Hingað og ekki lengra!

Eftir umfjöllun Kastljóss þriðjudaginn 12.sept. um umferðarslys átti ég ekki til orð yfir þeim hryllingi sem fylgir íslenskri umferð. Ég fann mig knúna til þess að skrifa niður örfá orð og settist við tölvuna mína og skrifaði niður hugleiðingar mínar. Daginn eftir birtist svo frétt í Morgunblaðinu um að Umferðarstofa hygðist standa fyrir átaki gegn umferðarslysum undir yfirskriftinni „Nú segjum við stopp!” og að borgarafundir skyldu haldnir víðsvegar um landið. Ég varpaði öndinni léttar og hugsaði með mér hve nauðsynlegt slíkt átak væri. En eftir smá íhugun fór ég að velta fyrir mér hversu mikil áhrif svona átak mundi hafa? Mun það breyta einhverju?

Eftir umfjöllun Kastljóss þriðjudaginn 12.sept. um umferðarslys átti ég ekki til orð yfir þeim hryllingi sem fylgir íslenskri umferð. Ég fann mig knúna til þess að skrifa niður örfá orð og settist við tölvuna mína og skrifaði niður hugleiðingar mínar.

Daginn eftir birtist svo frétt í Morgunblaðinu um að Umferðarstofa hygðist standa fyrir átaki gegn umferðarslysum undir yfirskriftinni „Nú segjum við stopp!” og að borgarafundir skyldu haldnir víðsvegar um landið. Ég varpaði öndinni léttar og hugsaði með mér hve nauðsynlegt slíkt átak væri. En eftir smá íhugun fór ég að velta fyrir mér hversu mikil áhrif svona átak mundi hafa? Mun það breyta einhverju?

Í áðurnefndri umfjöllun Kastljóss kom fram að ofsaakstur og/eða kappakstur hafa með beinum hætti valdið dauða átta manns í umferðinni það sem af er ári, en fjórir létust af völdum slíkra ökudólga á árunum 1998 – 2004. Alls hafa 20 manns látið lífið í umferðinni á þessu ári. Því virðist sú ógnvænlega þróun vera að eiga sér stað, að slysum sem rekja má beint til ofsaaksturs og kappaksturs, er að fjölga. Þessi þróun hlýtur að fá mann til að staldra við og velta fyrir sér hvað sé að gerast í þjóðfélaginu.

Ég vil meina að ábyrgð foreldra og þeirra sem eldri eru hljóti að vera einhver ef ekki ansi mikil. Það virðingarleysi sem ríkir í íslenskri umferð hefur held ég sitt að segja. Ökumenn bera litla sem enga virðingu fyrir öðrum ökumönnum og enn minni virðingu fyrir lögreglunni og umferðarlögunum. Íslensk börn, mörg hver, alast upp við það að foreldrar þeirra(eða aðrir forráðamenn) bölva öðrum ökumönnum, bölva lögreglunni og fara ekki að umferðalögum. Hvaða skilaboð sendir þetta til ungra ökumanna sem eru að koma út í umferðina. Kannski það að lögin séu asnaleg, löggan sé bara fávitar upp til hópa og sá sem keyrir bílinn viti best sjálfur hver takmörk hans eru? Eru þetta þau skilaboð sem við viljum að ungir ökumenn hafi með í farteskinu? Fólk verður að gera sér grein fyrir því að þeir sem eldri eru og hafa lengri reynslu af umferðinni eru fyrirmyndir annarra og ber að haga sér eftir því.

En hvað er til ráða? Hvernig er hægt að fá ökumenn til að taka sig á, og gangast við þeirri ábyrgð sem því fylgir að keyra í umferðinni. Umferðarstofa rekur reglulega áróðursherferðir sem eru oftast mjög áhrifamiklar. En einhvern veginn ná þessar herferðir ekki til þeirra sem þarf að ná til. Margar leiðir hafa verið nefndar til úrbóta, t.d. bætt ökukennsla, hækkun bílprófsaldurs, uppsetning svokallaðra ökugerða o.fl. Ég tel margt jákvætt vera við þessar hugmyndir, en þær duga þó skammt ef ekki næst að breyta viðhorfi fólks. Önnur leið væri líka að þyngja refsingar við umferðarlagabrotum mikið, sem ég tel að yrði til bóta. Einnig tel ég nauðsynlegt að bregðast hart við þeim ofsaakstri sem viðgengst á vegum landsins. Þeir sem þann akstur stunda eru réttnefndir „hryðjuverkamenn” í umferðinni og virðast enga virðingu bera fyrir sínu eigin lífi, hvað þá lífi annarra.

En þá aftur að átaki Umferðarstofu. Með þessu átaki er reynt að ná til fólks með þeim hætti að fólk geri sér grein fyrir ábyrgð sinni og gangist við henni. Þetta tel ég vera jákvætt skref. En aftur á móti dugar svona áróður skammt ef fólk lætur ekki segjast og breytir ekki hegðun sinni. Allir vilja góða og öfluga löggæslu, en löggæsla og umferðarlög er til lítils ef fólk telur þau ekki eiga við sig og fylgir þeim ekki.

Því er nauðsynlegt að hver og einn líti í eigin barm og hugsi með sér hvort hann vilji að ástandið í umferðinni skáni og þá hvernig maður sjálfur getur stuðlað að því. Vitundarvakning byrjar í hugum fólks og verður fyrst að veruleika þegar fólk breytir hegðun sinni. Það er ekki nóg að horfa bara á sjónvarpið og fussa yfir öllum umferðarslysunum og fara svo beint út í bíl og keyra gáleysislega.

Á heimasíðunni www.stopp.is er í gangi undirskrifasöfnun þar sem fólki gefst kostur á að skrifa undir yfirlýsingu um að haga sér betur í umferðinni. Ég vil hvetja sem flesta til að gera það og hef sjálf gert svo. En það sem er mikilvægast, er að fólk breyti hegðun sinni í umferðinni til frambúðar og axli þá ábyrgð sem hvílir á herðum þess. Nú þegar hafa 20 manns látið lífið í umferðinni á þessu ári. Leggjumst öll á eitt og gerum allt sem í okkar valdi stendur til að lágmarka þessar mannfórnir. Hingað og ekki lengra!

Latest posts by Helga Lára Haarde (see all)

Helga Lára Haarde skrifar

Helga Lára hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.