stjórnmálaleiðtoginn sem hefur farið á fund hópsins áður en hann komst til valda. Hann er þar í góðum hópi fólks á borð við Bill Clinton (Bilderberg-fundur: 1991/forseti: 1993), Tony Blair (Bilderberg-fundur: 1993/forsætisráðherra: 1997) og Angelu Merkel (Bilderberg-fundur: 2005/kanslari: 2005).

Hvað sem öllum samsæriskenningum líður þá er erfitt að líta á þetta sem röð tilviljana. Forvitnilegt verður að sjá hverjum verður boðið á næsta fund hópsins, sem að öllum líkindum verður haldinn á vormánuðum 2007, en má ekki teljast líklegt að næsti forsætisráðherra Íslands sitji fundinn?

Latest posts by Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir (see all)